S.H. Draumur – Goð+

Einkunn: 5+
Útgáfuár: 2010
Útgáfa:
Kimi

Hljómsveitin S.H. Draumur hefur nú komið saman aftur 22 árum eftir að hún lagði upp laupana og spilar á Airwaves hátíðinni í ár. Tilefnið er útkoma Goð+ sem eins og nafnið gefur til kynna inniheldur plötuna Goð frá árinu 1987 auk valins aukaefnis á tveimur geislaplötum, þ.e. stuttskífurnar Bensín skrímslið skríður (1985), Drap mann með skóflu EP (1987) og Bless (1988) og óútgefin demó og tónleikaupptökur. Árið 1993 kom út safndiskurinn Allt heila klabbið sem seldist fljótlega upp en útgáfan nú er mun veglegri, bæði eru hljómgæðin bætt svo um munar og aukalögin eru mun fleiri. Útgáfan nú er því þörf, tímabær og vel þegin.

S.H. Draumur – Glæpur gegn ríkinu (af Goð, 1987)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Fyrri diskurinn inniheldur Goð sjálfa, sem hefst með upphafslínunum “mér stendur á sama…” og setur tóninn fyrir plötuna þar sem pönkandi, unglingauppreisn og angist svífur yfir vötnum. Goð er ein af þessum fágætu plötum sem virðast fullkomnar; fjölbreytt en þó heilsteypt – útpæld en þó áreynslulaus. Textarnir eru hnyttnir og skemmtilegir og smella frábærlega við tónlistina. Þeir vekja upp myndræna stemningu og eru hver eins og lítil saga – það er ekki vart hægt að hlusta á lögin án þess að sjá samstundis fyrir sér leðurklæddan mótorhjólakappa á ferð yfir auðnina (Helmút á mótorhjóli), hræsnandi hippa (Sýrubælið brennur), einmana fullann sjómann (Engin ævintýri) eða ungling frjósandi í hel eftir misheppnaðan flótta af heimavistinni (Öxnardalsheiði).

S.H. Draumur – Öxnadalsheiði (af Goð, 1987)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Hinar plötur S.H. Draums standa Goð lítt að baki, þó hún sé klárlega sveitarinnar þéttasta og fullkomnasta verk. Þær hafa hver um sig sín einkenni, Bensín skrímslið skríður er hrárri, Drap mann með skóflu er pönkaðri og Bless er fínpússaðri en fyrri verk, vísbending um hvað hefði getað orðið ef sveitin hefði haldið áfram (hluti meðlima hélt reyndar áfram undir nafninu Bless en áherslur og hljómur breyttist nokkuð með nafninu nýja).

Aukaefnið í G0ð+ pakkanum er veglegt. Meginuppistaðan eru demóupptökur frá árunum 1982-1984 og má á þeim heyra þróun sveitarinnar frá stofnun og að útgáfu Bensín skrímslið skríður. Heyra má hvernig sveitin færði sig hægt og bítandi úr kröftugu hrápönki yfir á þróaðri nýbylgjulendur og má vel ímynda sér sveitarmeðlimi sitja og pæla í Birthday Party og skyldum sveitum milli æfinga (lagið “Gunni kóngur” minnir mig a.m.k. ögn á “Nick The Stripper”). Einnig fylgja nokkrar tónleikaupptökur frá seinni hluta ferlisins og stendur “Nótt eins og þessi” klárlega upp úr, en lagið hefur sérstakan tónleikasjarma sem ef til vill hefði týnst í hljóðversupptöku. Vert er að geta að ef pakkinn er verslaður á heimasíðu Havarí fylgir með stafrænt niðurhal af plötunni Goð++ sem inniheldur 14 óútgefin lög til viðbótar! Gaman hefði verið að heyra einnig demó og læf upptökur af þeim lögum sem rötuðu á opinberar útgáfu sveitarinnar – en það verður líklega að bíða um sinn (hint hint fyrir næstu endurútgáfu).

Ég hef átt langt samband við þessa S.H. Draum – allt frá því að ég keypti Allt heila klabbið á útsölu í Takti fyrir meira en 15 árum síðan, hafandi rétt heyrt eitt eða tvö lög með sveitinni. Ég féll gjörsamlega fyrir tónlistinni og bjargaði hljómsveitin mér frá leiðindum í löngu kennaraverkfalli. Útgáfa Goð+ er því eins og heimsókn frá gömlum vini, sem nú hefur ekki eingungis fengið vel heppnaða yfirhalningu heldur einnig elst alveg einstaklega vel.

S.H. Draumur – Dýr á braut (af Bless, 1988)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Goð er líklega eitt vanmetnasta meistaraverk íslenskrar tónlistarsögu, sem að hluta til má kenna því um hversu lengi hún og annað efni sveitarinnar hefur verið ófáanlegt. Plötur S.H. Draums voru sjálfútgefnar og í litlum upplögum enda var sveitin kyrfilega staðsett utangarðs og neðanjarðar þegar hún starfaði, en er þó klárlega meðal bestu hljómsveita sem störfuðu hér á landi á 9. áratugnum – og jafnvel þó víða væri leitað í tíma og rúmi. Það hefur því verið fámennur en tryggur hlustendahópur sem haldið hefur minningu hljómsveitarinnar í heiðri, á meðan flestir þekkja hana rétt af afspurn eða hreint alls ekki. En þessi endurútgáfa núna ætti að vekja nýjar kynslóðir til vitundar um þessa frábæru tónlist og skipa sveitina á þann stall í íslenskri tónlistarsögu sem hún á skilið – sem ein besta rokksveit sem landið okkar hefur af sér alið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.