Markús & The Diversion Sessions – Now I Know

Einkunn: 2
Útgáfuár: 2010
Útgáfa: Brak

ATH. Hinn eiginlegi plötudómur hefst fyrir neðan strik.

Einkunnagjöf sökkar – bæði í skólum og plötudómum.

En þó að ég sé mótfallinn þeirri ofuráherslu sem lögð er á skalamat í skólum, skil ég gildi þess, og þó að einkunn segi sjaldnast mikið um raunverulega færni, segir hún margt innan ákveðins kerfis. Sigga gat reiknað margföldunardæmi á prófi og kann því að reikna samsvarandi margföldunardæmi (nema auðvitað að hún hafi giskað á rétt svar eða kíkt á blaðið hjá næsta manni). Einkunnin hefur upplýsingagildi vegna þess að matsatriðið er tiltölulega hlutlægt.

En þegar við komum að algjörlega huglægum dómum, eins og listgagnrýni, vandast málin.

Einkunn á skalanum núll til fimm, sem einhver gæji út í bæ gefur listaverki, er merkingarlaus. Hún hefur kannski skemmtanagildi, en lítið sem ekkert upplýsingagildi, hún segir okkur ekkert um verkið sjálft. Hún segir okkur meira að segja ekki, ólíkt því sem flestir halda, mikið um álit gagnrýnisins á plötunni.

Plötugagnrýnandinn stendur nefnilega frammi fyrir tveimur kostum; annaðhvort að meta plötuna í algildu samhengi, þ.e. hann metur plötuna út frá allri þeirri tónlist sem hann hefur heyrt áður og staðsetur hana innan síns matskerfis. ,,Ég fíla plötuna betur en nýju Coldplay-plötuna en ekki jafn mikið og fyrstu NEU!-plötuna, þar af leiðandi fær hún 4 í einkunn.” Það þarf varla að fjölyrða um ófullkomleika slíkra dóma því þeir eru algjörlega einstaklingsbundnir. Mörgum finnst Coldplay platan snilld og NEU! vera einhæft drasl, hvernig eiga þeir að geta tekið mark á mér?

Hinn póllinn sem gagnrýnandi getur tekið (og það er sá sem ég tek yfirleitt) er að meta plötuna aðeins út frá innri aðstæðum. Matið byggist þá á því hvort að platan uppfylli þau markmið sem hún setur sjálfri sér. Þegar einhver ákveður að gera alvarlega klassíska tónlist en spilar hana illa og tilfinningalaust stendur hún ekki undir stöðlunum sem hún setur sjálfri sér. Hins vegar hefur góð spilamennska lítið vægi ef þú ert að meta plötu með No-Wave bandi. Plata sem er langt yfir meðallagi í gæðum platna getur því fengið lélega einkunn, og öfugt. En það er líka hægt að leggja mat á markmiðið. Það er ósköp auðvelt að ákveða að gera lélega og leiðinlega plötu. En ef það er enginn listrænn ásetningur á bakvið markmiðið, er það einfaldlega vont markmið og á skilið einkunn eftir því. Þó að það væri fáránlegt að segja að slíkir dómar væru hlutlægir, eða giltu fyrir alla (því að sjálfsögðu velta þeir bara á einni manneskju, gagnrýnandanum), þá finnst mér þeir örlítið nær því, vegna þess að þeir velta ekki á annarri tónlist.

Kannski segir þetta sig allt sjálft, en mér fannst alveg við hæfi að rifja þetta upp fyrir sjálfum mér og ykkur. Sérstaklega þar sem gagnrýnendur fá (nánast) aldrei tækifæri til að útskýra einkunnagjöfina sína, vegna þeirra takmarkana sem þeim eru settar í blöðum og útvarpi.

Og nú ætla ég að tala um plötuna.

Now I Know er fyrsta plata tónlistarmannsins Markúsar Bjarnasonar, undir nafninu Markús & The Diversion Sessions. Áður hefur Markús m.a. Spilað með síð-rokksveitinni Sofandi og sungið í skrýtirokkbandinu Skátar. Bæði þessi bönd voru stórkostleg og Markús átti stóran þátt í aðdráttarafli hljómsveitanna.

Sóló-tónlist Markúsar er frumstæð kassagítartónlist, að mestu tekin upp á fjögurra rása upptökutæki og ekkert fitlað við hljóðritin. Þar sem útsetningarnar eru engar og hljómurinn á ekki að vera góður færist öll vigtin á flutning, lög og texta. Það er skemmst frá því að segja að ég er mikill aðdáandi slíkrar tónlistar og það voru því ekki litlar væntingar sem ég lagði á herðar Markúsi og dægrastyttingar hans þegar ég tróð brakandi nýjum disknum í gömlu Pioneer-græjurnar mínar og ýtti á play takkann.

Fyrsta lagið ,,Stay” byrjar á kassagítar og söng. Inn kemur skítugur en minimalískur tölvutaktur og passar frábærlega inn í lagið. Textinn er á ensku, ómerkilegur en nógu óræður til að maður geti blokkað hann út og einbeitt sér að frábærri melódíunni og gítarnum.

Mjög góð byrjun á plötunni. Snilldin heldur áfram í laginu ,,Now I Know”, en þar skín sterkur persónuleiki raddar Markúsar í gegn. Lagið flýtur ljúflega sína leið og nær hápunkti undir lokin, þegar gítarinn stoppar og melódían fer á óvænt flug í sing-a-longinu.

,,Yes it is safe to say I already miss you, but what I miss more is the man I was before I met you and I should have told you much sooner than today”

Ég finn mig knúinn til að hlusta ítrekað á lokakaflann og syngja með.

Svo kemur óvænt, alveg hundleiðinlegt lag. Tilbreytingarlaus gítar spilar undir leiðinlegri hálf-vælandi melódíu syngjandi orð sem hljóma eins og merkingarlaust væl. Beint eftir þetta auðgleymalega lag bisst Markús assökunar.

,,É bisst assökunar” er textalega langbesta lag plötunnar, Megasarlegt og hresst. Lagið er sorgarsaga ógæfumanns sem er búinn að brenna allar brýr að baki sér.

,,Ég tek það allt aftur sem ég sagði við þig
æ ég sagði það bara af því að það var sagt við mig
og ég tek það allt aftur, ég skal meirað segja bæta þér þetta upp,
og ég skal gera allt, allt, allt nema vaska upp”

Þrjú síðustu lögin hljóma svo eiginlega bara eins og lagahugmyndir. Það er hálf sárt að Markús ætli ekki að gera eitthvað meira út lögunum, af því að þarna er flottir hlutir í gangi, bara ekki nógu kláraðir.

,,Orð og Morð” virðist vera spuni út frá einum hljómagangi. ,,Kung fú Ást” er hins vegar byggt á mjög góðri textahugmynd og flottri melódíu, en það verður aldrei neitt úr því. Línurnar eru bara endurteknar og svo er ,,úúúúúú”-að í hálfa mínútu. Þó að lokalagið ,,Blessed”, sé mun lengra en hin lögin virkar það líka óklárað. Kannski krefst lagið bara fleiri hljóðfæraleika, enda er nánast engin dýnamík í flutningnum.

Ég er alls ekki á móti þeirri hugmynd að gefa út hálfunnin lög, en hvernig maður metur slíkt fer eftir þeim formerkjunum sem lagahugmyndirnar eru gefnar út undir. Democrazy plata Damons Albarns var t.d. gott dæmi um það hvernig ókláraðar lagahugmyndir geta verið góð heimild um lagasamningarferlið og hugarheim tónlistarmannsins. En Now I Know gefur sig ekki út fyrir að vera slík heimild, heldur heildstætt verk.

Lágstemmdar kassagítarplötur velta algjörlega á styrk laga og texta og því ómögulegt að trassa annaðhvort eða bæði, það verður alltaf plötunni til lasts, sama hversu lo-fi platan á að vera.

Á Now I Know standa 3 lög af 7 undir væntingum og þar sem skalinn nær upp í fimm lítur einkunnarreikningurinn minn svona út (3 / 7) x 5 = 2,142857 og það námundum við samkvæmt kúnstarinnar reglum niður í 2.

Tónlist Markúsar hefur alla burði til þess að vera frábær, en af einhverjum ástæðum ákvað hann ekki að fara alla leið með hana. Einkunnagjöfin er því ekki hraun heldur spark í rassinn. Ég vona að hann haldi áfram að hlýða blessun sinni og byrði; að syngja lög og færa heiminum gleði. Bara aðeins betur.

Markús & The Diversion Sessions – Now I Know

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Markús & The Diversion Sessions – Orð og Morð

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

p.s. umslagið er flott.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.