Jónas Sigurðsson & Ritvélar framtíðarinnar – Allt er eitthvað

Einkunn: 4,0
Útgáfuár: 2010
Útgáfa: Cod Music

Jónas Sigurðsson er þrælmerkilegur músíkant fyrir margar sakir. Fyrir það fyrsta mætti nefna að hann samdi vinsælasta lag gítargutlara Íslands fyrir einhverjum rúmum áratugi: “Rangur maður”. Þar að auki skilst mér að um árabil hafi hann verið einn frambærilegasti trommari landsins. Og svo náði hann að heilla gagnrýnendur upp úr skónum með sinni fyrstu sólóskífu árið 2007, Þar sem malbikið svífur mun ég dansa. Platan kom eins og þruma úr heiðskíru lofti með sinn þétta, útpælda og þroskaða hljóm. Á dögunum kom út nýjasta afurð Jónasar, Allt er eitthvað, á vegum Cod Music. Á plötunni er hann studdur af einvala liði hljóðfæraleikara sem kemur saman undir nafninu Ritvélar framtíðarinnar.

Jónas skiptir Allt er eitthvað í tvo hluta og aðgreinir þá með þremur stuttum lögum sem eru leikin án texta. Platan hefst á “Framtíðin er hin nýja fortíð”, einfalt en aðlaðandi intró sem leiðir hlustanda inn í fyrri part plötunnar. “Konstantinus Spectrum” er staðsett undir miðju og tengir saman fyrri og seinni hluta. Þetta er dísætt og melódískt stef, svolítið í anda 8-bita tölvuleikjatónlistar. Jónas lokar svo seinni hlutanum með “Konstantinus finale” – sem er í raun nafni “Spectrum” í nýjum búningi. Í bæklingnum má finna einhverskonar texta sem tilheyra þessum lögum: þetta er tölvu- og forritunarmál sem vísar þannig óbeint í dagvinnu Jónasar sem tölvunarfræðings. Oft þykja mér intró, outró og hvað þetta nú heitir allt saman fremur leiðingjörn hugmynd sem virkar eins og uppfyllingarefni. En á þessari plötu heppnast það. Tilgangur laganna er skýr: að hjálpa hlustandanum að ferðast á milli hlutanna tveggja – hefja ferðalagið, færa sig áleiðis – og ljúka því.

Þannig er “Skuldaólin” óeiginlegt opnunarlag plötunnar og setur tóninn fyrir part númer eitt: taktfast og svolítið pólitískt popp-rokk, skreytt með blásturshljóðfærum og rafdútli. Þessi fyrri hluti er keyrður á kraftinum og hrynjandinni. Textarnir tjá oft reiði, biturð og stundum vonleysi. “Hleypið mér út úr þessu partýi” er einnig glöggt dæmi um áðurnefnd atriði – bara í öðruveldi. Á köflum minnir músíkin svolítið á það sem Nick Cave hefur verið að bauka undanfarið: töffararokk með dassi af soul og gospeli. Veikasta blett plötunnar er þó að finna á þessum fyrri hluta hennar en það er þegar Jónas býður okkur á “Diskótek djöfulsins”. Lagið virkar fremur kraftlaus og dauft á mig – sérstaklega þar sem því er stillt upp á milli þessara tveggja laga.

Jónas Sigurðsson & Ritvélar framtíðarinnar – Allt er eitthvað

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Á meðan fyrri hluti plötunnar er keyrður áfram á kraftinum þá er seinni hlutinn á rólegri nótum. Jónas fær fyrir vikið meira svigrúm til að leyfa melódíum að springa út og lögunum að byggjast upp í rólegheitum. Það fer Jónasi ekkert verr að vera svolítið afslappaður og rólegur því nokkur af sterkustu lögum plötunnar eru einmitt í þessum síðarnefnda hóp.

Á seinni hluta plötunnar er að finna tvö ættjarðarlög. Það fyrr er hið dulúðlega “Eiðavatn”. Þar spila orgvélar og bassi aðalhlutverk framan af en í seinni hlutanum taka svo blásturshljóðfærin við. Það verður seint sagt að lagið sé melódískt en það nær að framkalla fram kyrrð og ókyrrð á þessum sex mínútum sem það varir. Svolítið eins og landið okkar kannski? “Rokið” er svo hinn ættjarðarsöngurinn. Ólíkt rokinu sjálfu er þetta stillt og ljúft lag sem hægt og rólega byggist upp. Kvenmannsraddir styðja við söng Jónasar og útkoman er virkilega flott. Það er langt síðan ég hef hlustað á ættjarðaróð án þess að fá kjánahroll. Smekklega gert.

Þorri laganna krefst þess að maður gefi þeim smá tíma. Það er nefnilega ekki fyrr en eftir nokkrar hlustanir sem þau springa út í allri sinni dýrð. Þó eru nokkur lög sem eru þrælgrípandi. Mætti þar kannski helst nefna þau lög sem hafa hvað mest verið spiluð í útvarpinu: “Hamingjan er hér” og “Allt er eitthvað”. Bæði státa þau af eitursvalri hrynjandi og flottum viðlögum. Einnig mætti nefna “Þessi endalausi vegur endar vel”. Lagið er í skemmtilegum, léttfönkuðum búningi sem er vandlega prýddur grípandi melódíum.

Jónas Sigurðsson & Ritvélar framtíðarinnar – Hamingjan er hér

Hvað textasmíðar Jónasar varða þá eru þær ekki til að draga plötuna niður. Á köflum eru textarnir beinskeyttir og fullir gagnrýni, á köflum óræðir og ljóðræðnir. Hann talar á samfélagslegum nótum sem og persónulegum og vinnur þannig hlustandann á sitt band – maður vill heyra hvað hann hefur að segja. Sumir þeirra eru glettnir og skemmtilegir en aðrir angistafullir og einlægir.

Allt er eitthvað er ofboðslega vönduð og metnaðarfull plata – og það skín svo sannarlega í gegn. Jónas hefur greinilega nostrað við hana lengi og fyrir vikið er hún stútfull af fíngerðum smáatriðum og skrauti sem gera góðar lagasmíðar betri. Hljóðfæraleikur er óaðfinnanlegur og útsetningarnar á lögunum til fyrirmyndar. Eins og ég sagði áður, þá krefst platan smá tíma en í staðinn verðlaunar hún mann rækilega fyrir þolinmæðina. Allt er eitthvað er góð plata, raunar virkilega góð. Það er eitthvað.

One response to “Jónas Sigurðsson & Ritvélar framtíðarinnar – Allt er eitthvað”

  1. Þessi dómur krefst smá tíma en í staðinn verðlaunar hann mann rækilega fyrir þolinmæðina. Þetta er mjög skemmtilegur, vel rökstuddur og raunar virkilega góður dómur. Það er eitthvað.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.