Megas & Senuþjófarnir – Segðu ekki frá (með lífsmarki)

Segðu ekki frá (með lífsmarki)Einkunn: 3.5
Útgáfuár: 2009
Útáfa: Borgin

Segðu ekki frá (með lífsmarki) er tvöföld hljómleikaskífa frá Megasi og eins og undanfarin ár eru það Senuþjófarnir sem standa þétt að baki meistaranum á plötunni. Platan er fyrst og fremst heimild um tónleika Megasar síðustu árin þar sem rennt er í helstu smelli af ferlinum í bland við lög af nýju plötunum með Senuþjófunum. Nokkur áhersla er á eldra efni Megasar, en helmingur lagana á plötunni er af fyrstu fjórum skífunum hans frá árunum 1971-1977, fimm frá tímabilinu 1986-1992 og restin lög af Senuþjófaplötunum. Ætli þetta endurspegli ekki nokkuð tónleikahald hans undanfarin ár en helst saknar maður að fá ekki að heyra eitthvað fágætan eða óútgefin gullmola eins og þeim tónleikaplötum sem Megas hefur áður sent frá sér.

Þegar litið er yfir svona tónleikaplötu sem uppfull er af þekktum lögum eftir einn virtasta laga- og textasmið vorra tíma þarf vart að fjölyrða margt um lagasmíðarnar sjálfar, enda lögin öll frábær. Í nýlegu blaðaviðtali sagði Megas að ástæðan fyrir útgáfu tónleikaplötu væri að á tónleikum heyrðust öðruvísi útgáfur af lögum, lagfæringar og breytingar á textum og því varla annað hægt en að veita slíku athygli við hlustun plötunnar. Breytingar á útsetningum eru þó mismiklar, lögin af Senuþjófaplötunum Frágangi og Hold er mold (báðar frá 2007) eru lítt frábrugðin frá hljóðversútgáfunum en meira hefur átt við eldri verk. Þannig hafa „Jólanáttburður“, „Vertu mér samferða inní blómalandið amma“ og „Orfeus og Evridís“ öll verið hresst við og kemur það skemmtilega út. Nokkrar textabreytingar eða viðbætur heyrast hér og þar, e.t.v. greinir maður fleiri við frekari hlustanir, en gaman er að heyra Megas fara nokk frjálslega með texta sem sumir aðdáendur líta eflaust á sem heilagan gral.

Megas & Senuþjófarnir – Orfeus og Evridís

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Það vefst ekki fyrir nokkrum sem á hlýðir að hljómsveitin er í afar vel spilandi og fer í flestum tilfellum afar vel með verk meistarans. Senuþjófarnir eru t.d. í roknastuði í „Lóu Lóu“,  „Gömlu gasstöðinni“, „Við sem heima sitjum“ og „Paradísarfuglinum“, en gítarsprettirnir í því síðastnefnda eru stórskemmtilegir. Margar aðrar útsetningar eru þó nokk fyrirsjáanlegar og sumum tilfellum frekar óspennandi, eins og í „Reykjavíkurnætum“ sem missir næstum allan sjarmann í tilþrifalitlu hjakki Senuþjófanna.

Megas & Senuþjófarnir – Lóa Lóa

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Annars er platan prýðilega unnin, hljóðvinnsla er góð og hljómleikastemningin skilar sér ágætlega í upptökunni. Skífan rennur vel í gegn því þó að upptökurnar séu frá hinum ýmsu tónleikastöðum þá er platan hljóðblönduð líkt og verið sé að hlusta á heila tónleika í gegn. Umslagið er í stíl við fyrri Senuþjófaplöturnar en hönnun þess er að öðru leyti fremur þunn; ljót Íslandsmynd á efnisbút er frekar óspennandi forsíðumynd og svo er upplýsingum á umslagi haldið í algjöru lágmarki. Gaman hefði verið að fá fleiri ljósmyndir af tónleikum og einhvern texta annan en lista yfir lög og flytjendur. Já og svo er auðvitað óafsakanleg yfirsjón að láta eitt lag sem tilgreint er í lagalista vanta á plötuna sjálfa.

Útkoman er því hin sæmilegasta tónleikaplata og ágætis heimild um tónleikahald Megasar. Hér er ágæt blanda af helstu smellum Megasar auk ýmissa sjaldheyrðari gullmola og er þessi plata svo sem ekkert verri staður en hver annar fyrir þá sem kynna vilja verk hans. Platan er þó engin skyldueign, nema e.t.v. fyrir allra hörðustu aðdáendur sem vilja komplíta safnið sitt. En ég meina, það er jú alltaf gaman að hlusta á Megas og hér er hann í hörkustuði.

One response to “Megas & Senuþjófarnir – Segðu ekki frá (með lífsmarki)”

  1. Yfirsjónin er ekki að gleyma lagi heldur að gleyma að breyta lista innan í umslagi, listi á bakhlið er hinsvegar réttur. Leiðinleg yfirsjón en ekki eins slæm og að gleyma lagi, enda snýst þetta um músíkina.
    kveðja
    Baldvin Esra

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.