• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Hjaltalín – Terminal

 • Birt: 23/11/2009
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 41

Hjaltalín - TerminalEinkunn: 4.5
Útgáfuár: 2009
Útáfa: Borgin

Önnur plata Hjaltalín, Terminal, kom út í dag. Hin fyrsta, Sleepdrunk Seasons,  kom út árið 2007 og fékk þá mjög góðar viðtökur sem urðu enn almennari og betri á árinu 2008. Þá kom platan út í nýrri útgáfu með hinni gríðarvinsælu ábreiðu „Þú komst við hjartað í mér“ eftir Togga sem Páll Óskar hafði áður gert vinsælt og seldist þá eins og heitar lummur.

Þegar Sleepdrunk Seasons kom út skrifaði ég mikinn lofdóm um plötuna á Rjómann og sagði hana standa upp úr á frábæru tónlistarári. Það sama segi ég nú.

Terminal stendur upp úr á frábæru íslensku tónlistarári og er frábært framhald frábærar frumraunar. Held ég sé búinn að segja frábært nógu oft. Orðið frábært mun ekki koma fyrir aftur í þessum dómi. Lofa!

Hjaltalín er stór sveit. Hún er ekki aðeins fjölmenn og nýtur oft stuðnings fjölda annarra hljóðfæraleikara heldur er hljómurinn einnig stór og útsetningarnar miklar. Þetta er keppnis! Ég er ekki frá því að þessi plata sé stærri en sú fyrri. Kammerproggið þeirra er sér á partí íslensku flórunni og er enn meira spennandi fyrir vikið.

Þetta er ekki plata til að hafa í gangi við eldhúsverkin eða í ræktinni. Þetta er svona „hlustunarverk“, plata sem nýtur sín best með fullri athygli. Þú hallar þér aftur í sófanum og setur græjurnar í botn, lokar augunum og hlustar af athygli.

Þegar Sleepdrunk Seasons kom út höfðu lögin á plötunni hljómaði lengi á tónleikum. Maður hafði haft langan tíma til að melta þau og það er í raun nauðsynlegt þegar Hjaltalín er annars vegar. Við fyrstu hlutun á Terminal þóttu mér bestu lögin vera lögin sem ég hafði hlustað á lengst og þekkti best. Lögin sem maður þekkti minnst voru lögin sem manni þótti tormeltust. Maður þarf svolítið að melta lögin til að komast að þeim.

Fyrsta lagið af Terminal sem fékk að hljóma er upphafslagið “Suitcase Man”. Þegar lagið kom út fannst mér það ekkert sérstakt. Ég hafði lengið beðið nýju plötunnar og lagið náði ekki að standast væntingar, var hálfgerð vonbrigði. Fannst þetta eitthvað óttalega mikið hjakk. Nú, nokkru síðar, þykir mér “Suitcase Man” frábært lag og frábært upphafslag á plötunni. Gefur tóninn skemmtilega fyrir það sem koma skal. Það þarf að gefa þessari snilld smá tíma. Ef þú gerir það færðu ríkulega launað.  Núna rennur “Stay By You”, annað lag sem hefur fengið nokkuð að hljóma, til að mynda ljúflega í gegn, nánast faðmar mann við fyrstu hlustun plötunnar með sínu grípandi bassariffi. Það þurfti alveg sinn tíma á sínum tíma þegar það hljómaði fyrst. Þannig er Hjaltalín – þarf sinn tíma.

Hjaltalín – Stay By You

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Á plötunni nýtur samsöngur Högna og Sigríðar Thorlacius sín vel. Þau hafa mjög ólíkar raddir sem búa til undarlegt jafnvægi í lögum Hjaltalín. Þetta kemur til að mynda vel framí ljúfu öðru lagi plötunnar, “Sweet Impressions”. Varla þarf að eyða orðum í hljóðfæraleikinn. Það er í raun sjálfsagt að hann sé mjög góður.

James Bond slagarinn “Feels Like Sugar” er í augnablikinu uppháhalds lagið mitt á plötunni. Reynslan hefur þó sýnt að það kann að breytast og önnur lög munu taka yfir. Ég er sannfærður um að Sigríður er nýbúinn að eiga tregafullt samtal við Roger Moore þegar ég heyra sönginn í þessu frábæra lagi. Strengirnir eru sérlega flottir og hrynjandin glæsileg.

Sum lögin eru þung og önnur léttari. Breiddin er talsverð. Án þess að nokkuð sé hallað á þau lög skal ég hundur heita ef “Song From Incidental Music” eða “Sonnett for Matt” nær toppnum á vinsældalistum verandi nokkuð þung og dramtísk. Erfiðara er að ráð í lög eins og “Hooked on Chili” eða lokalagið “Vanity Music”. Mér kæmi hins vegar alls ekkert á óvart ef diskóslagarinn “7 Years”, sem Gibb bræður hefðu verið fullsæmdir af, eða kraftslagarinn “Water Poured in Wine” næðu vinsældalistatoppnum innan tíðar.

Niðurstaðan er að Terminal, önnur plata Hjaltalín, er frábær (úbbs) og fær sama dóm og fyrri platan, 4,5. Það er algjör óþarfi að setja hana skör ofar eða neðar. Báðar eiga heima í öllum virðulegum tónlistarsöfnum. Skellið Terminal og öðrum snilldarplötum íslensks tónlistarárs í jólapakkann. Þá verður enginn svikinn – ekki einu sinni amma eða leiðinlegi frændinn

41 Athugasemdir

 1. Guðmundur Sigurðsson · 23/11/2009

  Hjartanlega sammála, hef hlustað á hana tvisvar á gogoyoko og hún er frábær. ótrúlega flottur hljómur á henni líka

 2. Pétur Valsson · 23/11/2009

  Terminal hefur strax á útgáfudegi náð þeim undraverða árangri að verða ein ofmetnasta plata íslenskrar tónlistarsögu.

  Það eru nokkur góð lög á plötunni, en þau týnast inná milli laga sem sum hver minna á lélega söngleikjatónlist. Útsetningarnar eru sumar hverjar svo yfirgengilegar og ofhlaðnar að maður þarf að hafa sig allan við til að halda niður votu og þurru. Rembingurinn í söngi Sigríðar er síðan ekki á að bæta.

  Platan er e.t.v. stórvirki – en ekki á góðan hátt – því það hlýtur að vera stórvirki að klúðra plötunni svo svakalega.

 3. Björn Flóki · 23/11/2009

  Ég er ekki vanur því að rakka niður íslenskar plötur en þessi plata er gríðarleg vonbrigði. Mér finnst afar leitt að verða vitni að einni uppáhalds íslenskri hljómsveit minni umbreytast í söngleikjaband með gjörsamlega ofkeyrðum hljómheimi í ætt við væmna kammersveit. Það er búið að drekkja frumlega rokkkammersándinu sem gerði sveitina svo sjarmerandi á fyrstu plötunni.

  Verra er þó að sjá íslenska miðla nú gefa þessari plötu himinháa einkunn (eins og mér sýnist því miður Rjóminn vera að gera í þessu tilfelli), aðallega af því að Hjaltalín er svo góð hljómsveit, og á það barasta skilið. Kommon krakkar. Það eru rosalega mörg vond lög á þessari plötu.

 4. Andri · 24/11/2009

  Mér finnst þetta virkilega góð plata, og talsvert betri en fyrri platan (að henni ólastaðri). Hljómurinn er þéttari (enda nú með fullri kammersveit og hljómsveitin sjálf eldri og þroskaðri), báðir söngvararnir standa sig betur, og margar frábærar lagasmíðar, svo ekki sé talað um útsetningar sem eru metnaðarfyllri en maður á að venjast í íslenskri tónlist.

  Að sjóða plötuna niður sem “söngleikjatónlist” (hvað sem það þýðir) eru fáránleg ofhvörf, sérstaklega í ljósi þess að það eru í raun bara tvö lög sem lýsa mætti þannig (Song From Incidental Music og Vanity Music). Hugsanlega þrjú (ef maður telur með Montabone), vildi maður leyfa þeim sem slíkt gera að njóta vafans.

  Þegar plötur fá þetta góða dóma (eins og þessi og sérstaklega sá úr Morgunblaðinu) er eitt víst: einhverjir verða fyrir vonbrigðum.

 5. Egill Harðar · 24/11/2009

  Þegar sótt er fram er best, eins og í fótboltanum, að leyfa sóknarmanninum að njóta vafans. Þessi plata vinnur vel á með hverri hlustun en þarfnast greinilega smá yfirlegu. Gefum henni smá séns áður en við afskrifum hana eða dæmum.

 6. Björn Flóki · 24/11/2009

  Ég skil hvað þú átt við Andri, en mér finnst meiri metnaður, fleiri hljóðfæri og faglegar útsetningar ekki endilega jafngilda betri árangri. Mér finnst einmitt eins og þau hafi tekið skref tilbaka með því að ofmetnast.

  Varðandi söngleikjalíkinguna, þá nefnir þú hér 3 lög sem vissulega passa vel við þetta “showtunes” sánd, en við skulum ekki gleyma aðal söngleikjalaginu, Feels Like Sugar (lag nr. 3). Kannski er ég einn um að finnast lagið hljóma eins og vont Bond lag, með nettum Christinu Aguilera söngrembingi í endanum. Önnur lög, eins og Vanity Music, keyra dramatíkina á svo hátt stig að erfitt er að forðast Disney líkingar.

  Ég vil bæta við að ég er ennþá aðdáandi Hjaltalíns þó þessi plata sé alls ekki jafngóð og hún hefði getað verið. Fyrsta platan var mjög góð og það eru nokkur góð lög á þessari. Ég mun áfram mæta á tónleika þeirra og segja útlendingum frá ágæti hljómsveitarinnar. Þau hefðu bara geta gert miklu betur.

 7. Pétur Valsson · 24/11/2009

  @egill. það er einkennilegt viðhorf til tónlistar að líkja henni við fótbolta.

  ég hef amk hlustað nógu vel á þessa plötu og gefið henni nógu mikinn séns til að leggja mat á hana. það er nokkur frábær lög á henni, sum heppnast vel og önnur falla um rembing sveitarinnar. svo virðist sem hljómsveitinni sé í mun að sýna og sanna hvað þau eru rosalega klár í útsetningum – ég heyri það alveg – ég bara fíla ekki útkomuna úr því.

 8. Egill Harðar · 24/11/2009

  @Pétur. Ég er líka undarlegur maður 🙂

 9. Halla Kolbeinsdottir · 24/11/2009

  Mér finnst þetta ótrúlega falleg og yndisleg plata og hef verið að lofa hana út um allan bæ. Ég heyri mjög sjaldan í íslenskum hljómsveitum sem að tekst að setja saman plötu sem er í senn “professional” og “original”.
  Lögin eru stór en þýð, samsetningur radda sem og hljóðfæra kalla á athygli hlustanda án þess að öskra á mann.

  Ég vona að platan verði kynnt almennilega á erlendum mörkuðum. Held að þeim gæti gengið mjög vel hjá ákveðnum (ekki það litlum) hópum í BNA tildæmis.

 10. Einar · 24/11/2009

  Já og þegar stóridómur kemur að utan getum við ákveðið hvað okkur finnst í raun um hana.

 11. Þorsteinn Kári · 24/11/2009

  Mér finnst þessi plata vera algjör snilld. Heildarsándið á þessari plötu er sirka 3 sinnum betra en á gömlu. Ég er mikill aðdáandi hljómsveitarinnar og vil meina að þessi plata sé mjög jákvæð þróun hjá þeim.

  Þetta söngleikja kjaftæði sem menn eru að tala um finnst mér náttúrulega algerlega hrikaleg leið til þess að dæma plötuna. Þetta er bara popptónlist með massífum stórsveitarútsetningum. Kammerpopp.

  Ef að sveitin hefði einfaldlega gert aðra SS plötu þá hefðu menn líklega bara reynt að benda á að það væru gríðarleg vonbrigði að sjá hljómsveitina ekki þróast. Ég sé þetta ekki sem ofmat, þetta eru bara klárir krakkar sem koma úr klassískum bakgrunni.

  Björn Flóki og Pétur eru augljóslega alveg tuddalega mikið á móti þessari plötu. Það finnst mér snilld, enda er það held ég einmitt það sem Hjaltalín var smá að vonast eftir. Að fólk myndi aðeins skipta sér í flokka eftir þess plötu. Það að fólk sé tilbúið að mynda sér skoðun á plötum er mjög heilbrigt. Alveg eins og lýðræði.

  Ég fíla Disney tónlist og ég fíla Hjaltalín. Mér finnst töff að vera metnaðarfullur og töff að vera menntaður tónlistarmaður.
  Ég gef þeim 5 stjörnur. Fulla ferð!!!

  P.S.
  @Björn: ekki gætirðu sagt mér hvað í ósköpunum þú átt við með þessu hérna: “…gjörsamlega ofkeyrðum hljómheimi í ætt við væmna kammersveit”?

  Hvort eru að reyna að segja að þú vitir hreinlega ekkert um kammertónlist eða að viðurkenna að þú hafir hreinlega ofmetið þína eigin hæfileika varðandi það hversu sniðugur blogg-kommentari þú ert?

 12. Þorsteinn Kári · 24/11/2009

  Ég vil líka bæta því við að mér finnst Coverið GEÐVEIKT!

 13. Björn Flóki · 24/11/2009

  Noh, það á bara að bíta af manni hausinn fyrir að gagnrýna þessa plötu 🙂

  @Þorsteinn. Ég er algerlega sammála að kammerpopp sé kúl, að productionið sé betra á þessari plötu, að stórsveitaútsetningar séu flottar, að hljómsveitin eigi að þróa áfram sinn stíl o.s.frv. Eins og ég er búinn að taka fram þá er ég er aðdáandi hljómsveitarinnar og finnst nokkur lög á plötunni góð. Það sem ég er að segja er að fyrir minn smekk fara viss lög í of mikla væmni og rembing fyrir minn smekk, sem mér þykir leitt. Þér finnst það ekki og allt í lagi með það 🙂

  Kommentið þín um að Hjaltalínsmeðlimir séu menntaðir í klassískri tónlist og svo skotið á mig að ég hafi engan skilning á kammertónlist finnst mér undarleg. Ertu að segja að fólk geti aðeins notið plötunnar ef það hefur gaman af klassískri tónlist? Ef ég segði þér að ég væri áhugamaður um klassíksa tónlist, myndi það breyta gildi skoðana minna um plötuna? Ég fíla Ísafold og Daníel Bjarnason, fæ ég þá extra plús í kladdann hjá þér?

  P.S. Mér finnst frekar ólíklegt að markmið Hjaltalíns með þessari plötu hafi verið að fá ákveðið fólk til þess að fíla hana ekki. Væri það ekki svolítið skrýtin stefna?

 14. Björn Flóki · 24/11/2009

  P.S. Sammála, coverið er mjög flott 🙂

 15. Þorsteinn Kári · 24/11/2009

  Ég er alinn upp við klassíska tónlist. Ég hef spilað mjög mikla kammermúsík. Ég skil það alveg þegar menn þurfa að skilgreina hlutina uppá nýtt, sbr. kammerpopp. Ég átti aðallega við að ég skilji ekki hugtakið væmin kammermúsík. Þetta tengist hreint ekki skilning á tónlist, frekar skilning á hugtökum.

  Þar kemur maður kannski líka inná akkúrat punktin varðandi það að þegar maður tekur skrefið í áttina frá því sem að hljómaði svo vel síðast og reynir að einangra “hljóðheim” hljómsveitarinnar sinnar enn betur. Þá er það ekkert slæmt að sumir fíli ekki sándið manns.

  David Byrne gerði ekki sólóplöturnar sínar fyrir Talking Head aðdáendur. Souls of Mischief gerðu heldur ekki Trinity plöturnar sínar fyrir þá sem fíluðu 93′ Til Infinity. Þetta er spurning um listina fyrir listina, og að geta borið virðingu fyrir því.

  Ég hef trú á því að Hjaltalín hafi frekar verið að hugsa um að gera eitthvað metnaðarfyllra og nær því sem þau vilja hugsanlega meina að sé þeirra konsept þegar þau gerðu þessa nýju plötu. Mér finnst það öllu líklegra en að þau hafi verið að reyna að sýna öllum hvað þau væru klár í að útsetja.

  Minn punktur er þar af leiðandi að það sé hallærislegt að tengja þá staðreynd að manni líki ekki vel við plötuna við einhversskonar hégómagirnd hljómsveitarinnar. Þetta er bara drullumetnaðarfull plata, það eru fleiri hljóðfæri og sándið er stærra.

 16. Sveinn · 24/11/2009

  “Það er algjör óþarfi að setja hana skör ofar eða neðar.” Þetta hljómar einkennilega í plötudómi, s.s. bara alveg jafn gott og seinast? sveitinni hefur hvorki farið fram né aftur?

  Ég hef heyrt aðeins lögin af plötunni, sum eru góð og önnur lakari. Það er frábært þegar hljómsveitir “stækka” sándið hjá sér, heppnaðist t.d. frábærlega hjá Sigur Rós á Ágætis byrjun, en ég verð að vera sammála sumum kommenturum að stóra sánd Hjaltalíns hljómar eiginlega ekkert rosalega vel.

 17. Haukur · 24/11/2009

  Ég hef ekki heyrt plötuna en vil koma því á framfæri að það er ekki til vont Bond-lag 🙂

 18. Skúli · 25/11/2009

  Það er svo hressandi að menn séu að ræða tónlist einhvers staðar, á, tja, nokkuð faglegum nótum! Meiri rökræður og mismunandi skoðanir – vúhú!

  Annars er ég búinn að renna plötunni einu sinni í gegn og hlakka til að gera það aftur.

 19. MAGGA · 26/11/2009

  BJÖRN OG PÉTUR ERUÐI KLIK? ÞETTA ER GEÐVEIK PLATA, FRÆNDI MINN ER Í HJALTA LÍN OG HANN ER ÝKT SKEMMTILEGUR ÞIÐ ERUÐ AULAR!

 20. Mikael Lind · 26/11/2009

  Eru lokamínúturnar á Vanity music eftirlíking (eða skopstæling?) á Igor Stravinsky – The Firebird, Lullaby suite? Þið finnið Stravinsky conducts Firebird á youtube; farið svona 5 min. inn í það myndband og hlustið. Ég er ekki segja að þetta sé endilega slæmt – kannski er einhver hugsun á bakvið þetta? Þetta er nefnilega næstum því nákvæmlega eins.

  Stravinsky mjög flottur á myndbandinu, mæli með því.

 21. Þorsteinn Kári · 26/11/2009

  Sæll Mikael og þakka þér fyrir síðast.

  Þetta er náttúrulega verulega góð athugasemd, Vanity Music hljómar mikið eins og óður til Stravinsky.

  Sem er ekki slæmur óður. Enda var Igor Stravinsky þekktur fyrir að keyra dramatíkina í sínum lögum á svo hátt stig að menn áttu erfitt með að forðast Disney líkingar.

 22. Haukur SM · 26/11/2009

  Ég man ekki betur en það standi í textablaðinu að þetta sé tribjút til Strava gamla.

 23. Snorri Már · 26/11/2009

  ”Tónlist í eftirmála Vanity Music er byggð á hugverki Igors Fydorvich Stravinsky” stendur í bæklingnum.

 24. Mikael Lind · 27/11/2009

  Jæja! Djöfull er maður glöggur hlustandi. 😉

 25. Frissi · 27/11/2009

  Skemmtilegar samræður hjá ykkur og góð athugasemd hjá þér “mikael lind” glöggur hlustandi svo sannarlega..

  Ég hef ekki heyrt plötuna en hlakka til að heyra hana til að taka þátt í þessum samræðum betur 🙂

 26. R. F. Markan · 27/11/2009

  Mér hefur aldrei þótt neitt varið í Hjaltalín eftir að Þorsteinn Kári hætti í bandinu. Þar fór andagift sveitarinnar, ef þið skiljið mig.

 27. RexiB · 27/11/2009

  Þorsteinn, hefur þú einhver tengsl við hljómsveitina eða ertu algerlega hlutlaus?

 28. Eygló · 27/11/2009

  Ég skil ekki þennan disk, elska samt hjaltalín. Búinn að spila hann aftur og aftur en mér finnst bara nokkur lög skemmtileg. Fannst “Þú komst við hjartað í mér” fullkomið þannig að það er kannski hægt að búast við fullt af þannig lögum.

  En ég ætla svo sannarlega ekki að gefast upp á honum. Frábært að sjá dómana sem hann er að fá.

 29. Arngunnur · 28/11/2009

  Ég er virkilega hrifin af þessari plötu, Hjaltalín er hætt að spila kammertónlist í bili og byrjuð að spila í sinfóníuhljómsveit. Auk þess er Sigga Thorlacius hætt að syngja bakraddir og farin að láta í sér heyra, en það er eitthvað sem ég veit að margir hafa beðið eftir. Ég fagna því að fá að heyra meira í henni, enda sýnir hún ógleymanlega takta á plötunni, á sama tíma og hin frábæra söngrödd Högna hefur vaxið og stækkað.

  Það sem mér mér finnst annars einkenna plötuna er takmarkalaus spila- og tilraunagleði og fjölbreytni í lagasafninu. Ég get vel skilið að ekki allir falli fyrir söngleikjahljómnum (sem vissulega er til staðar, a.m.k. í Vanity Music) en ég upplifi þær tilraunir hljómsveitarinnar ekki endilega gerðar í fullri alvöru, heldur frekar gleðinni við að tileinka sér mismunandi stíla!

  Það sama má segja um aðrar slíkar tilvitnanir á plötunni, t.d. diskó í Sweet Impressions og 7 Years. Hljómsveitin hefur sótt áhrif víða í popptónlistarsöguna og það skemmtilega er að hún býr yfir færni í spilamennsku og útsetningum til að byggja lögin í anda þeirra áhrifa.

  Að ekki sé minnst á tilvitnuna í Eldfuglinn eftir Stravinsky í lok plötunnar, sem ég upplifi einmitt sem nokkurs konar óð til tónskáldsins, frekar en stælingu eða stuld. Og mér finnst sá óður einmitt setja punktinn yfir i-ið hvað varðar anda plötunnar: Platan er gerð í innblásinni gleði yfir njóta tónlistar og spila saman tónlist í öllum sínum fjölbreytileika.

  Og það er svo skemmtilegt!
  Geheðveik plata!

 30. Mikael Lind · 01/12/2009

  Gaman af því þegar tónlistarmenn þora að vera metnaðarfullir og semja óð til Stravinsky! Platan í heild er mjög metnaðarfull og ég fíla það. Því miður er ég ekki jafn hrifinn af lögunum á þessari plötu og þeim á sjarmerandi afrekinu Sleepdrunk sessions. Mitt álit á nýju plötunni er að hún er vel útsett og fáguð en tónlistin er bara ekki alveg minn tebolli. En það er smekksatriði – ég skil fullkomlega hvers vegna sumum finnst platan æðisleg.

 31. Stefán Þór · 04/12/2009

  Ofhlaðnar útsetningar yfir ákaflega rýrt og ófrumlegt tónefni. Svona blanda af þunglamalegri söngleikjatónlist og ófrumlegu 70’s eftirhermum.

  Svo hefur nú Sleepdrunk Season það fram yfir Terminal að vera grípandi frá fyrstu hlustun. Þessi er svo langt frá því að vera grípandi að ég á bágt með að trúa því að þetta verði vinsæl plata.

  Hins vegar hefur Bloodgroup tekist að verða alvarlegri en á sama tíma koma með dúndurflotta plötu sem grípur mann strax.

  Úr því að Dr.Gunni er að spá í að velja Terminal sem bestu plötuna og Dry Land sem næst bestu plötuna ætla ég að nota tækifærið og hvetja hann,Rjómann og aðra álitsgjafa til þess að velja Dry Land sem bestu plötuna enda margfallt betri.

 32. Stefán Þór · 04/12/2009

  Þetta með Stravinsky er rétt hjá Mikael og ætla ég bara að vona að þau hafi fengið leyfi til þess að nota þennan bút úr Firebird enda innan við 80 ár frá því maðurinn dó. Enn ein staðfesting þess hversu ófrumleg þessi plata er í alla staði.

 33. Guðmundur · 04/12/2009

  Stefán þú hlýtur að vera ákaflega vantrúaður maður ef þú átt bágt með að trúa því að Terminal verði vinsæl plata. Hún er nú þegar ,,uppseld” hjá útgefanda og í kringum 3000 eintök seld. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að platan sé vinsæl, hvort sem kýst að trúa því eða ekki.

 34. Stefán Þór · 05/12/2009

  Hún er samt hrútleiðinleg og ótrúlega ófrumleg. Mjög frumlegt að stela bút úr lagi eftir tónskáld sem er ekki einu sinni búinn að vera dauður í 80 ár.

  Dry Land er svoleiðis margfallt betri,skemmtilegri og umfram allt Grípandi og frumleg plata.

 35. Stefán Þór · 05/12/2009

  Svo er skylda að lesa athugasemdir hér fyrir ofan frá Birni Flóka og Pétri Valssyni hefði ekki getað orðað þetta betur sjálfur.

 36. Mikael Lind · 05/12/2009

  Núna lifum við á tíma póstmódernismans og allt í lagi að taka bút úr lagi og nota það aftur ef maður gerir eitthvað nýtt með því. Arvo Pärt fékk til dæmis innblástur frá margra hundraða ára gamalli munkatónlist þegar hann samdi Fratres, en honum tókst þar að semja eitt besta verk nútímans með því að nota gömlu harmóníurnar á frumlegan hátt. Þvílíku kraftaverki hefur Hjaltalín auðvitað ekki náð, enda eru meðlimir hljómsveitarinnar mjög ungir. Mér finnst allt í lagi hjá þeim að reyna, taka áhættuna og láta skeika að sköpuðu.

 37. Kristján Skúli · 05/12/2009

  Stefán Þór:
  Er frumleikamunur á því að stela frá tónskáldi sem dó fyrir 40 árum eða tónskáldi sem dó fyrir 80 árum?

 38. Hildur Maral Hamíðsdóttir · 07/12/2009

  Mér finnst bæði Dry Land og Terminal mjög flottar plötur, en sé ekki tilganginn með því að bera þær saman sbr. Stefán Þór, enda gjörólíkar plötur.

 39. Stefán Þór · 07/12/2009

  Hildur ég er bara að benda á plötu sem á skilið að vera valin plata ársins(Dry Land) og plötu sem á ekki skilið að komast á blað og er strax orðin ótrúlega ofmetin(Terminal).

  Kristján Skúli verk höfunda eru höfundarvarin í 80 ár frá andláti tónskáldsins það er nú málið.

  Þessi plata er bara yfir höfuð þung,ófrumleg og grípur mann ekki. Og að ég tala nú ekki um hversu söngurinn er leiðinlega einhæfur.

 40. Egill Harðar · 11/12/2009

  Yay! Athugasemd númer 40!

 41. Davíð · 13/12/2009

  Platan greip mig við fyrstu hlustun, og er ég nú stoltur eigandi via tonlist.is

  Song from incidental music og stay by you eru ó svo frábær lög.

Leave a Reply