Bróðir Svartúlfs – EP

Einkunn: 4,0
Útgáfuár: 2009
Útgáfa: Sjálfútgefið

Um hinn íslenska rappheim leikur ferskur norðanvindur.

Bróðir SvartúlfsÁ þröngum rappbúllum Reykjavíkurborgar hefur myndast kæfandi svitastybba sem festir sig í fötum og hári þeirra sem þar halda til. Endurnýjunin í íslensku rappi er sorglega lítil – enda senan smá. Ástríðufullar kempur halda henni gangandi á meðan færri og færri nýliðar bætast í hópinn.

Það sem er hins vegar gott við smæð senunnar er að rappararnir geta ekki með góðu móti lokað sig  af og verið fullkomlega sjálfbærir. Rappið verður að leita um víðari völl en einungis á sléttur hipp-hoppsins. Erpur rappar með Steindóri Andersen og Sykri, Quarashi, Fræ og Fallegir Menn hafa einnig farið langt frá hinni hefðbundnu formúlu og tekist vel til. Þegar múrar eru brotnir er hægt að byggja eitthvað nýtt og ferskara upp úr rústunum, og það er einmitt það sem Bróðir Svartúlfs reyna að gera.

Bróðir Svartúlfs var stofnuð af fimm ungum drengjum á Sauðárkróki í september 2008. Litlum sögum fer af þeim fyrr en þeir komu sáu og sigruðu Músíktitilraunir í Mars 2009. Tónlistin var eitraður kokteill epísks rokks og tilfinningaþrungins rapps (Jú, ég hélt líka að þessi blanda hefði verið fullreynd á nu-metal árunum, en greinilega ekki, því að ljóðrænar rímur Arnars Freys falla fullkomlega að dramtísku rokki hljómsveitarinnar).

Undir lok síðasta árs kom svo út frumraunin, sex laga stuttskífa samnefnd sveitinni. Platan var tekin upp að mestu í tankinum á Flateyri og í Sundlauginni í Mosfellssveit.

Á plötunni eru textar, flæði og innlifun Arnars í algjöru lykilhlutverki á meðan hljóðfæraleikararnir virka eins traust riddarasveit honum að baki. Píanó gegnir oftast aðalhlutverki í undirleiknum, en trommurnar og bassinn halda taktinn. Gítarinn kemur svo sterkur inn annaðhvort með fínum gítarlínum eða yfirdrifnum gítarsólóum sem ýmist ganga fullkomlega upp (,,Rólan…”),  reyna örvæntingafullt að yfirgnæfa rappið (,,Alinn upp…”) eða leiðast út í gjörsamlega tilgangslausa fingraleikfimi (,,Gullfalleg útgáfa…”).

Hið mikla magn orða og setninga sem rapparar geta koma fyrir í einu lagi, og sú staðreynd að margir þeirra nýta formið meira eins og smásögu frekar en ljóð, á það til að reynast þeim  tvíeggjað sverð.  Því að ef umfjöllunarefnið er hlustandanum fjarlægt tekst honum ekki að samsama sig með flytjandanum (nema að frásögnin sé þeim mun betri). Ég hef aldrei skotið mann eða mangað hóru og næ því litlum tilfinningatengslum við bófarapp. Arnari Frey tekst hins vegar lystilega vel að halda textunum hæfilega óræðum og opnum fyrir túlkunum án þess þó að vera að reyna að fela merkinguna (eða merkingarleysið eins og 99,7% allra popp-og rokktextasmiða).

,,Röddin í mér er ekki hærri en í manninum mér við hlið / sögurnar mínar eru ekki betri / hrafnasparkið sem ég rita / munurinn felst í því að veröldin veitir honum il / á meðan ég get bara öskrað mér til hita”

Rímurnar eru hver annarri betri, einlæg, innhverf ljóð um sálarlíf manneskjunnar í sorgum og átökum hversdagsins og raunveruleikaflóttann sem oft er auðveldasta leiðin út. Umfjöllunarefnin eru slík að hver maður getur sett sig í spor aðalpersónunnar.

,,Ég hélt eins fast og fingurnir leyfðu mér um kulinn og lífvana lófann. / Vissi að dagarnir væru taldir, vildu þó ekki missa tak / Það er svo pínlegt að gera það eina rétta, en það eina rétta er að sleppa / og vita að ekki neitt verði eins og það var”

Flestir textarnir eru í myrkari kantinum, fara frá því að vera öfga-tilfinningaþrungnir yfir í meinfyndnir og þegar að hamingjan nær að troða sér í gegnum tregann er undirtónninn engu að síður ávallt alvarlegur.

,,Svo hvernig get ég annað en glott? / Það er stelpan sem að kyssir mig / og áfengið sem að fyllir mig / og allt það sem að hjálpar við að myrða mig / en er bara svo gott / Litlir sólargeislar sem að hafa bölæðið á brott”

Textarnir eru aðgengilegir og áreynslulausir en þó yfirfullir af frumlegum myndhverfingum, áhugaverðri notkun tungumálsins og tekst að vera algjörlega lausir við klisjur og slík leiðindi. Þeir sýna greinilega að Arnar Freyr er einhver besti ungi textasmiður landsins í dag.

,,það er allt farið fjandans til ég sit eftir einn og örvilna / ég get ekki hangið neins staðar, það er búið að skera á snöruna. / Mér hefur aldrei fundist ég vera eins lifandi á ævinni / það hljómar vel að segja þetta en tilfinningin hræðir mig”

Ég get í fullri alvöru sagt að öll lögin á plötunni eru góð. Það er erfitt að gera upp á milli en bestu hlutar plötunnar eru þegar að texti og tónlist vinna hvað best saman. Að þessu sögðu get ég samviskusamlega haldið því fram að bestu lögin séu ,,Rólan Sveiflast Enn” og ,,Augun” .

,,Rólan Sveiflast Enn” fjallar á stórkostlegan hátt um það hvernig ævintýraþrá og barnsleg heimsmynd þarf að víkja fyrir alvöru lífsins. Draumar brotna í öreindir sínar en ný sýn á hlutina fylgir í kjölfarið. Þegar við þurfum að takast á við erfiðleika og sársauka fullorðinsáranna sjáum við einfaldleika og sakleysi æskunnar í hillingum.

,,skegg óx og tímans tennur / rifu í sig barnslegt hold / ryð afmyndaði paradís / sem brotnaði niður /og gull varð loks að mold”

Trommurnar slá taktinn; hermars í anda riddaranna sem afreka hetjudáðir sínar á leikvellinum og  hermannanna sem heyja persónuleikastyrjaldir við eigið sjálf á vígelli hversdagsins. Spiladósin eykur enn á endurminningastemmninguna. Undir lokin kemur svo bjagaður rafgítar sterkur inn og gítarsólóið verður klímaxið í einstaklega grípandi og eftirminnilegu lagi (minnir einna helst á tilrauna-indí-rokk-rappbandið Why?).

Hitt besta lag plötunnar að mínu mati er Augun. Án nokkurra ýkja þá fæ ég gæsahúð, hroll og vott af andlega fullnægjandi taugaáfalli í hvert einasta skipti sem ég hlusta á það.. Ég gerði meira að segja tilraun á sjálfum mér við gerð þessarar rýni með því að greina nákvæmlega þessi líkamlegu áhrif. Ég var reyndar hræddur um að eyðileggja áhrifin með því að hlusta of oft, en viti menn, það skipti engu máli, þau virðast alltaf jafn mikil.

Lagið hefst á píanóspili sem plægir jarðveginn með einmanalegum mollhljómum og svo sker rafmagnsgítarinn hljóðmyndina og hin hljóðfærin fylgja í humátt á eftir og setja virkilega þyngd í lagið. Eftir rúma mínútu er krafturinn aftur minnkaður og Arnar Freyr byrjar rólega.

,,Í fyrsta skipi í alltof langan tíma snertast augnaráðin, engin orð / augun segja allt sem segja þarf” smátt og smátt byggist spennan upp. Ég byrja að anda hraðar. Í textanum er uppgjör óumflýjanlegt.

„…og þegar þú sjálfur þykist vera blindur er ey undarlegt að á hnútnum í maga þínum strekkist bara / í fyrsta skipti í allt of langan tíma snertast augnarráðin / þúsund orð”

Þarna byrjar hrollurinn að færast úr maganum á mér yfir í aftari hluta líkamans og upp eftir bakinu.

Spennan byggist upp.

,,…undarlegt að erfiðast getur verið að opna dyrnar ef að lykillinn er liggjandi í þínum eigin vasa”

Hraðinn eykst og hjartslátturinn í takt. Sársaukafull játning:

,,Ég viðurkenni, ég hef gerst sekur um að hlusta ekki á eigið hjarta þegar það talar sem hæst, en næst og framvegis þá rita ég heilræðin bakvið eyrað svo ég geti loks að nýju sofið vært”

Áfergjan er orðin næstum því óþolandi mikil. Allar tilfinningaflóðgáttir hafa verið opnaðar og það er engin leið að stoppa.

Og svo kemur það. Augnablikið sem breytir öllu. Augnablikið sem uppbygging hefur stefnt að og hún fullkomnast í.

Sekúndubrotsþögn, eins og lognið á undan storminum.

Og svo…

Rafmangsgítarinn ýskrar eins og nögl á krítartöflu. Nístir sér inn í bakið á mér. Og svo brestur stíflan. Hinn óbærilegi þungi tilverunnar finnur sér farveg í hljóðfærum nokkurra sveitastráka frá Sauðárkróki og skekur líkama minn.

Stórkostlegt lag!

Það sem betur hefði mátt fara á plötunni var kannski helst hversu magur og skerandi  gítarhljómurinn er í rokkaðri köflum (mætti vera margfalt feitari/þyngri að mínu mati) og svo fannst mér uppröðunin eiginlega virka frekar óúthugsuð. Meiri tilraunamennska í lagauppbyggingu, hljóðfæranotkun og útsetningum hefði líka gert plötuna fjölbreyttari og að öllum líkindum áhugaverðari. En þetta eru allt smáatriði.

Í heildina finnst mér  þessi frumraun Bróðir Svartúlfs frábær. Ég bíð spenntur eftir að sjá hvert þeir stefna næst. Ég vona svo sannarlega að þeir staðni ekki, heldur haldi áfram að þróast, geri tilraunir með þann hljóðheim sem þeir eru að skapa og verði óhræddir við prófa nýja hluti. Ég sé fyrir mér að næsta plata verði heimspekileg þemaplata sem fylgi söguhetju frá tilfinningalegu áfalli yfir þröskuldinn að níhilisma og geðveiki. Einhverskonar íslensk blanda milli A Grand Don’t Come For Free eftir The Streets og Nausea eftir Jean-Paul Sarte (bara hugmynd).

Hinn ferski norðanvindur getur hæglega róast og orðið að ljúfum andvara, en líklegra þykir mér þó að hann magnist upp í eitthvað meira. Veðurfréttirnar munu hljóma eitthvað á þessa leið: Varað er við stormi á öllu landinu, með stórsjó og úrkomu. Festið niður allt lauslegt, byrgið fyrir glugganna og í guðs bænum haldið ykkur innandyra.

Bróðir Svartúlfs – Rólan Sveiflast Enn

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.