• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Bræðslan 2010

Tónlistarhátíðin Bræðslan á Borgarfirði Eystri fer fram í sjötta skipti í sumar helgina 23. – 25. júlí.

Bræðslan hefur styrkt sig í sessi sem einn af áhugaverðari stoppistöðum Íslands yfir sumarmánuðina.  Í gegnum tíðina hafa komið fram á Bræðslunni Emilíana Torrini, Damien Rice, Belle & Sebastian, Magni, Lay Low, Þursaflokkurinn, Megas og Senuþjófarnir, Páll Óskar og Monika og Eivör Pálsdóttir svo fáein séu nefnd.

Að jafnaði hafa rúmlega 1.000 manns sótt Borgarfjörð Eystri heim Bræðsluhelgina sem verður að teljast ágætis viðbót við íbúafjöldann sem telur um 100 manns.  Tónlistarhátíðin Bræðslan dregur nafn sitt af samnefndri síldarbræðslu þarsem tónleikar hátíðarinnar fara fram að laugardagskveldi.

Í ár koma fram á hátíðinni Dikta, Fanfarlo, KK & Ellen, 200.000 Naglbítar og sigurvegarar Músíktilrauna Of Monsters and Men.

Í fyrra komu þáverandi sigurvegarar Músíktilrauna, Bróðir Svartúlfs, fram og hvur veit nema ákveðin hefð hafi hér með skapast milli sigurvegara Músíktilrauna og Bræðslunnar.

Forsala á Bræðsluna hefst í dag kl. 10:00 á midi.is og afgreiðslustöðum mida.is

Verð aðgöngumiða í forsölu er 5.500.- kr. og eru 800 aðgöngumiðar í boði.  Verð aðgöngumiða við hlera verður 6.500.- kr. ( þeas ef ekki verður orðið uppselt í forsölu ).

Bræðslan fékk nýlega Eyrarrósina við hátíðlega athöfn að Bessastöðum en Eyrarrósin er sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni sem Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Flugfélag Íslands standa að.  Verndari Eyrarrósarinnar er Dorritt Moussaieff forsetafrú Íslands.

Bræðslan er styrkt af Menningarráði Austurlands og Mennta – og menningarmálaráðuneytinu auk þess sem Flugfélag Íslands er sem fyrr einn af máttarstólpum hátíðarinnar.

Bræðslan á Facebook: www.facebook.com/braedslan
Borgarfjörður Eystri: www.borgarfjordureystri.is

Egill er ritstjóri Rjómans.

Leave a Reply