Hermigervill leikur vinsæl íslenzk lög

16. júní gefur Sveinbjörn Thorarensen út sína þriðju breiðskífu undir listamannsnafninu Hermigervill, Hermigervill leikur vinsæl íslenzk lög.

HermigervillHermigervill leitar víða fanga í sinni tónlist. Fyrsta platan hans, Lausnin, var hip-hop skotið sampl-mósaík í anda DJ Shadow og Avalanches. Á næstu plötu, Sleepwork, var vínylsnarkið enn áberandi og hljóðsmalanum beitt óspart, en ýmis popp-element læddust með, gítar hér, söngkonur þar. Síðan þá hefur Sveinbjörn sífellt bætt við sig andlitum og gert léttpopp, diskófönk, naumhyggjutekknó, sveim, hiphop, undirspil fyrir nútímadans og gjörninga, auglýsingastef og endurhljóðblandað lög fjölda listamanna (Gusgus, Quarashi, Walter Meego, Reykjavík!, Sometime o.s.frv.).

Samhliða þessu hefur hann stundað hljóðupptökunám í Hollandi og sankað að sér aragrúa úreltra raf-hljóðfæra. Raftónlistarsagan er Hermigervli nefnilega hugleikin og það endurspeglast í þessari þriðju breiðskífu.

Nýja platan inniheldur einungis instrúmental ábreiður af þekktum íslenskum dægurlögum, sem færðar hafa verið í undarlegan, ef ekki hálf vitskertan hljóðgervlabúning þar sem hið kjánalega og fagra eiga óvænta samleið. Fyrst þegar farið var að framleiða hljóðgervla fyrir almenning, á sjötta og sjöunda áratugnum, varð vinsælt sport að taka upp þekkt lög og klassíska tónlist í rafvæddum útgáfum. Má þar nefna listamenn eins og Wendy Carlos og Jean-Jaques Perrey og fjölda minni spámanna. Þessi tónlist hefur nú á dögum ómótstæðilegt aðdráttarafl liðinnar framtíðar: í senn hallærisleg og hugvitsamleg, einstök í hljómi en kunnugleg í tónum, einlæg í yfirborðskennd sinni – ein alsherjar yndisleg mótsögn.

Hermigervill – Sveitin milli sanda

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Plata Hermigervils er að miklu leyti eftir þessari retro-forskrift, en þó ekki í þeim skilningi að apað sé eftir öllu í köldu og kalkúleruðu háði – þó hljómurinn standi í þakkarskuld við tilraunamennsku sjöunda áratugarins greinir margt á milli. Einfeldingurinn hann Hermigervill hefur miklu frekar tileinkað sér sjálft hugarfar gömlu rafgúrúanna: Hann hefur einlægan, barnslegan áhuga á tækninni og tólunum og ber jafnframt einlæga ást til dægurperlanna sem hann leikur. Hann langaði að klæða þessi lög í sinn brenglaða búning einfaldlega því þannig mátti sameina tvær ástríður.

Sá búningur er, eins og áður segir, í grunninn ofinn úr tærum, hliðrænum hljóðgervlatónum fortíðar, en jafnframt úir og grúir af öllum mögulegum (ó)hljóðum: Hermigervill leikur á fiðlu, bassa, þeremín, gítar, trommur og tilfallandi hluti, skankar skífum og klippir og brenglar fundin hljóð, eigin rödd og annarra verk til að fylla upp í hljóðmyndina, svo gamlir aðdáendur munu kannast við sinn mann. Á endanum snýst þó allt um sígildar, þjóðþekktar laglínur, sem ráða algerlega för.

Hermigervill – Glugginn

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

4 responses to “Hermigervill leikur vinsæl íslenzk lög”

 1. arna snow says:

  hvað get ég svo verslað þessa yndislegu skífu? 😀

 2. Vísir says:

  Hvaða lag er hann að covera í laginu glugginn?

  afhverju minnir það svona rosalega á eitthvert nintendo theme-song?

 3. Ari says:

  Það er lagið Glugginn með Flowers

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.