Airwaves dagbók Kristjáns : Laugardagur

Þegar ég leit á Airwaves-dagskrána mína seinnipart Laugardags sá ég, mér til mikillar skelfingar, að ég hafði gert hring utan um öll böndin (eða svona um það bil). Nú varð ég að ákveða hvort ég ætti að nota kvöldið í að ,,hlaupa og sjá,” eða bara ,,vera og njóta.” Þrúgaður af valkvíða ákvað ég að njóta á nettu skokki.

Ég var mjög spenntur að sjá hina glænýju íslensku sveit Just Another Snake Cult, enda sökker fyrir lo-fi indípoppi og sumarfíling. Bandið var ekkert sérstaklega þétt og lögin mjög misjöfn. Grípandi melódíur náðu nokkrum sinnum að troða sér í gegn, og þá sáust greinilega möguleikarnir sem búa í bandinu. Dúettalögin, þar sem hljóðgervlastelpan söng með, virkuðu líka einstaklega vel.

Eftir þessu fínu byrjun var stefnan sett á jj frá svíþjóð. Ég var alveg nokkuð spenntur að sjá hvernig þau myndu framkvæma tónleikana, þar sem músíkin er einhver blanda af raftónlist og órafmögnuðum hljóðfærum. Söngkonan steig fyrst ein á svið og söng hið ágæta lag ,,Are You Still in Vallda?” Þetta leit út fyrir að verða ágætir tónleikar. En nei. Eftir að hún tók af sér gítarinn og hinn hluti dúetsins kom inn á gerðist nákvæmlega ekkert. Það kom fljótt í ljós að bæði voru þau gjörsamlega snauð af öllu sem kalla má sviðsþokka, hún söng ágætlega og lögin hljómuðu vel, en það er líka erfitt að klúðra hlutunum þegar allt er fyrirfram upptekið. Gæjinn var eitthvað að reyna að glamra á gítar, en það heyrðist ekkert í honum. Það skipti svo sem engu máli þar sem hann virtist hafa meiri áhuga á myndböndunum sem spiluðust á veggnum bakvið hann, myndböndum sem voru annaðhvort af honum sjálfum fáklæddum á strönd, eða þá video-montage af sænsku fótboltahetjunni Zlatan Ibrahimovic. Semsagt andlausasta og leiðinlegasta tónleikaframkoma ársins.

Næsta hálftímann eða svo var ég að fara á milli staða, en það var alveg sama hvar ég steig fætinum inn, það var alltaf einhver hljómsveit nýbúin að klára settið sitt. Á endanum plantaði ég mér á Sódóma, fékk mér bjór og fékk að súpa á brennivíni sem einkar fær trommari hafði smyglað inn í sultukrukku. Ég ætlaði bara að sjá byrjunina á Crocodiles, áður en ég myndi hoppa yfir á Risið og sjá það band sem ég var spenntastur fyrir Timber Timbre.

Crocodiles létu bíða allsvakalega eftir sér og í samtali við trommarann góða gleymdi ég alveg tímanum. Það var ekki fyrr en eftir þónokkur töffaraleg en ekkert sérstök hávaðapopplög sem ég náði áttum. Ég hljóp yfir og sá tvö goth-fólklög með Taylor Kirk og félögum í TT. Staðurinn var langt frá því að vera pakkaður, þó að gólfið hafi verið þétt setið fremst. Andrúmsloftið sem hljómsveitin nær að byggja upp með gítar, fiðlu, slæd-gítar, lykkjupedölum, bassatrommu og feitum skammti af endurómi (en. reverb) var drungalegt og dáleiðandi, og fögnuðu áheyrendur ákafar en á nokkrum öðrum tónleikum hátíðarinnar að hverju lagi loknu. Bömmer.

Ég fór aftur á Sódóma og sá The Antlers spila sitt ágæta indírokk. Eins við samlöndunga þeirra, sem allir virðast elska, Grizzly Bear, skil ég bara ekki alveg hvað er svona heillandi. Og eins og þegar ég sá Grizzly Bear spila, þá skemmti ég mér bara ágætlega, en bara ekkert meira en það. Vegna seinkunarinnar á Sódómu gerði ég ráð fyrir að vera búinn að missa af Ghostdigital, svo ég fór yfir á NASA. Retro Stefsson voru að spila og að venju voru þau fáránlega þétt. Ég gæti lagt mig fram við að vera sálarlaus, bitur og kynsveltur gagnrýnandi og fundið eitthvað smáatriði til að hrauna yfir, en það væri ákaflega erfitt.

Það er mér núna alveg óskiljanlegt af hverju ég dreif mig ekki á XXX Rottweiler eða Últra Mega Teknóbandið Stefán (sem höfðu einmitt verið að kvarta yfir því fyrr um kvöldið að þeir hefðu ekki fengið umfjöllun um Airwaves-tónleika síðustu þrjú árin vegna þess að gagnrýnendurnir væru alltaf annaðhvort orðnir fullir eða farnir heim í háttinn þegar loks kæmi að UMTBS). Ég kíkti örlítið á Apótekið þar sem gagnrýnandi Grapevine slagaði um og upplýsti fólk um að hann vissi ekkert um raftónlist. Þar sem ég var ekki í diskógírnum ákvað ég að kveðja og halda út í nóttina.

Timber Timbre – Magic Arrow

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.