Mínus rokkuðu Batteríið!

Mínus-liðar keyrðu á öllu sínu þegar þeir mættu á svið Batterísins sl. föstudagskvöld 19.mars. BIOGEN og DLX ATX höfðu hitað gesti kvöldsins upp með bragðgóðri mixtúru af góðu fuzz-i og elektróník. Upphitunaratriðin boðuðu þá greinilega nýjungar hjá aðalatriði kvöldsins. Voru áhugasamir aðdáendur orðnir verulega forvitnir þegar Mínus stigu á svið og var strax rennt í alvöruna. Gamalt efni í bland við nýlegt var leikið af tærri snilld og sýndu strákarnir að þeir væru enn jafnvígir á fyrstu tóna sína sem og þá nýrri.

Þunginn í hljómi sveitarinnar var þá dreginn ögn niður og æstum múginum sem hentist til og frá á dansgólfinu veitt hvíld þegar kynnt var örlítið af nýju efni sveitarinnar. Experimental og post-drifið rokk var framreitt en ögn voru aðdáendur þó æstir til að fylgjast nægilega vel með en það sem sveitin lagði upp með var bæði áhugavert, ferskt og spennandi. Nýttist tími þeirra í sveitinni nýverið þá greinilega vel.

Krummi leiddi félaga sína Bjössa, Bjarna og Sigga af tærri snilld og hélt fjöldanum vel við efnið. Rifinn v-neck bolur og kófsveitt og rennblautt hár söngvarans skreytti sviðið undir endann og var fögnuður gesta gríðarlegur þegar sveitin renndi í lokalag kvöldsins. Varð þar fyrir valinu smellurinn The Long Face af plötunni Halldór Laxness. Án efa stærsti smellur sveitarinnar, sem enn þann dag í dag, svínvirkar.
Mínus þökkuðu þá nett fyrir sig, skáluðu og stuttu seinna brunuðu þeir félagar suður í Leifsstöð en þar var stefnt á kóngsins Köben til að halda fjörinu gangandi kvöldið eftir. Ekki fylgir sögunni hvernig sú ferð hefur gengið en víst eru þeir komnir á klakann á ný, heilir á höldnu.

Mínus sönnuðu það þó vel að þeir eru engan veginn orðnir saddir en ögn hefði fjöldinn mátt vera móttækilegri fyrir nýja efni sveitarinnar þetta kvöldið. Spennandi er það þó mjög og gaman verður að hlusta á næstu skífu drengjanna. Þeir eru enn og svo sannarlega ekki hættir. Langt í frá!

(Mynd ókunn)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.