Hring eftir hring

Glasser er kona einsömul. Hún heitir réttu nafni Cameron Mesirow, er frá Boston upprunalega en býr nú og starfar í listaparadísinni Brooklyn. Hún hefur hitað upp fyrir hljómsveitir á borð við The XX og einnig fyrir Jónsa á tónleikaferðalagi hans fyrir plötuna Go. Mesirow hóf ferilinn eins og margur í hinum og þessum hljómsveitum en fljótlega fór hún að gefa eigin rödd meiri gaum og viljinn til að skapa tónlist á eigin forsendum styrktist. Sjálfstæðisyfirlýsing hennar byrjaði með fikti í tónlistarforritinu GarageBand og þær tilraunir urðu síðar hennar fyrsta EP plata, Apply.

Það er óljúft að setja stimpil á nokkurn listamann en tónlist Glasser má kannski laumast til að skipa í flokk dulræns rafpopps í sínum breiðasta skilningi og setja hana á stall með söngkonum á borð við Florence and the Machine og Ellie Goulding. Tónlist Glasser er þó ívíð lágstemmdari og innrænni og allt að því seiðandi líkt og söngur sírenunnar en sjálf segist söngkonan vera undir áhrifum frá Joni Mitchell.

Nýjasta plata Glasser kom út 28. september síðastliðinn og ber heitið Ring. Músíkin er fljótandi fögur og allt að því lífræn á köflum en lög plötunnar voru samin með það að markmiði að hægt yrði að nálgast plötuna sem eina samhangandi heild þar sem hlustandinn flýtur í gegnum lögin hvert á fætur öðru án þess að gjá myndist milli laga plötunnar. Lögin ferðast þannig í nokkurs konar hring eins og titillinn vísar í. Fyrirbærið er þekkt í ljóðagerð og klassískri skáldsagnahefð og kallast á frummálinu chiastic uppbygging. Hvert lag hefur því sinn sjálfstæða vilja og líf innan plötunnar svo að segja en saman mynda þau eitthvað miklu stærra. Eitt samtvinnað verk, líkt og sinfóníu, en Glasser hefur einmitt verið kölluð “eins kvenmanns sinfóníuhljómsveit”.

Fyrsta smáskífulagið af Ring kallast “Home” og ekki annað hægt en að hvetja fólk til að hlusta vel og vandlega, gleyma sér um stund og fljóta niður frumskógarstrauminn hring eftir hring.

Glasser – Home

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.