• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Who Knew – Bits and pieces of a major spectacle

Einkunn: 3,5
Útgáfuár: 2010
Útgáfa: Devil Duck/101berlin

Eftir að hafa hlustað á þessa fyrstu plötu sexmenningana í Who Knew var það fyrsta sem kom í hugann á mér hversu tímabær viðbót hún er við íslenska tónlistarflóru. Nú finnst mér fyrst sem íslenskt indie rokk (í sinni víðustu merkingu) hafi fullorðnast, orðið nógu “erlendis” eins og skáldið sagði en þó án þess að missa sinn sérstaka íslenska blæ.

Á Bits and pieces of a major spectacle er hljómurinn óvenju stór miðað við það sem maður er almennt vanur að heyra og minnir á köflum helst á eitthvað sem Phil nokkur Spector væri full sæmdur af. Hljómurinn er líka skemmtilega lagskiptur en það er nánast eins og grófum stúdíoupptökum, jafnvel heimagerðum, hafi verið blandað saman við fínpússaðar og tölvuslípaðar upptökur. Þetta þarf svo sem ekki að vera raunin en hvað sem gert var þá hafa Who Knew náð að skapa í hljómnum (“sándinu”) forvitnilegar andstæður sem gefa honum áhugaverðan og einkennandi karakter.

Aðal karakterinn er þó í einstakri söngrödd sönvararns Ármanns Ingva Ármannsonar en hún hljómar eins og ef David Byrne og Dan Boeckner og Spencer Krug úr Wolf Parade kæmu saman í gervi Tenóranna þriggja. Það heillar mann óneitanlega að heyra hvað menn hafa leyft sér að vinna með röddina í mixinu, bæta við hana, tvöfalda og margfalda og láta hana hljóma stóra til að hæfa hljómnum í bandinu. Það vill nefnilega oft gerast, þegar söngraddir með mikinn karakter eru annars vegar, að reynt sé að hemja þær eða minnka einkenni þeirra á einhvern hátt. Svo er ekki í þessu tilfelli og er það vel. Hér fær röddin að njóta sín til hin ítrasta.

Lögin á plötunni renna öll í gegn frekar átakalaust í stöðugu og öruggu tempói en eru, að manni finnst, stundum aðeins of keimlík og skorti á stöku stað andstæður eða eitthvað örlítið meira en fyrir er til að brjóta þau upp. Þetta er þó alls ekki einsleit plata. Langt því frá. Þarna er að finna sköpunargleði og frumkraft sem minnir einna helst á Jakobínarínu á meðan sú ágæta sveit var og hét. Og ekki skortir heldur gleðina. Hún er ósvikin og meðlimir Who Knew fara svo einstaklega létt með að miðla henni til hlustandans að maður þarf ekki að hlusta lengi til að leyfa sér að hrífast með.

Ég er einstaklega bjartsýnn fyrir hönd Who Knew og hvað framtíð kraftmiklar indie tónlistar á Íslandi varðar. Þar fara Who Knew fremstir í flokki og munu eflaust vera fánaberar okkar erlendis á þessu sviði haldi þeir áfram á þessari braut. Hvað þessa frumraun þeirra varðar þá grunar mann að sveitin eigi meira inni og platan sé, eins og lesa má úr titlinum, aðeins brot og bútar af einhverju stórkostlegu sjónarspili sem ekki hafi náðst að koma fullkomlega til skila. Við höfum hinsvegar fengið mikla og góð innsýn inn í það sem koma skal og það sem mögulega gæti orðið. Við skulum bara vona að það komi og skili sér þá að fullu.

Who Knew – Sharpen The Knife

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Egill er ritstjóri Rjómans.

1 Athugasemd

  1. Tweets that mention Who Knew – Bits and pieces of a major spectacle | Rjóminn -- Topsy.com · 18/05/2010

    […] This post was mentioned on Twitter by Egill Harðar, Rjóminn. Rjóminn said: Rjómadómur um fyrstu plötu Who Knew, Bits and pieces of a major spectacle, er kominn í loftið : http://bit.ly/bd2lEC […]

Leave a Reply