Jólabarn dagsins: Frosti Jón “Gringo” Rúnólfsson

Frosti gringoFrosti Jón “Gringo” Rúnólfsson trymbill og kvikmyndagerðarmaður hefur haft í nógu að snúast undanfarið ár. Ásamt því að leggja stund á nám sitt  í Kvikmyndaskóla Íslands hefur Frosti verið kenndur við hin ýmis verkefni hér og þar um bæinn. Frosti hefur verið meðlimur súpergrúppunar Esja, ásamt þeim Krumma Björgvinssyni og Daníel Ágúst, í nokkur ár auk þess að koma saman aftur nýlega með sínum gömlu félögum í harðkjarnasveitinni KLINK. Einnig fór Frosti með hlutverk óprúttins fanga í nýafstaðinni Fangavakt Ragnars Bragasonar. Frosti er líka eftirsóttur plötusnúður en leikur nú aðallega fyrir gesti veitingastaðarins – og skemmtistaðarins Boston.
Þó virðist Frosti hafa góðan tíma ti að sinna öðrum verkefnum og ásamt þeim Birni (Bjössa) Stefánssyni og Bjarna Sigurðssyni úr Mínus, Birgi Ísleifi úr Motion Boys, Karli Lúðvíkssyni og Þórhalli Stefánssyni úr Lights on The Highway og öðrum góðum, hefur Frosti sett á svið nokkra tónleika til heiðurs Rolling Stones. Nefnist verkefni þeirra félaga einfaldlega STÓNS.
Sveitin leikur á Græna Hattinum á Akureyri í kvöld kl. 21.00 en brunar svo aftur til borgarinnar og leikur fyrir gesti á Sódóma Reykjavík við Tryggvagötu á laugardagskvöldið kl. 22.00
Frosti Jón er jólabarn dagsins:

Hvað viltu í jólagjöf? : Stjörnukíki – “All of us are in the gutter, but some of us are lookin at the stars.” – O.W.
Besta jólaminningin? : Að vera vakinn upp við það að jólasveinninn var uppá þaki(pabbi) að garga niður að ég ætti að fara að sofa annars fengi ég engar gjafir. Ég varð svo skíthræddur við tilhugsunina að það væri rauður útlendingur á hreindýrakerru að krúsa um hverfið mitt að ég gat ekki sofið í marga daga. Bræður mínir horfðu alltaf á hryllingsmyndir þegar þeir áttu að vera passa mig svo að ég var með mjög ríkt ímyndunarafl.
Besti jólamaturinn? : Jólaölið.
Besta músíkin í stressinu? : Platan Red Hash eftir Gary Higgins. Leynd perla.
Færðu ennþá í skóinn? : Hef aldrei fengið í skóinn. Fæ stundum í magann.
Hin fullkomnu jól? : Í faðmi ástvina með góða tónlist og gott vín við hönd.
Besta jólagjöfin í „ástandinu”? : Gapastokkur niðrá Austurvelli þar sem ráðamenn þjóðarinnar ásamt hinum skúrkunum sem komu okkur í þetta ástand gætu dúsað. Gaman væri að fara með krakkana í göngutúr á sunnudögum og hrækja á þá sem þar væru fastir.

Rjóminn þakkar Frosta kærega fyrir innlitið og óskar honum og hans alls þess besta yfir hátíðarnar og á komandi ári!

STÓNS á Facebook

One response to “Jólabarn dagsins: Frosti Jón “Gringo” Rúnólfsson”

  1. Þórunn Skaptadóttir says:

    Frosti Rular

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.