Ensími – Gæludýr

Einkunn: 4,0
Útgáfa: Record Records

Það er afar áhugavert að renna þessari fjórðu breiðskífu Ensími í gegn í fyrsta skipti. Það eru óteljandi tilfinningar sem grípa mann tengdar tónlistinni og sveiflast maður á milli þeirra eins og í stórsjó á meðan á flutningi stendur.

Í fyrstu finnst manni sem Ensími hafi einfaldlega tekið upp þráðinn þaðan sem frá var horfið fyrir um átta árum síðan (þegar síðasta plata sveitarinnar kom út) og lítið gert nema skerpa eilítið á tónsmíðunum og uppfæra hljóminn aðeins. En áður en sú hugsun nær að koma sér þægilega fyrir í huga manns tekur tónlistin nýja stefnu og hugmyndinni er kollvarpað algerlega. Þá fer maður, eins og gerist, að reyna að skilgreina það sem til eyrna berst og leita jafnvel að samlíkingum einhversstaðar í tónlistarflórunni. “Örlar á smá Sigur Rós þarna inn á milli?” hugsar maður og sperrir eyrun. “Er þetta eitthvað Diktu-legt?” spyr maður sig líka. Auðvitað kemst maður heldur ekki hjá því að hugsa hvort þátttaka hljómsveitarmeðlima í öðrum tónlistarverkefnum hafi haft áhrif á lagasmíðina og mögulega smitað út frá sér?

Með ítrekaðri hlustun hætti ég þó jafnt og þétt að velta fyrir mér mögulegum samlíkingum, áhrifavöldum eða stefnu- og straumlegum smitberum hverskonar og ákvað að leyfa tónlistinni að sýna sitt rétta andlit ef svo má að orði komast. Ensími er nefnilega nokkuð einstök sveit enda er engin tilviljun að hún eigi einn dyggasta aðdáendahóp landins (og það án þess að hafa gefið út plötu í heil átta ár!). Það er eitthvað svo þægilega viðkunnanlegt og upphefjandi við tónlist þeirra án þess að hún nái beint að grípa mann. Svona eins og þægileg nærvera gamals kunningja. Tónlistin er tímalaus, hvorki gömul né ný. Hún bara er þarna og fær viðurkenningu manns nánast umsvifalaust án þess að gera sérstaka kröfu til þess.

Gæludýr er afar góð plata, fáguð og stílhrein en laus við tilgerð og óþarfa rembing. Hún rennur nokkuð ljúflega og átakalaust í gegn og krefst kannski ekki nógu mikils af hlustandanum. Það má þó varla teljast henni það til vansa og ef eitthvað er bætir skemmtanagildið upp fyrir slíka vankanta. Það er vel hægt að “detta inn í” þessa plötu enda upptökustjórn og hljóðblöndun (sem var í höndum Sundlaugarvarðarins Birgis Jóns Birgissonar) slík að nóg er af allskonar smáatriðum til að pæla í. Það má reyndar deila um hvort sándið sé hreinlega svona gott eða það sé  “over produced”. Sé hinsvegar litið til þess að Ensími hafa alltaf verið með mjög “pródúseraðann” hljóm verður það eiginlega að teljast smekksatriði hvað fólki finnst og legg ég því ekki dóm á það hér.

Gæludýr er gripur til að eignast. Hún er eins og gamall kunningi sem þú hefur ekki séð í mörg ár og tekur fagnandi þegar þú hittir hann.

One response to “Ensími – Gæludýr”

  1. […] las dóm um plötuna á Rjómanum þar sem gagnrýnandi var að velta upp þeim spurningum hvort sum lögin hljómuðu […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.