Band of Horses – Infinite Arms

Hljómsveit: Band of Horses
Plata:
Infinite Arms
Útgefandi:
Fat Possum, Columbia & Brown Records (2010)

Þriðja plata Band of Horses leit dagsins ljós í maí á þessu ári en lögin Compliments og Factory hafa fengið ágæta spilun á öldum ljósvakans hér á landi allt frá útgáfu.
Platan, sem ber heitið Infinite Arms ber fram ágætis blöndu af því sem aðdáendur sveitarinnar þekkja frá fyrri verkum hennar en þó er hér eitthvað ferskt og spennandi að finna um leið. Vælukennd og tregafull rödd Ben Bridwell leiðir þétt, beislandi og grípandi sveitaskotið indie-rokk sveitarinnar á kaflaskiptri, ljúfri og sterkri plötu. Harmoníur þeirra Ben Bridwell og Ryan Monroe eru sem fyrr í forgrunni lagasmíða en Monroe leikur þó stærra hlutverk á plötunni en á fyrri plötum. Lög á borð við Older einkennast af hlutverkaskiptum Monroe og Bridwell og er Monroe þar í aðalhlutverki. Fer þá Bridwell mikinn í að gera viðlag lagsins afar grípandi. Getur undirritaður viðurkennt fúslega að hafa haft viðlag lagsins á heilanum frá því að sveitin lék það á frábærum tónleikum Hróarskeldu 2008.
Ljúft þykir mér einnig að hugsa til þess að lagið skuli hafa lifað af upptökuferlið.

Band of Horses – Older

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Infinite Arms er í sjálfri sér ekki frumlegasta plata sem fyrirfinnst á tónlistarmarkaðinum í dag en hún hefur þó þá fjölbreytni sem góðar hljómplötur verða að stæra sig af til að lifa af. Platan er einnig sú fyrsta sem hljómsveitin vinnur án faðmlags Sub Pop plötufyrirtækisins og má með sönnu segja að sveitin hafi fengið frjálsari hendur en áður í ferlinu. Meðlimir hafa komið og farið en hljómsveitin gefur nú út undir merkjum Fat Possum, Columbia og Brown Records (sem Ben Bridwell á þátt í).

Einn sterkasti þáttur tónlistar Band of Horses finnst mér vera rólegri kanturinn. Sveitin kann alveg að halda uppi stuði en ég vil meina að þeirra áhrifamesti þáttur séu rólegri lögin. Lög á borð við For Annabelle, Evening Kitchen og titillag plötunnar, Infinite Arms eru að mínu mati með öflugri lögum plötunnar. Sömuleiðis sem On My Way Back Home kveikir ófáa neista. Það er einfaldlega eitthvað við þessar raddir þeirra Bridwell og Monroe sem upphefja mann í alsælu.

Band of Horses – On My Way Back Home

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Hljómsveitin styður sig við hið örugga í flestum lögum sínum og hverfur sjaldan frá klassískri orgíu gítars, bassa, hljómborðs og slagverka en það gengur samt upp. Hér er ekki reynt við eitthvað nýtt, heldur haldið fast í það sem virkar. Sem er bara hið ágætasta. Það sem er þá helsta breytingin frá Cease To Begin er fráhvarf Bridwell frá alvaldi. Meðlimir sveitarinnar eru meira sameinaðir en áður og í kjölfarið; ferskari og fjölbreyttari.
Hér hefur sveitin aftur gert plötu sem flestir unnendur þessarar stefnu ættu að digga. Plötu sem laðar nýtt fólk sömuleiðis að með grípandi smáskífum og leyndum demöntum þegar nánar er ígrundað. Passar sveitin sig að missa sig ekki út í eitt né annað og rokkar sig upp og niður. Hlustandi grúvar, dillir sér, hoppar, brosir og jafnvel tárast.

Fínt combo, ekki satt? Það finnst mér allavegana.

Einkunn: 4

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.