• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Ensími sendir frá sér sína fjórðu plötu

  • Birt: 26/10/2010
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Hljómsveitin Ensími gefur út langþráða fjórðu plötu sína eftir átta ára bið þann 10. nóvember n.k. Platan, sem hlotið hefur nafnið Gæludýr, verður fáanleg á Tónlist.is frá og með 4. nóvember. Sveitin hefur unnið að plötunni í Sundlauginni undanfarna mánuði með hléum og var grunnur laganna hljóðritaður lifandi í stúdíóinu. Lögin tíu sem prýða plötuna eru öll sungin á íslensku.

Ensími lá lengi vel í dvala eftir útgáfu þriðju plötu sveitarinnar, sem er samnefnd sveitinni og kom út árið 2002. Ýmsar ástæður hindruðu framgang Ensími á sjónarsviðinu, til að mynda nám liðsmanna erlendis, mannabreytingar og annir liðsmanna í öðrum tónlistarverkefnum. Á þessu tímabili tók sveitin sig þó til og hljóðritaði um 20 lög fyrir útgáfu en á endanum var ákveðið að byrja upp á nýtt til að viðhalda ferskleika á upptökum sem skilar sér svo sannarlega á nýju plötunni.

Þó að Ensími hafi lítið látið á sér bera undanfarin ár hefur hún haldið vinsældum sínum, en það sannaðist þegar hún steig á stokk í júní á síðasta ári og flutti fyrstu plötu sína, Kafbátamúsík, í heild sinni fyrir troðfullu húsi Nasa. Í kjölfarið hefur sveitin leikið á nokkrum vel völdum tónleikum og nú síðast á Iceland Airwaves hátíðinni og hlotið mikið lof fyrir. Ensími mun fylgja Gæludýr(um) eftir af krafti á komandi vikum og mánuðum.

Fyrsta lagið sem heyrist af plötunni Gæludýr heitir “Aldanna ró” og er það farið að heyrast á öllum betri útvarpsstöðvum landsins.

Ensími – Aldanna ró

Leave a Reply