• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Réttir – Miðvikudagur

  • Birt: 24/09/2009
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Reykavík Round Up – Miðvikudagur

n125438704783_6995Menningarvitar Reykjavíkur hafa úr nægu að moða þessa dagana. Alþjóðleg kvikmyndahátíð stendur sem hæst og tónlistarhátíðin Réttir er nýhafin. Ég varð hálfpartinn fyrir barðinu á þessu framboði í gærkvöldi þar sem mig blóðlangaði að fara á báðar hátíðirnar. Ég hóf kvöldið á ‘Spurt og svarað’ sýningu á Gaukshreiðri Milos Formans og að henni lokinni þaut ég niður í bæ til að láta smala mér í Réttir. Klukkan var þá orðin 11, margt var að sjá og knappur tími til stefnu.

Ég byrjaði kvöldið á Sódómu þar sem rokkbandið Dikta lék fyrir mig 2 stk. ný lög. Annað þeirra, “Satan”, var tileinkað Veðurguðunum. Það er nokkuð ljóst að rokkhundar landsins eru farnir að bíða væntanlegri plötu Diktu með mikilli óþreyju. Tónlist Diktu er kannski ekki beint minn tebolli, en bandið nær vissulega að framreiða kraftmikið og grípandi popprokk af einstakri innlifun. Engar málaflækjur, bara rokkaksjón!

7229_138703819783_125438704783_2399289_7095683_nEftir Diktu lá leiðin á NASA þar sem Hjaltalín lék fyrir dansi. Hljómsveitin spilaði nýtt efni (í bland við gamalt) og er gaman að sjá bandið loksins leika brakandi ferskt efni. Þessi nýju lög lofa líka mjög góðu: kaflaskiptingarnar leiknar af mikilli snilli og krafturinn svona rétt passlegur. Að vanda var spilagleðin taumlaus og Sigríður Thorlacius fór á kostum í einsöngsköflum sínum. Ég ákvað þó að láta mig hverfa þegar ábreiða Hjaltalíns á lagi Togga fór að hljóma: frábært lag sem hefur þó heldur betur verið misnotað af útvarps- og sjónvarpsfólki.

Í kjallara Jacobsens lék raftónlistarmaðurinn Ruxpin efni á nýrri skífu sinni, Where Do We Float From Here. ‘Glitchy’ elektróið sem skífuna prýðir var þó orðið töluvert taktþyngra í sveittri stemningunni og gestir farnir að týna sér í tryllingsdansi. Það er þó sjaldnast mikil upplifun að sjá mann standa og fikta í fartölvu. En tónlistin skiptir víst mestu máli og þungar bassadrunurnar og þéttriðnar taktsmíðarnar náðu að heilla mig.

Ég reyndi að ná í rassinn á Hanne Hukkelberg á Rosenberg en hún var nýfarin af sviði þegar ég mætti. Ég endaði því kvöldið á Grand Rokk þar sem DJ Musician spilaði sitt forneskjulega teknó. Þarna var engin sýndarmennska í gangi: tónlistin var leikinn beint af geislaspilara og tónlistarmaðurinn magnaði upp stemninguna með því að kreppa hnefann og hækka svolítið í græjunum.

Vissulega fékk maður einungis nasasjón af því sem koma skal, en mér sýnist stefna í góða hátíð! Vel var mætt á tónleikana og bjórinn bragðaðist bara bærilega! Það eina sem setti skugga á kvöldið var það að Bloodgroup gat ekki spilað sökum tæknilegra örðugleika. Mér skilst þó að bandið muni stíga á stokk á laugardaginn.

Guðmundur Vestmann

Í kvöld setur Rjóminn stefnuna á eftirfarandi:

40ee1444aec6303c881a56a85edd9c5a_megasÁ NASA
23.00 Hjálmar
22.00 Megas & Senuþjófar

Á Sódóma
00.30 Retrön
22.30 Mugison
21.00 Sudden Weather Change

Á Batteríinu
22.00 The State, The Market & The DJ (DK)

Á Jacobsen:
Forgotten Lores
Beatmakin Troopa

Dagskránna í heild má sjá hér og enn eru til miðar hérna.

Leave a Reply