S.H. Draumur snýr aftur, spjallað við Gunnar Hjálmarsson

Uppstillir fyrir Viku-viðtal við Jóa Motorhead rétt eftir að Biggi byrjaði í bandinu 1986
Það hefur vafalaust ekki farið framhjá neinum að hin goðsagnakennda hljómsveit S.H. Draumur snýr aftur núna um miðjan mánuðinn og leikur þá á Iceland Airwaves. Í dag kemur út rafrænt spikfeitur pakki með efni sveitarinnar undir heitinu Goð+ og svo dettur kassinn í verslanir þann 13. þessa mánaðar. Rjóminn hafði samband við forsprakka sveitarinnar, Gunnar Hjálmarsson, og rakti úr honum garnirnar. Aukinheldur fljóta hér með nokkur tóndæmi, ásamt athugasemdum doktorsins.

Ég er forvitinn að vita, þótt ég hafi lesið eitthvað um það á vefsíðu þinni áður, hvað er í boxinu? Bútaðir Leggir? Hvaðan eru tónleikaupptökurnar? Er búið að laga sándið á áður útgefnu efni mikið? Mér finnst nefninlega ljómandi fínt sánd á “Allt heila klabbið”, er það lagað meira en þar?

Pakkinn heitir Goð+. Þetta eru tveir diskar í “kassa” og rosa bæklingur með öllum textunum og sögu hljómsveitarinnar, eins og ég man hana, fylgir. Á diski 1 er Goð platan. Á hinni eru öll lögin af EP-plötunum þremur sem við gerðum (samtals 10 lög) og svo 14 lög í viðbót, bæði upptökur af æfingum og frá tónleikum. Eitthvað smá af því kom á Bútaðir leggir, sem var kassetta í takmörkuðu upplagi.

Mér fannst ömurlegt sánd á Allt heila klabbið, enda var ekkert unnið í sándinu þar heldur dótið bara keyrt inn á digital format. Nú var að sjálfssögðu forðast að búa til eitthvað ömurlegt cd-súputeninga-sánd, heldur bara nútíma tækni beytt til að ná sem allra bestu sándi út úr þessum gömlu teipum. Ég tókst alveg frábærlega að mínu mati. Ég er gríðarlega ánægður og hreinlega bara stoltur með þennan pakka!

Hvar er Steini gítarleikari búinn að vera öll þessi ár?

Um það leyti sem EP platan Bless kom út þá hafði hann misst  alla rokklöngun og hellti sér út í klassík. Hann lærði í Rvk, fór síðan til Bergen í Noregi í framhaldsnám. Hann ílengdist þar og eignaðist samtals 4 börn. Svo fluttu þau heim, bjuggu fyrst í Hafnarfirði, en nú býr Steini á Egilsstöðum og er skólastjóri Tónlistarskólans þar.

Að spila fyrir 2000 manns í Astoria, London

Þegar ég pæli í því þá veit ég líka voðalega lítið hvað Biggi hefur verið að gera, þó man ég eftir honum að spila með Heiðu og Heiðingjunum.

Biggi fór í Sálina hans Jóns míns og spilaði með þeim inn á allar bestu plöturnar þeirra. Hann hefur svo bara lifað af tónlist og trommuleik. Hann spilar með ýmsum, t.d. Röggu Gröndal um þessar mundir. Hann býr á Akranesi og kennir í tónlistarskólanum. Hann hefur komið mikið við sögu í minni sögu, var náttúrlega í Bless, spilaði svo með Unun, inn á Abbababb! plötuna, sem hann hafði líka mikil áhrif á tónlistalega, spilaði með mér í Abbababb! sýningunni og tók upp og trommaði sólóplötuna mína, Inniheldur, sem ég gaf út 2008.

Eru einhver plön um að endurútgefa Bless efni síðar meir? Meltingu? Það er eins og mig minni þú hafir verið lítið hrifinn af Gums eins og hún kom út, og hún hefði að ósekju mátt vera t.d. hrárri, og sungin á íslensku. Einhverjar pælingar með að endurgera það?

Jú ætli það komi ekki einn daginn líka. Gums er til á tonlist.is. Mér finnst Melting (7 laga EP plata) alveg fín en er ekki nógu hrifinn af Gums. Fyrir það fyrsta er hún sungin á ensku sem er alveg ömurlegt. Fáránlegur framburður og rugl. Það var dáldið verið að reyna að poppa okkur upp í stúdíóinu, en það var svo sem ok. Verst var að við vorum píndir til að spila eftir “klikk-trakki”, sem geldi spilamennskuna mikið og hamlaði almennilegum fílingi.  Svo voru textarnir bara eitthvað ástarvæl í mér og Ari Eldon bassaleikari hefur oft grínast með það að þessi plata hefði átt að heita “Hildur – The Album”.

Á síðustu tónleikum bandsins, að hita upp fyrir Pere Ubu í Tunglinu 1988.

Hlýðum þessu næst á nokkur tóndæmi af Goð+ og athugum hvað Gunnar hefur að segja um lögin. Fyrst ber að kynna til sögunnar “Glæpur gegn ríkinu” sem er með bestu lögum Draumsins að mati undirritaðs:

S.H. Draumur – Glæpur gegn ríkinu

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ég man nú bara ekkert hvernig þetta lag varð til. Það kom allavega til sögunnar skömmu eftir að Biggi trommari gekk í bandið (maí 1986) svo hann á eflaust eitthvað í því með þessum magnaða trommuleik. Riffið er augljóslega útúrsnúningur á Smoke on the water, ég veit ekki alveg hvaða flipp það var. Á öllum mínum uppvaxtarárum þótti þungarokk mjög hallærislegt og enn þann dag í dag hef ég engan húmor fyrir þungarokki. Textinn er svo náttúrlega alveg frábær og einn af mínum uppáhalds. Algjört verksmiðjuþunglyndis- og samfélags-haturs stuð með smá súrrealísku ívafi. Ég var mikill aðdáandi súrrealístanna í Medúsu hópnum og það síaðist alltaf smá inn í textagerðina. Við tókum þetta fyrst upp um vorið 1987 i Stúdíó Stöðinni með Axel Einarssyni, sem hafði áður verið í m.a. hljómsveitinni Icecross. Eina plata þeirra selst nú á einhverja hundrað þúsund kalla enda gott og fágætt doom-rokk. Hann sagði auðvitað að við minntum sig á Icecross. Þessi útgáfan er af plötunni Goð, tekið upp í ág/sept í stúdíó Gný með Sigurði Inga Ásgeirssyni, sem var bara einhver maður út í bæ sem fylgdi stúdíóinu. Hann stóð sig vel, en það runnu reyndar á mig tvær grímur í upphafi upptaknanna þegar hann setti Brothers in Arms með Dire Straits á fóninn til að fá sándlegt viðmið. Ég held ég hafi m.a.s. sagt að við hljómuðum nú ekkert líkt og Dire Straits! Það var alltaf sérlega gaman að spila Glæp gegn ríkinu á tónleikum.

S.H. Draumur – Engin ævintýri

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þetta lag er líka á Goð. Ég man ekki heldur hvernig þetta lag varð til, það getur samt verið að það sé undir smá áhrifum af laginu These Boots are made for Walkin’ sem Nancy Sinatra söng. Byrjunin er stæling á byrjuninni á laginu Ævintýri með Bjögga og félögum í Ævintýri, bara negatífan af henni. Biggi og ég sömdum textann saman í herberginu mínu að Álfhólsvegi 30a, eða svo segir hann allavega, ekki man ég það. Hann segir að við höfum samið sitt hvora línuna í þessu, en ekki man ég eftir því. Textinn er náttúrlega undir miklum áhrifum af snilldarmyndinni Skytturnar, sem var ný þegar textinn varð til. Við fylgjumst með ferðum undirmálsmanns í landi og inn í textann blandast andfélagslegt svartagall: “Svona líða árin hjá manninum á móti / Svona líða árin hjá helvítis þjóðinni”. Ég átti mjög andfélagslega vini og var gríðarlega andfélagslegur og neikvæður á þessum árum eins og má sjá í gömlum viðtölum. Ég man alltaf eftir því að einn vinur minn óskaði þess heitast að flugvélin með Icy hópnum myndi hrapa á leiðinni út svo hann væri laus við þjóðrembuna sem gekk á á þessum tíma! Nú í kreppunni eru eiginlega allir orðnir andfélagslegir og and-þjóðrembdir, svo ég þarf eiginlega að vera þveröfugt ef ég á að halda í þá góðu dyggð að vera alltaf á annarri skoðun en meirihlutinn.

S.H. Draumur – Dýr á braut

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þetta er mjög flott lag en eins og oft áður þá man ég bara ekki hvernig það varð til. Þetta var allavega eitt af allra síðustu lögunum sem við sömdum, það varð til eftir að Goð var tekin upp og kom út á 4-laga EP-plötunni Bless 1988. Við vorum búnir að ákveða að hætta, aðallega vegna þess að Steini gítarleikari var ekki í rokkstuði lengur, kominn með konu, son og á leið í stíft klassískt gítarnám. Textinn er ýkt dýraverndunar-sinnaður, hér er verið að berjast fyrir réttindum dýra sem eru send út í geim til tilraunaverkefna. Á þessum tíma stóð yfir mikið stapp um hvalveiðar í fjölmiðlum og þetta var okkar lóð á vogarskálinar þeirrar umræðu. Ég held samt að enginn berjist í alvörunni fyrir réttindum geimdýra.  Sigurjón Kjartansson í Ham og Sveinn bróðir hans tóku upp Bless-plötuna og þetta var best sándandi platan okkar. Upptökur fóru fram í Sýrlandi, sem þá var til húsa í bílskúrnum hjá Agli Ólafssyni á Grettisgötu, minnir mig.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.