• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Múm – Sing Along to Songs You Don’t Know

Einkunn: 2.5
Útgáfuár: 2009
Útáfa: Morr Music / Borgin

Sing_Along_to_Songs_You_Don't_KnowÞegar að Kristín Valgeirsdóttir sagði slitið við Múm, plötu seinna eftir að Gyða tvíburasystir hennar gerði hið sama, þá vissi maður ekki hverju ætti að búast við frá bandinu. Raddir þeirra höfðu verið aðalsmerki sveitarinnar. Þeir Örvar og Gunnar fylltu upp í það tóm sem myndaðast með tveimur nýjum söngkonu, Mr. Sillu og Hildi Guðnadóttur, og nokkrum hljóðfræleikurum til viðbótar. Platan Go Go Smear the Poison Ivy var afurð/afleiðing þessa mannabreytinga – og bara þokkalega vel heppnuð skífa. Ljóst var að strákarnir ætluðu sér að poppvæða sveitina og gæða hljóminn lífrænni áferð.

Væntingarnar til Sing Along to Songs You Don’t Know voru því líkt og hér væri á ferðinni önnur plata sveitarinnar – jú, vissulega önnur plata hinnar endurfæddu Múm en um leið fimmta breiðskífa sveitarinnar. Það hlakkaði því mikið í mér að heyra hvert bandið stefndi enda mikið vandaverk að blanda saman tilraunastarfssemi og poppi, raftónlist og ‘lifandi’ hljóðfærum.

Það er ljóst að Múm er að feta sama slóða og á síðustu plötu. Bandið er þó komið mun lengra á leið sinni: lagasmíðarnar eru einfaldari (poppaðri?), áferðin lífrænni og hljómur bandsins færist enn fjær þessari ‘glicht elektróníku’ sem bandið fór upphaflega í för með. Það er alltaf jákvætt að heyra bönd þróa stíl sinn og hljóm – enda fátt leiðingjarnara en hljómsveitir sem staðna og matreiða sama réttinn aftur og aftur og aftur – ja, nema að rétturinn sé sérlega bragðmikill, vandmeðfarinn og góður.

“If I Were a Fish” og “Prophecies and Reversed Memories” eru sennilega sigurstranglegustu frambjóðendurnir á plötunni – það er að segja: þetta eru popplögin. “If I Were a Fish” er frumleg og flott smíði – einhvernveginn ofboðslega notalegt og gefur tóninn fyrir það sem koma skal. Það síðarnefnda er melódískt og grípur mann fljótt með einfaldleika sínum. Þetta er þó eitt af þessum lögum sem maður hrífst af strax í upphafi en maður verður svo ansi fljótt þreyttur á.

Lag tvö, “Sing Along”, fléttar snilldarlega saman þessum lífrænu og elektrónísku elementum sem Múm eru að vinna með. Lagið er raunar ágætis ‘singalong’ og bíður þar að auki upp á hæfilegt slamm á yndislega ‘offbeat’ köflum. Endinum á laginum hefði þó hreinlega mátt sleppa: þetta er útúrsnúningur úr “What a Wonderful World” og gerir fátt annað en að draga lagið niður.

Múm – Sing Along

“The Smell of Today Is Sweet Like Breastmilk in the Wind” er hræðilegur og tilgerðarlegur lagatitill (eða hræðilega tilgerðalegur?) – en lagið þó eitt það besta á plötunni. Það hefst á undarlegri taktsmíð, sem sennilega er fenginn að láni úr gömlum skemmtara, í bland við píp og klikk hljóð. Við þetta flækist svo sykursætur söngur, bassagrúv, strengja plokk og gítarlínur. Sennilega ein sérviskulega poppsmíð sem ég hef heyrt en gengur einhvernvegin fullkomlega upp.

“Illuminated” er annað gott lag sem ber að minnast á. Múm framkallar mjög mystíska stemmningu með draugalegum röddum, sílafóni, strengjum og snerilslætti – minnir pínulítið á hljóðbút eftir Danny Elfman í einhverri Tim Burton-mynd. Ný og áhugaverð hlið á Múm.

Múm – Illuminated

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

En . . . já, það er ‘en’. Platan er full af hálf vonlausum lagasmíðum. “A River Don’t Stop To Breathe” rennur í gegn án nokkurrar eftirtektar. “Show Me” er lag sem fer aldrei á flug – hjakkast bara í sama taktinum og einhverju söngmjálmi. Í “Kay-Ray-Kú-Kú-Kó-Kex” (annað dæmi um hræðilega tilgerðalegan lagatitil) svífur einhver annarleg accapella stemning yfir vötnum í þessu blessaða lagi sem virðist hvorki byrja né enda. Ekki beint áhugavert. Og lokalaginu, “Ladies of the New Century”, hefði líka allt eins mátt sleppa: einföld píanólínan sem spunnin er út lagið og það sem er raulað yfir hana gerir lítið sem ekkert fyrir plötuna.

Hver er þá niðurstaðan? Jú, á Sing Along to Song You Don’t Know eiga Múm vissulega flotta spretti, raunar mjög flotta. En dapurlegar lagasmíðar einkenna því miður meirihluta plötunnar og fyrir vikið verður heildarútkoman veik. Tilraunamennskan er að mestu horfin en eftir stendur frumleg og vel áheyrileg poppmúsík. Bandinu hefur tekist að skapa nýjan Múm-hljóm (eða skulum við segja nýjan krútt-hljóm?) og er það svo sannarlega efni til að vinna með. Þessi plata skilar þó ekki mikið meiru en einungis hljóminum.

Það er ekki ólíklegt að bandið eignist með þessari plötu nýja aðdáendur: fólk sem það hefur ekki náð til fyrr. En fyrir eldri aðdáendur eins og mig þá virkar platan þveröfugt: vonbrigðin eru mikil yfir því að svona færir músíkantar geri ekki betur. Vonandi er þetta bara millibilsástand, því Múm er svo sannarlega ein áhugaverðasta hljómsveit sem þetta blessaða sker hefur alið.

1 Athugasemd

  1. Baldvin Einarsson · 15/12/2009

    Platan er gefin út af Borgin hljómplötur hér á Íslandi.

Leave a Reply