• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Hank and Tank – Songs for the Birds

  • Birt: 08/02/2010
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

14760_213398824881_213394444881_4029939_5746568_nEinkunn: 3,5
Útgáfuár: 2009
Útgáfa: Sjálfútgefið

Þegar einhver ákveður að gerast svo djarfur að koma með þá yfirlýsingu að hann sé kominn með leið á hefðbundinni rokkhljómsveitar-hljóðfæraskipan – gítar, bassa og trommum –  þá ætti það annaðhvort að kalla fram tilfinningar um tilgerð eða ruglingslega aðdáun. Það sem Hinrik Baldvin, meðlimur Singapore Sling vildi framkalla þegar hann sagði þetta í viðtali við Dr. Gunna var mjög líklega hið síðara. Annars gerið þið bara upp um það. Hank and Tank er samstarfsverkefni þeirra Hinriks og Þorgeirs Guðmundssonar, kvikmyndagerðarmanns og fyrrverandi bassaleikara Singapore Sling. Songs for the Birds er þeirra fyrsta plata, og kemur hún út samhliða öðru hliðarverkefni Hinriks, The Go-Go Darkness.

Það sem er skýrt og greinilegt frá fyrsta lagi er úr hvaða herbúðum þessi plata hér kemur, lágstemmt og líðandi andrúmsloft í anda Singapore, ef gítar hamagangnum væri sparkað. Gengið er mjög smekklega um allt verkið, platan gengur upp og lítið virðist vera um uppfyllingarefni. Um umsjón á upptöku sá Barði Jóhannsson, en platan var að mestu tekin upp frá árinu 2004 í bitum, (smekklegar) trommur voru svo teknar upp af Aroni Arnarssyni.

Ætlunin með þessum disk hefur fyrst og fremst, miðað við hvernig hún var tekin upp, verið sem skemmtun milli stunda hjá þeim félögum. Eins niðurdrepandi og sú pæling hljómar virðist það ekki hafa komið niður á einbeitingunni þegar lagt var í lögin. Skot út í loftið varðandi af hverju það er, tel ég vera að öll platan hefur á einhverjum tímapunkti átt að vera eitthvað allt annað. Lögin líklega meira hlaðin en eins og þau eru hér á lokaniðurstöðu… en það er bara kenning. Það sem dregur heildina niður eru tvímælalaust fyrstu tvö lögin, því eftir þónokkrar hlustanir og pælingar koma þau fram sem frábær lög í fyrstu, en gjörsamlega falla í samanburði við rest plötunnar. Af hverju? Í upphafslaginu „Forsaken Place virkar það einmitt ekki sem virkar í hinum lögunum; textagerðin. Allur texti plötunnar virðist eiga að falla í heiðarlegt mót sem hentar tónlistinni og gerir það vel. Upphafslagið hins vegar kemur aðeins flatt upp og gefur engan vegin þá mynd af því sem á eftir kemur eins og opnunarlag ætti að gera. Virkar aðeins latur og sjálfskrifaður, á slæman hátt. Það sem einnig aðallega fellir annað lagið, „Precious One“ er einfaldlega hve fjarlæg rödd Möggu Stínu, sem syngur í því, hljómar gagnvart groddalegri bassarödd Þorgeirs. Kassagítardrifinn vestri með þónokkurn sjarma fer þar af leiðandi (þrátt fyrir bestu tilætlanir þess að vitna í „Do Ya Think I’m Sexy“ með Rod Stewart) í vaskinn. Varðandi rödd Þorgeirs væri hægt að setja hana í tvo flokka á plötunni; það fer eftir lögum hvort hún hljómar eins og Leonard Cohen ef Cohen væri pönkari, eða eins og blanda af Nick Cave og Lee Hazelwood – og þá er það ekkert lítið þegar á við.

Það er í raun ekkert árið 2009 sem heimtaði þessa plötu og erfitt er að pinna niður nákvæmlega hlustendahópinn, en ef mig grunar það rétt, þá er þeim félögum líklega drullusama. Sem er kannski svarið varðandi markhópinn… fólk sem er drullusama, og ekki er það slæmur félagskapur. Ef ég kem mér aðeins aftur að efninu, þá er rétt að byrja á að taka það fram að platan stoppar víða við. Andrúmsloftið gefur villandi í skyn að platan hafi verið tekin upp á
einum degi á meðan augljóst er að legið var yfir útsetningunum.

Lagið „You Never Told Me Your Name“ er það sem kemst næst einlægni á plötunni. Þar heyrum við mjög svarta ballöðu þar sem einföld píanólína undirstrikar vonleysi textans og er almennt mikil snilld. En vonleysi textans er algjört: „But you sang your song that one time for me and the birds fell from the trees“, svartur og hugmyndaríkur andskoti, gerir upp tvímælalaust besta og eftirminnilegasta lag plötunnar. Annað lag sem vert er að minnast á fyrir frábærlegheit er „Sparrow“. Óaðfinnanlegur gítarleikur ofan í hressandi og sérstakan trommuslátt og sóló sem hættir smekklega á
hárréttum stað. Latar og viðeigandi bakraddir sungnar af Önnu Margréti fullkomna svo þessa æðislegu blöndu.

Þessi gripur byrjar hægt og látlaust en vinnur sig nánast öfugt fram hvað gæði varðar. Vandinn með slíkar plötur er að hlustandinn á það til að missa áhuga fljótt og fatta svo í sjötta lagi að hann er byrjaður að klippa táneglurnar. Eða ef hann er óþolinmóður, bara sleppa því alfarið að fara yfir í næstu snilld. Lykilatriði við Songs for the Birds er að hún þarf tvímælalust fleiri en eina hlustun. Því miður er það að biðja um of mikið nú til dags… ég veit, ég veit, en hefðbundinn hlutur að segja hér á tölvuöld, ráðast á athygli og þolinmæði nútímafólks. En réttilega verður einhver að gera það, því
ef þessi plata fær ekki fleiri en einn snúning þá er hætta á að missa af því besta við hana sem heild, það hve drungalegri hún verður því lengra sem liðið er á hana. Jafnvel hið glaðlega en um leið kæruleysislega „Decadent Deak“, sem gefur í skyn að við öll séum að einhverju leyti atvinnulausar og svefnlausar byttur vegna ofneyslu á amfetamíni (sem er líklega að missa samhengið, en engu að síður dimm túlkun). Strax eftir það í laginu „Stranger“ kemur almennilega
fram sú geðveiki sem hefði ekki mátt vanta á hliðarverkefni frá Hinrik, þar sem helst væri hægt að benda á líkindi við Singapore Sling, enda ekki fjarlægt síðustu plötu þeirra Perversity, Desperation and Death. Þessi sækadelía sem ég á við þegar ég tala um geðveiki heldur svo áfram inn í lokalagið, „Middle East“. Tvö annars frábær lög með talsvert frjálsari gítarpælingum en í þeim sem komu á undan. Og er ég þá að tala um hlaðið feedback, bjaganir,
allrahanda djöfulgang… „the lot“, beisiklí.

Fyrsta plata þessara sólgleraugnaklæddu marða er þegar öllu er á botninn hvolft ekkert tímamótaverk, en hún stendur gjörsamlega fyrir því sem hún er að reyna að gera. En að hugsa til þess að það tók nokkur ár að klára hana er erfitt. Allavega án þess að hugsa til fyrrnefndrar pælingar um að hún hafi gengið í gegnum mjög stormasamt ferli hvað útsetningu varðar. Svona til að loka þessu verður sérstaklega að hrósa þeim félögum fyrir að hafa samið nýtt titilstef
fyrir hina frábæru mynd Djöflaeyjan frá 1996 með lagi með hinu svipbrigðalausa nafni „Instrumental“. Þ.e. ef Djöflaeyjan væri Sci-Fi mynd… sem er út af fyrir sig æðisleg pæling! Einhver að hringja í Friðrik Þór og Einar Kára?

Friðrik Sigurbjörn Friðriksson

Leave a Reply