Johnny Stronghands – Good People of Mine

Einkunn: 3,5
Útgáfuár: 2010
Útgáfa: Sjálfútgefið

Djammviskubit Johnnys

Eins og þungarokksbandið sem málar sig og klæðir sig í svart og syngur um dauðann, fer Jóhann Páll Hreinsson líka í sérstakan búning þegar hann grípur í gítarinn og breytist í Johnny Stronghands: hann setur á sig hatt, fyllir glasið af viskí og byrjar að syngja um kvennaskort og vín. Textarnir eru uppfullir af blúsklisjum og tónlistin gamaldags deltablús, en guð minn góður hvað hann lifir sig inn músíkina svo það er nánast ómögulegt að hrífast ekki með.

Blúsinn er bundinn ströngu hljómfræðilegu formi og kannski örlítið lúmskara, en þó ekki minna ströngu, textalegu formi. Í svo föstu formi er falið ákveðið öryggi, sem leysir tónlistarmanninn frá því að þurfa að hugsa út fyrir þann ramma. Þetta er að vissu leyti kostur, maður veit að hverju maður gengur, en að sama skapi er það galli, þar sem fátt óvænt eða spennandi gerist.

Það er kannski það fyrsta sem maður tekur eftir við plötu Johnny Stronghands, Good People of Mine, hún ræðst ekki á þig með valdi og þröngvar þér til að hlusta. En ef þú ert tilbúinn til þess að gefa þig henni á vald sjálfviljugur munt þú svo sannarlega fá heilmikið fyrir þinn snúð. Þetta er ekki nauðgun, heldur innilegar ástarlotur.

Hingað til hefur íslenskur blús verið að mestu fastur í tengslum við Jazz eða Rokk. Blúsinn hefur orðið einskonar opinn vettvangur hæfileikra hljóðfæraleikara til þess að sýna fingrafimi og færni innan fasts forms. Svo við höldum áfram með kynlífslíkinguna þá er þeirra blús sjálfsfróun.

En nú er ég kominn út á hálan ís. Ein helsta gryfjan sem listgagnrýnendur eiga til að falla í þegar þeir fjalla um verk listamanna er að þröngva sinni eigin merkingu upp á verkin, horfa ekki á hvað tilgangur og markmið verksins er í sjálfu sér, heldur krefjast þess að það uppfylli þá staðla og mælikvarða sem þeir vilja fá út úr listinni.

Pönk á ekki að hljóma vel og lounge-tónlist á ekki að vera tilfinningarík, það er ekki aðalatriðið. Að sama skapi á sá blús sem Johnny Stronghands spilar hvorki að vera flókinn né frumlegur. En hvernig ætlum við þá að meta plötu sem reynir þetta hvorugt?

Við getum til dæmis athugað hvað tónlistarmaðurinn segir sjálfur og notað það sem mælikvarða.

Jóhann sagði í viðtali við Rás 2 að allir bestu blúslistamennirnir finndu sér sinn eigin einkennisstíl. Ef þú heyrir í Muddy Waters, Skip James eða Blind Willie McTell, þá veistu strax frá fyrstu tónunum hver á í hlut. Það er það sem Johnny er búinn að gera, hann hefur skapað sér sinn eigin letilega sunnudagsstíl, með falsetturödd og naumhyggjulegu gítarspili. Stór plús fyrir það.

Hann hittir sjálfur naglann á höfuðið þegar hann viðurkennir í sama viðtali að tónlistina hans vanti ákveðna greddu sem baðmullarblúsarar suðurríkjanna voru svo uppfullir af. Þá var tónlistin upp á líf og dauða, eina leiðin út úr volæðinu, hinn sanni farvegur tilfinninga, bitrar reiði og vonbrigða, en einnig æstrar gleði og kynferðislegrar orku, sem er bæld og fær aðeins útrás í dulkóðuðum textum og frummannlegum hrópum – ,,you can squeeze my lemon ’til the juice runs down my leg” söng Robert Johnson. Sem betur fer reynir Johnny Stronghands ekki að gera sér upp slíka greddu, greddu sem ungur íslenskur karlmaður getur líklegast ekki fundið, kynferðislega orkan er ekki bæld, og biturðin sem fylgir kynþáttahatri og stéttaskiptingu er ekki til staðar Þó að tónlistin sé þessvegna ekki jafn beitt og blúsaranna forðum, er hún heiðarleg, en í mínum bókum er það líklega besti eiginleiki sem hægt er að eigna tónlist. Lífið er ekki blús, heldur er blúsinn lífið.

Það er erfitt að gera upp á milli laganna enda eru þau öll vel samin og vel spiluð, ekki einni nótu er ofaukið og innlifunin algjör. Svo ég nefni aðeins nokkra af hápunktum plötunnar þá tekst honum m.a. að gera laginu ,,What’s the matter now?”, eftir blúsgoðsögnina Mississippi Fred McDowell, góð skil, það er helst að maður sakni stelpuskrækjanna sem fylla bakgrunninn í upprunalegu útgáfunni. En þetta er ekki endurgerð, heldur endurtúlkun, og hún er full af tilfinningu. Jafnvel þegar Jóhann syngur ,,bring me my pistol honey bring me my shotgun too” og kveður svo elskuna sína í hinsta sinn, þá skín alvaran úr rödd hans. Einmanalegur gítarinn styður við laglínuna og fóturinn heldur taktinn, maður finnur fyrir nærveru Johnnys. Á þessu augnabliki þakka ég fyrir að hann ákvað að vera ekki að fikta við upptökurnar meira, bæta við aukahljóðfærum og óverdöbbum.

,,Got’s to leave” er annar gullmoli en þar treður Johnny flöskuhálsi á fingur sér og ,,slædar” upp og niður gítarinn með góðum árangri. Ég er nokkuð viss um að ég hafi heyrt afbrigði af melódíunni í einhverju popplagi, en það dregur ekki úr gæðum lagsins (er það ekki líka bara saga þjóðlagatónlistarinnar í hnotskurn?).

,,Nine Girl Night” er stuðslagari plötunnar, skemmtileg hrakfallasaga kvennabósa með kröftugu gítarsólói.

Plötunni lýkur svo með hinu ljúfsára, ,,Lay It All On Me” sem er sungið frá sjónarhóli einnar af hetjum hversdagsins.

Good People of Mine verður seint talin frumleg, en hún er persónuleg og falleg. Johnny þekkir blúshefðina út ystu æsar og þess vegna gengur þetta upp hjá honum, hann lifir og andar blúsnum. Þó að sögurnar séu kannski ekki sannar, meinar Johnny hvert orð; hver nóta kemur frá dýpstu rótum hjarta hans. Hann sannar hér að þrátt fyrir að formið sé gamalt er ennþá hægt að tjá sig heiðarlega í gegnum það.

Johnny Stronghands – Ain’t it hard?

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Johnny Stronghands – Nine Girl Night

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.