• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

For a Minor Reflection – Höldum í átt að óreiðu

Einkunn: 3,5
Útgáfuár: 2010
Útgáfa: Sjálfútgefið

Höldum í átt að óreiðu er önnur plata For a Minor Reflection en áður hafði sveitin gefið út plötuna Reistu þig við, sólin er komin á loft… sem kom út 2007. Inniheldur platan tíu frumsamin lög sem tekin voru upp í Sundlauginni í Mosfellsbæ haustið 2009. Var upptökustjórn var í höndum Scott Hackwith en hann hefur unnið með ekki ómerkari listamönnum en The Ramones og Iggy Pop.

Höldum í átt að óreiðu er fáguð plata og er hljómur FaMR á henni afar tær og hreinn. Venjulega þættu slík ummæli vera til vitnis um ótvírætt ágæti viðeigandi plötu en í þessu tilfelli finnst mér þau ekki endilega af hinu góða. Ég sakna nefnilega dálítið kraftsins sem FaMR ná að magna upp á tónleikum, þegar þeir reisa í kringum sig sinn órjúfanlegan og stórkostlega hljóðvegg, og finnst hann líða fyrir fágun og tæran hljóm. Það vantar einhvernveginn meiri skít og meiri drullu. Að tjúna græjurnar í botn og gera allt vitlaust.

Kannski er þetta bara ný stefna hjá sveitinni? Einhverskonar málamiðlun til þess að laða að breiðari hóp hlustenda?

For a Minor Reflection – A Moll

En hverju sem því líður þá tekur þessi vöntun á krafti í hljómnum á plötunni ekkert frá sjálfum tónsmíðunum en þær eru jú það sem allt snýst um, ekki satt? Á Höldum í átt að óreiðu sýna meðlimir FaMR okkur og sanna, svo ekki verði um villst, að þeir eru mjög hæfir lagasmiðir sem ná, með draumkenndum og áleitnum og jafnvel ljúfsárum melódíum, að fanga nánast allan tilfinningaskalann. Og það án þess að segja né syngja eitt einasta orð. Lögin eru mjög myndræn og er hvert lag er eins og lítill stuttmynd þar sem sögð er saga sem hlustandinn býr til í huga sér.

For a Minor Reflection – Dansi Dans

Það er erfitt að velja eitt lag umfram annað þó óneitanlega standi tvö lög örlítið uppúr. Það eru smellurinn “Dansi Dans”, sem hlotið hefur hvað mesta útvarpsspilun, enda afar grípandi lag, og hið magnaða og epíska  “Sjáumst í Virginíu” en það er nánast korter á lengd. Fyrir utan þessi tvö lög, sem vissulega falla vel að heildarsvip plötunnar, rennur hún nokkuð ljúflega í gegn. Það myndast ákveðið munstur í uppbyggingu sumra laganna, sem byrja hægt en vinna sig svo upp í kraftmikinn lokakafla, en með lögum eins “Fjara”, “Tómarúm” og “Átta” tekst  liðsmönnum FaMR tekt að gera nægilega sterkar undantekningar til þess að ekki myndist einhæf regla.

Höldum í átt að óreiðu er góð plata og einmitt vel þess virði að eignast einmitt nú, því tónlistin er sem sniðin til áheyrnar á dimmu haustkvöldi þegar maður kúrir sig upp í sófa með teppi, heitann bolla og góða bók.

Egill er ritstjóri Rjómans, vefhönnuður, bloggari, faðir, hundaeigandi og tónlistar- og fótboltaunnandi. Egill hefur m.a. setið í dómnefnd Kraums Tónlistarsjóðs, fagráði Airwaves og verið álitsgjafi um ýmislegt tengt tónlist og tengdum málefnum.

1 Athugasemd

  1. For a Minor Reflection – Europe and UK tour | My great WordPress blog · 01/06/2014

    […] Þið getið skoðað nánar um tónleikana hér og lesið Rjómadóminn fyrir plötuna hér. […]

Leave a Reply