• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Joanna Newsom – Have One On Me

Einkunn: 5,0
Útgáfuár: 2010
Útgáfa: Drag City

Hversu oft sagði ég einhverja plötu þá bestu sem ég hafði heyrt? Hversu margir tónlistarmenn snertu mig á einhvern djúpstæðan hátt eða töluðu til mín? Á unglingsárunum var það næstum því daglegur viðburður. Hver nýr hljómur gat sagt eitthvað nýtt, að hlusta á útvarpið var bæði fræðandi og fullnægjandi.

Þegar maður eldist þá heyrir maður æ sjaldnar tónlist sem snertir mann á sama hátt og þegar maður var yngri. Er maður búinn að deyfa tilfinningarnar með ofgnótt af músík, eins og eiturlyfjafíkill sem þarf ávallt stærri skammt til þess að komast í sitt ,,eðlilega ástand”, eða verður maður bara sjálfkrafa raunsærri, veraldarvanari og tortryggnari með árunum? Það er þó einstaka sinnum sem maður finnur þessar æskutilfinningar aftur. Maður fellur gjörsamlega fyrir listamanni; hann getur ekki brugðist manni, allt sem hann gerir er stórkostlegt. Þetta eru þeir einstaklingar sem réttlæta þá óheyrilegu tíma og peningaeyðslu sem fer í þessa fíkn.

Einn af örfáum nútímatónlistarmönnum sem vekur upp slíka geðshræringu hjá mér er bandaríski tónsmiðurinn, hörpuleik- og söngkonan Joanna Newsom. Já, það er rétt. Ég ætla að slást í hóp með lofkórnum; óteljandi tónlistargagnrýnendum víðsvegar um heim sem missa alla mögulega líkamsvessa í hvert skipti sem þessi unga Kaliforníumær hefur upp raust sína.

Joanna, ljós lífs míns, eldur mjaðma minna. Synd mín og sál. Jo-ann-a.

Það er hvorki af einhverjum tónfræðilegum pervertisma né indíhipster-popúlisma sem ég heillast af músíkinni (vona ég). Það er eitthvað himneskt sem gerist þegar ég hlusta á hana. Ég veit ekki hvað það er sem snertir mig. Ég skil ekki tónlistina og fatta ekki textana, en fegurðin skín úr hverri nótu og hverju atkvæði. Það er eins og ég komist í snertingu við hið háleita, göfuga, himneska, sem svo margir vitrir menn hafa talað um.

Ég veit ekki hvernig ég ætti mögulega að útskýra það fyrir einhverjum sem ekki hefur upplifað slíkt. Þess vegna ætla ég einungis að segja frá nýjustu plötu Joönnu Newsom í tiltölulega jarðbundnu, ódramatísku en vonandi upplýsandi máli.

Frumraun Newsom, The Milk-Eyed Mender [2005] var fersk og gáskafull. Hljómurinn var nýr. Undarleg rödd, sem marraði eins og ískrandi hjólin á sjúkrabörum, söng kímna texta með gamaldags sögumennskuaðferðum og undir lék harpa í anda keltneskra þjóðlaga. Ys [2007] var hinsvegar dramatísk fantasía, epísk þemaplata og rómantískt endurreisnarverk. Báður þessar skífur voru stórkostlegar á sinn hátt (sú síðari reyndar líklega sú magnaðasta sem komið hefur út eftir aldamótin). Hins vegar mætti segja að Have One On Me, sem kom út í febrúar á þessu ári, sé bæði þroskaðri og afslappaðri en fyrri plöturnar (ekki að það þurfi endilega að vera eitthvað betra).

Platan er þrekvirki: þrefaldur 18 laga pakki, rétt rúmir tveir tímar af tónlist. Slíkt magn er erfitt að innbyrða í einni yfirferð, en sem betur fer er þess ekki krafist af manni. Það er varla hægt að gera upp á milli platnanna þriggja, það er enginn sérstakur eðlismunur á þeim og hver hefur sína hápunkta. Hver þeirra gæti staðið ein og sér sem sterk breiðskífa.

Þó að platan virðist í fyrstu bara vera samansafn sjálfstæðra laga, er greinilegt að ákveðnir þræðir ganga í gegnum alla plötuna (ást að sjálfsögðu), og mann byrjar að gruna að mögulega sé hún einstaklega vel ofinn vefur, og einhversstaðar sé falin merking líkt þrívíddarmynd sem falin er í mynstrinu. Eins og það sé hægt að hlusta á plötuna og njóta hennar á svo mörgum stigum, fletirnir sem hægt sé að einblína á séu óteljandi. Kannski er það ekki vísvitandi, heldur sýnir hvert lag okkur bara lítinn hluta af persónu Newsom og eins og bútasaumur safnast þau saman í eina mynd.

Það er greinilegt að röddin í Joönnu hefur breyst. Hið einkennandi ískur í háu nótunum er næstum því alveg fjarverandi. Hún þurfti að breyta söngstílnum sínum eftir að hafa misst röddina í nokkra mánuði árið 2009 vegna hnúða í raddböndunum. Hnúðana hafði hún fengið vegna þessarar óvenjulegu notkunar á röddinni. Það er þó ekki svo að skilja að þetta komi niður á söngnum, röddin hljómar á einhvern hátt ekki jafn unggæðingslega undarleg en fullorðnari og vitrari.

I may have changed. It’s hard to gauge.
Time won’t account for how I’ve aged

Á Have One On Me þróar Newsom hljóðheim sinn enn frekar með ýmsum nýjungum. Hinar yfirdrifnu útsetningar sem einkenndu síðustu plötu hafa verið dempaðar og fjölbreytni í hljóðfæravali er meira. Ryan Francesconi er helsti hjálparkokkur Joönnu á plötunni og gæðir útsetningarnar lífi með austur-evrópskum strengja og blásturshljóðfærum, rafmagnsgítar og fleiru. Í sumum lögum fær harpan jafnvel frí, t.d. í einum óvæntasta smell plötunnar;  “The Good Intentions Paving Company”, en þar minnir Joanna mig einna helst á sveitasöngkonur eins og Dolly Parton.

Sum lögin gætu virst stefnulaus, óljósar línur milli parta í lögunum og melódíurnar einkennilega fljótandi. En eins og að líða niður fljót með mikilfenglega náttúru á báðar hliðar þarf maður að geta gleymt sér og flotið með. Ekki vitað hvað bíður framundan, aðeins notið stöðugs en óreiðikennds niðarins. Joanna Newsom er einna helst þekkt fyrir sín flóknu og löngu tónverk, en þrátt fyrir það kann hún enn þá list að halda hlutunum einföldum. Eitt besta lag plötunnar að mínu mati er hið einnar og hálfrar mínútu langa “On a Bad Day”.

Formið á textum Joönnu er frjálsara heldur en flestra annarra söngvaskálda, meiri áhersla er á fallegan hljóm orða og setninga heldur en hina dæmigerðu áherslu á réttan atkvæðafjölda og endarím. Hún er menntuð í bókmenntafræði og mörgum þykir hún kannski tilgerðarleg, með langsóttar líkingar og miðaldaorðalag, en það passar svo fullkomlega við tónlistina. Fallegustu ljóðin eru því oft þau sem eru óræðust og óskiljanlegust, maður hættir að velta merkingu orðanna fyrir sér, merkingunni sem er kannski bara aukaatriði.

Not informed of the natural law
squatting, lordly, on a stool, in a stall
we spun gold clear out of straw
and when our bullion were stored
you burned me like a barn
I burned safe and warm in your arms.

Textarnir eru flestir listilega málaðar og ævintýralegar orðamyndir.

The phantom of love
moves among us at will.
Each phantom-limb lost
has got an angel
(So confused
Like the wagging bobbed-tail of a bulldog).
Kindness, kindness prevails.

en fjalla þó um tilfinningar sem flestir þekkja.

I was tired of being drunk
my face cracked like a joke
so I swung through here
like a brace of jackrabbits,

with their necks all broke
I stumbled through the door with my boot.
I knocked against the jamb.
I scrabbled at your chest, like a mute,
with my fists of ham,
trying to tell you
that I am telling you, I can –
I can love you again

Platan fær 5 stjörnur frá mér af því að hún er enn ein sönnun þess að Joanna Newsom er einhver stórkostlegasti lagasmiður dagsins í dag, lög, textar og útsetningar eru eins og best verður á kosið.

Að nefna einstök lög er næstum því tilgangslaust, uppáhaldið er venjulega það lag sem maður er að hlusta á hverju sinni. En skyldunnar vegna get ég t.d. nefnt ’81, In California, Esme og Kingfisher sem nokkur af eftirminnilegustu augnablikum plötunnar. Have One On Me er búin að sitja föst í spilaranum mínum (með smá hléum) í hálft ár og mun án efa vera tíður gestur þar næstu árin, áratugina og vonandi eitthvað lengur. Eða eins og Joanna segir sjálf:

All these songs,
when you and I are long gone,
will carry on.
Mud in your eye

Joanna Newsom – ’81

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Joanna Newsom – Kingfisher

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.


1 Athugasemd

  1. Hildur Maral · 22/08/2010

    Þetta er stórskemmtileg lesning 🙂

Leave a Reply