Hjaltalín, Snorri Helgason og Sigríður Thorlacius & Heiðurspiltar í fjöri

Hin nýstofnaða pötuútgáfa Borgin er búin að vera ansi áberandi upp á síðkastið og er hvergi lát á, en í dag voru tilkynntir þrennir tónleikar á hennar vegum sem og tónleikaröð um land allt. Ástæðan eru nýútgefnar og komandi plötur með Hjaltalín, Sigríði Thorlacius & Heiðurspiltum og Snorra Helgasyni úr Sprengjuhöllinni.14454_165454934169_123818814169_2616348_5296361_n

Fyrstu tónleikarnir verða annað kvöld á Rósenberg með Sigríði Thorlacius & Heiðurspiltum hennar. Á þessum tónleikum verða lög af nýútgefinni plötu Sigríðar leikin auk annarra laga úr ranni Jóns Múla sem ekki náðu inn á plötuna. Einnig verða á dagskránni aðrar íslenskar dægurperlur sem Sigríður og Sigurður Guðmundsson munu syngja saman og í sitthvoru lagi.

Á miðvikudaginn eru svo tónleikar með Hjaltalín, einnig á Rósenberg, en ný plata með sveitinni kemur til með að líta dagsins ljós nk mánudag. Platan nefnist Terminal og má gera ráð fyrir að lög af henni fái að hljóma á tónleikunum í bland við eldra efni og uppákomur.

Tónleikaferðalag Hjaltalín, Snorra Helgasonar og Sigríðar Thorlacius & Heiðurspilta hefst svo strax á fimmtudag eftir tónleikastandið í vikunni og stendur í yfir tíu daga.

Dagskráin er sem hér segir:
19. nóv Blönduós – Félagsheimilið (Forsala: Potturinn og pannan)
20. nóv Húsavík – Gamli Baukur (Forsala: Gamli baukur)
21. nóv Egilsstaðir – Sláturhúsið (Forsala: Menningarsetrið Egilsstöðum)
22. nóv Höfn – Pakkhúsið (Forsala: Menningarmiðstöð Hornafjarðar)
24. nóv Keflavík – Frumleikhúsið (Forsala: Tónlistarskóli Reykjanesbæjar)
26. nóv Sauðárkrókur – Mælifell (Forsala: Ólafshús)
27. nóv Dalvík – Menningarmiðstöðin (Forsala: Kaffihús Menningarmiðstöðvarinnar)
28. nóv Akureyri – Græni hatturinn (Forsala: Eymundsson)
29. nóv Borgarnes – Landnámssetrið (Forsala: Landnámssetrið)

Rjóminn hvetur að sjálfsögðu sem flesta af landsbyggðinni til að mæta, enda ekki á hverjum degi sem boðið er upp á tónleika þar.

borg008_12x12_72dpi-150x150Gert verður stutt hlé á landsbyggðartúrnum þegar Hjaltalín koma við í Loftkastalanum í Reykjavík til að spila á útgáfutónleikum vegna plötunnar Terminal sem þá verður komin út. Tónleikarnir verða miðvikudaginn 25. nóvember og verður hvergi til sparað að gera þá sem veglegasta. Þannig verður t.d. beitt nýju ljósakerfi frá HljóðX sem aldrei áður hefur verið notað hérlendis. Auk þess mun kammersveit leika með Hjaltalín á hluta tónleikanna, líkt og gert var á Listahátíð fyrr á árinu. Leikin verða öll lögin af nýju plötunni auk eldri kunningja af Sleepdrunk Seasons.

Plötuumslag Terminal

Um upphitun sér Daníel Bjarnason, eitt efnilegast tónskáld landsins, en hann mun einnig hjálpa til við að stjórna kammersveitinni með Hjaltalín.

Húsið opnar kl. 20.00 og dagskráin hefst kl. 20.30, en eftirpartí verður á neðri hæð Batterísins að tónleikunum loknum. Miðaverð er kr. 2500 og fer miðasala fram í Loftkastalanum og á midi.is.

Hér má svo heyra lag af hinni væntanlegu Terminal með Hjaltalín skreyttu myndbandi eftir aðdáanda sveitarinnar. Lagið heitir „Stay By You“ og ættu margir lesendur að kannast við það úr útvarpi, enda ennþá á toppi vinsældarlista Rásar 2.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.