• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Emilíana Torrini – Me And Armini

Einkunn: 3.5
Útgáfuár: 2008
Label: Rough Trade

Me-And-Armini-by-Emilíana-Torrini_TXYsKi6UHl8x_fullEmilíana Torrini hefur í gegnum árin verið í hópi áhugaverðustu tónlistarmanna landsins, og ekki að ástæðulausu. Hún er með fallega og eftirminnilega rödd sem hefur vakið mikla athygli á henni erlendis og er hún jafnan nefnd í sömu andrá og Björk. Íslendingar hafa hinsvegar ekki verið eins snöggir að sjá hæfileika hennar og er það nú með Me and Armini sem Emilíana syngur sig hægt og rólega inn í hjörtu landans – og ekki seinna vænna.

Me and Armini er fimmta plata Emilíönu, en hún hefur áður sent frá sér plöturnar Croucie d´oú lá og Merman (sem eru ansi illfáanlegar í dag) og svo Love in the Time of Science og Fisherman’s Woman. Töluverðrar fjölbreytni gætir í lagasmíðum Emilíönu og eru plöturnar að sama skapi ansi mismunandi. Til að mynda er Love in the Time of Science tilraunkennd og eilítið myrk á meðan Fisherman’s Woman er í ljúfari kantinum. Me and Armini er rökrétt framhald þeirrar síðarnefndu, án þess þó að staðna. Platan er margslungin og áhugaverð að mörgu leyti, fullorðinsleg og þorin en á sama tíma sykursæt. Persónuleiki Emilíönu skín í gegn og fær að njóta sín og verður afurðin eftirminnilegri fyrir vikið. Platan heillar strax við fyrstu hlustun og er því ekki að undra að hún hafi fengið jafn góða dóma og raun ber vitni, jafnt hjá gagnrýnendum og almennum hlustendum. Einnig virðast bókstaflega allir hafa gaman af Me and Armini – aldraðir, ungir, konur, karlar, þungarokkarar og unnendur klassískrar tónlistar – og má því með sanni segja að platan sé afar aðgengileg. Hún eldist jafnframt vel, hljómar raunar alveg jafn vel við fyrstu hlustun og hlustun númer hundrað og er það nokkuð sjaldgæft í þessum bransa. Frágangur plötunnar er til fyrirmyndar og útsetningarnar einnig.

Á Me and Armini má finna allt; fjörug lög, róleg lög, skemmtileg lög, leiðinleg lög og tilraunastarfsemi jafnt sem hefðbundnar  formúlur. Nokkur lög af plötunni hafa ratað inn á ýmsa vinsældarlista og fer þar fremst i flokki lagið „Jungle Drum“ sem hvert mannsbarn virðist getað raulað með, rakata tunkatunkarakatungon bombomm…!

Myndbandið við „Jungle Drum“

Myndbandið við „Big Jumps“

Áhugaverð lög eru nokkur, til dæmis ska-lega titillagið „Me and Armini“, ballaðan „Birds“ sem er eitt fallegasta lag Emilíönu til þessa og hið sérkennilega og ávanabindandi „Dead Duck“. Önnur lög plötunnar eru svo ágæt en skyggja á heildina, eru í besta falli miðlungs lagasmíðar. Emilíana má þó eiga það að hún kemur hlustandanum stanslaust á óvart og einmitt þegar Me and Armini er farin að vera helst til einsleit um miðbik plötunnar hljómar „Gun“; lag sem á sér enga hliðstæðu í lögum Emilíönu til þessa og brýtur upp ljúft flæðið með töff laglínu og flottum söguþræði.

Me and Armini er í heild grípandi og skemmtileg plata en þó ekki besta verk Emilíönu til þessa. Það kæmi mér hins vegar ekki á óvart ef meistarastykkið væri næsta plata.

Hér má svo sjá brot frá upptökuferli plötunnar og spjall við Emilíönu um gerð hennar í bland við lagabúta;3 Athugasemdir

 1. stjanigunnars · 26/06/2009

  Hvernig færðu Einkunn:3,5 til að passa við þessa lýsingu?
  … skil ekki!?

  “Platan heillar strax við fyrstu hlustun og er því ekki að undra að hún hafi fengið jafn góða dóma og raun ber vitni, jafnt hjá gagnrýnendum og almennum hlustendum. Einnig virðast bókstaflega allir hafa gaman af Me and Armini – aldraðir, ungir, konur, karlar, þungarokkarar og unnendur klassískrar tónlistar – og má því með sanni segja að platan sé afar aðgengileg. Hún eldist jafnframt vel, hljómar raunar alveg jafn vel við fyrstu hlustun og hlustun númer hundrað og er það nokkuð sjaldgæft í þessum bransa. Frágangur plötunnar er til fyrirmyndar og útsetningarnar einnig.”

 2. Hildur Maral Hamíðsdóttir · 26/06/2009

  Nú, einfaldlega vegna þessa;

  „Önnur lög plötunnar eru svo ágæt en skyggja á heildina, eru í besta falli miðlungs lagasmíðar.“

  Það er margt mjög vel gert en svo lög inná milli sem eru svo la-la að þau draga plötuna mikið niður.

  Svo má benda á einkunnaútskýringar Rjómans;

  „3,0 – Fínasta plata. Þristum má mæla með fyrir aðdáendur tiltekinna hljómsveita eða tónlistarstefna. Aðrir gætu einnig haft gaman af en þurfa þó ekki að hlaupa til og næla sér í eintak.“

  Ég bætti 0.5 við þessa einkunn þar sem mér finnst að aðdáendur Emilíönu þurfi ekkert endilega að vera þeir einu sem fíla þessa plötu þar sem hún er afar aðgengileg eins og kemur fram í dómnum.

  Vona að þetta hafi hjálpað eitthvað 🙂

 3. Frissi · 27/11/2009

  Ég verð bara að segja að mér finnst þessi gagnrýni mjög góð……….

  Ég ákvað ekki að gefa plötunni stjörnugjöf hér sjálfur þar sem mér finnst slíkt eiga heima á heimasíðu hvers fyrir sig ekki í commentum.

  Án efa langt frá því besta sem emma hefur gert uppáhalds platan mín er held ég Merman… Mér finnst “Me and Armini” ef til vill lélegasta platan fyrir utan þá fyrstu.

  En samt sem áður flott framtak hjá frábærum listamanni sem ég lýt rosalega upp til.

Leave a Reply