• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Lærðu að elska…

Það að list hafi áhrif á mann er gríðarlega einstaklingsbundin tilfinning, tilfinning sem er sjaldnast studd rökum, a.m.k. ekki rökum sem eru sýnileg í fyrstu. Maður þarf að grafa djúpt í sálarlífið og undirmeðvitundina til þess að finna þessa strengi sem tengja mann listinni svo náið. Þess vegna getur það oft verið erfitt að útskýra fyrir öðrum hvað það er sem heillar mann við tiltekið verk, maður veit það varla sjálfur.

Ég hef alltaf átt í erfiðleikum með að velja mér uppáhalds. Hvort sem það er litur, matur, staður, bíómynd eða tónlistarmaður. Það sem er í mestu uppáhaldi virðist alltaf svo ómerkilegt þegar maður ætlar að reyna að setja puttann á það sem heillar mann. Þrír hljómar, vers-viðlag-vers og einfaldur texti geta snert mann á einhvern djúpstæðan hátt sem er óskiljanlegur öðrum.

Ég ætlast þess vegna ekki til þess að allir skilji aðdáun mína á nútímaskáldinu, teiknimyndasögu-og alþýðutónlistarmanninum Jeffrey Lewis, en ég ætla samt að reyna að útskýra hana.

…Jeffrey Lewis

don’t let showmanship become more important than honesty,
if you don’t want to be so many singers you see.
You don’t have to act crazy to do something amazing,
you can be just like you should and still do something really good.
And even when you know there’s nobody listening,
say it to yourself because it’s good to your health.
I know nothing makes sense if you think too much,
religion, a pigeon, radios and television.
Though it takes so much strength just not to suck,
and not to be a cynic but defer another gimmick.”

-Jeffrey Lewis – Don’t let the record labels take you out for lunch-

Við fyrstu hlustun gæti tónlist Jeff Lewis jafnvel hljómað eins og slappur brandari; veik og hálf-nördaleg röddin, ofhlaðnir bulltextarnir og gítarhljómar svo einfaldir að litla frænka þín gæti spilað þá eftir fyrsta gítartímann sinn. En ef skyggnst er undir yfirborðið leynist þar ljóðrænn snillingur með einstakan hæfileika til þess að segja sögur sem lýsa hinu mannlega ástandi og orða hugsanir á einfaldan og hnyttinn hátt, hvort sem að lagið fjallar um það að flytja í nýja íbúð, ástarsorg eða það að vera nauðgað af tvífara Will Oldham á yfirgefnum lestarteinum. Hann er intellektjúal bítnikkskáld myndasögukynslóðarinnar og Bob Dylan YouTube-kynslóðarinnar.

Jeffrey Lightning Lewis hóf ekki að semja tónlist fyrr en hann var orðinn rúmlega tvítugur. Eftir að hafa verið í nokkrum blúsrokk böndum og Greatful Dead ábreiðuhljómsveitum í mennta- og háskóla hafði hann misst alla trú á því að tónlist gæti skipt máli. En það breyttist þegar að hann heyrði í lo-fi goðsögninni Daniel Johnston í fyrsta skipti. Hið fullomlega skeytingarleysi fyrir hljómi, kunnáttu og tækni og hin algjöra áhersla á að nota listina til einlægrar og sannrar tjáningar opnaði augu hans fyrir því sem hægt var að afreka með tónlist.

Jeff hóf að semja tónlist á kassagítar pabba síns eftir þessa uppljómun sína, og tók upp á lítið fjögurra rása upptökutæki. Hann bjóst ekki við að gefa upptökurnar nokkurn tímann út.

Tónlistin var alþýðutónlist, einfaldar melódíur og textinn í aðalhlutverk, ýmist sunginn eða talaður (stundum næstum því rappaður). Áhrifin komu aðallega frá myndasögum, New York-borg, Pönki, Amerískri alþýðu-tónlist, mannkynssögu, bókmenntum og indíkúltúr. Lögin voru skondnar smásögur og ævisögulegar pælingar um hversdagslega hluti, oft á tíðum svo opinskáar að sársaukafullt er að hlusta á þær.

Hann ákvað að mögulega væru þessi lög nógu góð til þess að deila með öðrum og fór að spila á tónleikum og selja upptökurnar. Fljótt var hann farinn að vekja þónokkra athygli innan hinnar svonefndu Anti-Folk senu í New York rétt fyrir aldamótin, þar sem hópur tónlistarlegra utangarðsmanna byrjaði að safnast saman á open-mic kvöldum á Sidewalk kaffihúsinu á austurhluta Manhattan. Flestir listarmennirnir spiluðu órafmagnaða tónlist með Gerðu-Það-Sjálfur (D.I.Y.) og pólitískum viðhorfum pönksins með meiri áherslu á texta, innlifun og gleði en hæfileika og færni. Þessi einkenni hafa verið kjarninn í tónlist Jeffs alla tíð.

Vinir hans úr New York senunni, Kimya Dawson og Adam Green úr The Moldy Peaches hjálpuðu honum að komast inn undir hjá Rough Trade útgáfunni í Bretlandi og árið 2001 kom út frumraunin, The Last Time I Did Acid I Went Insane.

,,Einsamall maður er einlægur, en við innkomu annars hefst hræsnin.” sagði Ralph Waldo Emerson og á það vel við tónlistina. Sá sem semur tónlist bara fyrir sjálfan getur ekki verið annað en fullkomlega einlægur í sköpun sinni, en aðeins við vitneskjuna um að annar muni heyra verkið breytist sköpunarferlið. Listamaðurinn verður meðvitaður um sjálfan sig, listina og þau viðbrögð sem hún mun fá. Það er á þeim tímapunkti sem að margir listamenn fara útaf brautinni og byrja að hugsa um hvernig þeir líta út. Við viljum að öllum líki við okkur og reynum að gera það sem við teljum að geðjist öðrum. Við viljum sýnast klárari, fyndnari, fallegri og meira hipp og kúl en við erum. Listamaðurinn fer að semja tónlist sem hann heldur að aðrir vilji að hann geri. Broddurinn hverfur og allir listamennirnir byrja að hljóma eins, og þeir sem synda á móti straumnum fá litla eða enga athygli.

Í þennan listræna heiðarleika hefur Jeff einbeitt sér við að halda, og þar af leiðandi ekki verið í uppáhaldi hjá tískumótandi miðlum í tónlistarbransanum (indí-yfirvaldið Pitchforkmedia virðist m.a. ekki hafa mikið álit á Jeff, eða reyndar nokkrum sem hefur komið úr Anti-Folk senunnni ef út í það er farið). Ég reyndar skil vandamálið sem gagnrýnendur standa frammi fyrir þegar þeir meta plöturnar, þær eru gríðarlega ójafnar. Þegar listamaður gerir tónlist gagngert fyrir sjálfan sig verða til gullmolar en einnig hellingur af dóti sem á ekkert erindi við aðra. En persónulega fyrir mig bæta demantarnir allt annað upp.

Snilldin í list Jeff’s felst í stórkostlegum hæfileika til þess að segja sögur á einfaldan, einlægan og frumlegan hátt. Flest lögin endurspegla níhílíska heimsmynd en þó ávallt með jákvæðum boðskap fullum af von og bjartsýni. Einlægni felst nefnilega í því að þora að horfast framan í grimman heiminn án þess að falla í pytt sýndarmennsku eða sýnikalisma. Að taka öllu sem gríni og kaldhæðni er huglaus flótti frá raunveruleikanum, en að takast á við hann með bros á vör er hugrekki.

Jeff sver sig í ætt við marga aðra alþýðutónlistarmenn þar sem hann er hvorki sérstaklega fær hljóðfæraleikari né söngvari, tónlistin er aðeins miðill fyrir orðin, sögurnar og tilfinningar. Hann tjáir sig einnig á svipaðan hátt í myndasögunum, sem eru ýmist ævisögulegar eða vísindaskáldsögur. Teikningarnar og sögurnar eru einfaldar og húmorinn og sjálfsháð í fyrirrúmi. Oft virðast listformin skarast, annars vegar í lögum um uppvakninga og ofurhetjur og hins vegar rímuðum myndasögum. En það er helst í því sem að hann kallar ,,low-budget heimildarmyndir” sem að formin sameinast fullkomlega í eitthvað nýtt og ferskt. Þar rekur hann sögu einhvers fyrirbæris í söng og teikningum. Það er sérstaklega skemmtilegt fyrir áhugamenn um tónlist að fara í gegnum sögu Rough Trade, The Fall, K-records og sérstaklega hinn 8 mínútna langa, og 1500 orða, ljóðabálk The Complete History of the Development of Punk on New York’s Lower East Side from 1950 to 1975. YouTube hefur reynst honum góður vettvangur til að miðla listinni, því að ,,í eigin persónu” njóta sjarmi og gáfur Jeffs sín enn betur en á plötunum.

Jeff Lewis hefur gefið út 5 breiðskífur (þar af eina aðeins með lögum eftir bresku anarkó-pönksveitina Crass) og fjöldann allan af lögum á sjálfútgefnum stuttskífum, safnplötum og samvinnuplötum. Hann skipuleggur ennþá allar tónleikaferðir sínar sjálfur og sefur ósjaldan á gólfum vina og aðdáenda um allan heim til þess að láta enda ná saman á ferðalögunum.

Að velja nokkur lög úr safni á annað hundruð laga er ekki auðvelt mál, en hér eru 5 lög (eitt af hverri breiðskífu),og svo fjögur myndbönd. Saman gefur þetta fólki vonandi ágætis mynd af list Jeffrey Lewis.

Jeffrey & Jack Lewis – Williamsburg Will Oldham Horror (af City & Eastern Songs [2005])

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Jeffrey Lewis & The Junkyard – If Life Exists (af Em Are I [2009])

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Jeffrey Lewis – East River (af The Last Time I Did Acid I Went Insane [2001])

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Jeffrey Lewis & The Jitters – End Result (af 12 Crass Songs [2007])

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Jeffrey Lewis – If You Shoot The Head You Kill The Ghoul (af It’s The Ones Who’ve Cracked That The Light Shines Through [2003])

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

The Complete History of the Development of Punk on New York’s Lower East Side from 1950 to 1975.
http://www.youtube.com/watch?v=88QLxLHQW_M

The Chelsea Hotel Oral Sex Song
http://www.youtube.com/watch?v=lfQzqgsch8w

Low-Budget History of Communism in China
http://www.youtube.com/watch?v=-ryogcssMvg

1 Athugasemd

  1. Tweets that mention Lærðu að elska… | Rjóminn -- Topsy.com · 16/04/2010

    […] This post was mentioned on Twitter by Rjóminn. Rjóminn said: Nýtt á Rjómanum : Lærðu að elska…: Það að list hafi áhrif á mann er gríðarlega einstaklingsbundin tilfinning, tilf… http://bit.ly/aVoCzz […]

Leave a Reply