Ensími sendir frá sér sína fjórðu plötu

Hljómsveitin Ensími gefur út langþráða fjórðu plötu sína eftir átta ára bið þann 10. nóvember n.k. Platan, sem hlotið hefur nafnið Gæludýr, verður fáanleg á Tónlist.is frá og með 4. nóvember. Sveitin hefur unnið að plötunni í Sundlauginni undanfarna mánuði með hléum og var grunnur laganna hljóðritaður lifandi í stúdíóinu. Lögin tíu sem prýða plötuna eru öll sungin á íslensku.

Ensími lá lengi vel í dvala eftir útgáfu þriðju plötu sveitarinnar, sem er samnefnd sveitinni og kom út árið 2002. Ýmsar ástæður hindruðu framgang Ensími á sjónarsviðinu, til að mynda nám liðsmanna erlendis, mannabreytingar og annir liðsmanna í öðrum tónlistarverkefnum. Á þessu tímabili tók sveitin sig þó til og hljóðritaði um 20 lög fyrir útgáfu en á endanum var ákveðið að byrja upp á nýtt til að viðhalda ferskleika á upptökum sem skilar sér svo sannarlega á nýju plötunni.

Þó að Ensími hafi lítið látið á sér bera undanfarin ár hefur hún haldið vinsældum sínum, en það sannaðist þegar hún steig á stokk í júní á síðasta ári og flutti fyrstu plötu sína, Kafbátamúsík, í heild sinni fyrir troðfullu húsi Nasa. Í kjölfarið hefur sveitin leikið á nokkrum vel völdum tónleikum og nú síðast á Iceland Airwaves hátíðinni og hlotið mikið lof fyrir. Ensími mun fylgja Gæludýr(um) eftir af krafti á komandi vikum og mánuðum.

Fyrsta lagið sem heyrist af plötunni Gæludýr heitir “Aldanna ró” og er það farið að heyrast á öllum betri útvarpsstöðvum landsins.

Ensími – Aldanna ró

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.