• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Ókindin snýr aftur

Þið getið varla ímyndað ykkur gleðina sem heltók mig þegar ég frétti að rokkhljómsveitin Ókind væri loksins að snúa aftur.

Það hefur líklega verið árið 2002 sem ég heyrði fyrst í Ókind, stuttu áður en þeir lentu í öðru sæti á Músíktilraunum (á eftir Búdrýgindi). Ég var ungur og óharðnaður unglingur á Seltjarnarnesi, u.þ.b. órokkaðasta bæ á landinu. Það voru engar kúl hljómsveitir af Nesinu (reyndar eiga bæði Sigur Rós og Mínus eiga ættir sínar að rekja þangað, en það frétti ég ekki fyrr en  seinna),  engir tónleikar, engin sena, ekkert rokk.

Ókind var uppljómun, það eina áhugaverða sem var í gangi í bænum. Óeðlilega þétt nýbylgjurokk með frontmanni sem söng með undarlegri falsettu súrrealíska texta um hraðbanka og hænur. Hverjir einustu tónleikar voru upplifun, þurr húmor Steingríms söngvara og útpældur hávaðinn gerði það þó að verkum að Ókind var ekki allra. En ef það hafði nokkurn tíman verið ástæða til þess að hlaupa út í bílskúr að semja lög og prófa nýja effekta á rafmagnsgítarinn, þá var það núna, til þess að geta rokkað jafn hart og Ókind. Mig grunar að án þess að þeir viti það hafi Ókind haft gríðarlega mikil áhrif á tónlistarsköpun á Seltjarnarnesi, en á undanförnum árum hafa þar fæðst þónokkrar áhugaverðar hljómsveitir s.s. Ultra Mega Teknóbandið Stefán, Bertel og Útidúr.

Það eru rétt tæp fjögur ár frá því að Ókind lagði upp laupana, eins og gefur að skilja, mörgum til sárra vonbrigða. Þá höfðu þeir gefið út tvær plötur, Heimsendi 18 (árið 2003) og Hvar Í Hvergilandi (2006). Síðari platan fékk m.a. 5 stjörnur í Morgunblaðinu og var kölluð “óstöðvandi vatsnfall tónlistarlegrar nautnahyggju” í Reykjavík Grapevine. Dómur Rjómans var líka einstaklega jákvæður og platan valin sjötta besta íslenska platan árið 2006.

Nú getum við loksins tekið gleði okkar á ný enda hefur Ókind boðað endurkomu sína þann 4.september á Faktorý. Það verður frítt inn á þennan stórviðburð, svo það er um að gera að gera að setja stóran rauðan hring utan um dagsetninguna á dagatalinu. Vonandi munum við svo fá eitthvað meira úr endurkomu Ókindarinnar heldur en sundurtætta líkama og almennan ótta meðal sjósundmanna.

Ókind – Þoturass

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Leave a Reply