Allt á uppleið hjá The Way Down

Flestir lesendur Rjómans muna eflaust eftir hinum knáa bassaleikara Ara Eldon, sem gerði fyrst garðinn frægan í Sogblettum, og síðar með Gunnari Hjálmarssyni í Bless. Síðar skaut hann einnig upp kollinum í mjög svo skemmtilegri hljómsveit sem hét Rut+, en sú sveit byrjaði feril sinn sem einhverskonar harðkjarna pönksveit í anda Jesus Lizard og söðlaði svo um og fór að spila brimbrettarokk a la Dick Dale.

Núna heldur Ari úti sveitinni The Way Down ásamt konu sinni Riinu Finnsdóttur og Orra Einarssyni trommuleikara. Á föstudaginn kom út önnur skífa sveitarinnar, Icelandic Democracy, og er hún fyrst um sinn einungis fáanleg á gogoyoko.com. Rjóminn kíkti í te til Ara:

Þetta er önnur platan okkar, sú fyrsta, See You In Hell kom út 2007. Nafnið Icelandic Democracy var upphaflega einkabrandari til að reka sjálfan mig áfram við gerð plötunnar; tilvísun í 15 ára vinnsluferli Chinese Democracy hjá Guns‘n‘Roses. Icelandic Democracy varð svo á endanum ofaná sem titill plötunnar, getur vísar jafnt í ástandið í kringum okkur og innan bandsins, eða bara verið merkingarlaus einkabrandari, allt eftir smekk. Semsagt einhverskonar öfugmæli, íslenskt lýðræði er ekki til, er það nokkuð?

Þau byrjuðu að taka plötuna upp í janúar, á mjög stuttum tíma en með löngum hléum. Ókjör af gestaleikurum eru á plötunni, Sigrún úr Kolrössu, Pétur úr Pornopop, Gísli Bacon-liði og fleiri og fleiri. Einnig spila á plötunni bróðir Ara, Þór Eldon sykurmoli, og Danny Pollock en þeir kumpánar sáu einnig um upptökur og mix og Aron Arnarsson masteraði.

Þessi gestaleikaramergð er kannski það sem setur mestan svip á plötuna, við gerðum engar kröfur til þeirra aðrar en að mæta og spila, svo þeir ná að lita lögin hver á sinn hátt, sem ég er ánægður með. Þetta gerði gerð plötunnar líka skemmtilega fyrir vikið, meira svona partý andrúmsloft frekar en að við værum bara ein að vesenast í þessu, sem skiptir mig máli, það þarf alltaf að vera partý ef ég á að nenna þessu.

Áhrifavaldar sem Ari nefnir til sögunnar eru aðallega 60’s og 70’s low-fi rokk og pönk.

… ég er kannski minnst fær um að meta frá hverjum ég er að stela þá og þá stundina. Ég er samt ekki með neitt eitt band sem fyrirmynd og er að vona að við náum að skapa okkar eigin stíl smátt og smátt.

Tvö tóndæmi fylgja hér með, og umsögn Ara um lögin:

The Way Down – Heart over Soul

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.


Fyrir 20 árum gaf bróðir minn mér tvær Ramones plötur í afmælisgjöf, It‘s Alive og þá fyrstu samnefndu. Ég hafði fram að því sniðgengið Ramones samkvæmt minni meginreglu sem var að hlusta aldrei á síðhærðar hljómsveitir, ágæt regla sem ég lagði þó af eftir að hafa þarna frelsast til Ramones-trúar, held því enn fram að It‘s Alive sé ein albesta rokkplata allra tíma og Ramones eitt albesta band í sögunni.

Lagið “I love her so” með Ramones er svo kveikjan að “Heart Over Soul”, ég misheyrði textann hjá Ramones þannig í fyrstu og varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum þegar ég áttaði mig á því að lagið hét ekki “Heart Over Soul” eftir allt saman, fannst það mun betra viðlag og sá fullt af meiningum í þeim frasa. Það er svo ekki fyrr en núna sem ég loksins kom mér í að gera þetta lag, semsagt tuttugu ára sköpunarferli hér á ferð og eins gott að þetta sé sæmilegt lag.

The Way Down – Leee Black Childers

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Leee er ljósmyndari sem var áberandi í New York senunni í kringum 1970, og er reyndar enn. Hann var alltaf ofursvalur og poppaði upp á ótrúlegustu stöðum, tók mikið af myndum af David Bowie og var um tíma umboðsmaður hans, til dæmis. Mér fannst hann alltaf áhugaverður og vel klæddur gaur (sjá hér, annar frá vinstri) og einhvern veginn æxlaðist það svo að fyrsta lagið með The Way Down varð óður til hans.

Ég klikkaði hins vegar á að tékka á því hvort hann væri enn á lífi og fékk svona nett áfall þegar ég sá að hann skrifaði eitthvað um lagið á netinu. Ég setti mig í samband við hann til að fyrirbyggja einhvern misskilning og úr varð að hann bauð okkur að spila í New York á afmælinu hans, sem er nokkuð massífur viðburður og við gerðum það í ágúst 2008, spiluðum á fernum tónleikum í NY og hittum meistarann. Það var virkilega fínt og ógleymanlegt afmælið þar sem fullt af krumpuðum NY rokkhundum mættu að fagna með honum.

Myndir úr afmælinu má sjá hér | The Way Down á Facebook | Platan Icelandic Democracy á Gogoyoko | “I love her so” með Ramones á Youtube

Rjóminn þakkar Ara fyrir spjallið, og óskar The Way Down alls hins besta í framtíðinni. Þess má svo einnig geta að bandið spilar í Dauða Galleríinu kl 18.00 á laugardaginn kemur! Það mun vera á laugavegi 29, fyrir þá sem eru ekki svo hipp að vita það nú þegar.

2 responses to “Allt á uppleið hjá The Way Down”

  1. Nanna says:

    kannski ágætt að benda á TWD hjá CCBB,
    eða Ching Ching Bling Bling, sjá hér:
    http://chingchingblingbling.com/

  2. Bedda says:

    Vó svöl NY ferð!!!!, ég vissi ekki af þessu, skemmtileg saga og gaman að skoða myndirnar 😀

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.