Avey Tare – Down There

Einkunn: 3.5
Útgáfurár: 2010
Label: Paw Tracks

Nafnið Avey Tare hringir eflaust bjöllum hjá aðdáendum Animal Collective, en kappinn er einmitt einkennisrödd bandsins ásamt félaga sínum Panda Bear. Avey, eða Dave eins og foreldrar hans nefndu hann, hefur þó ekki verið jafn iðinn við að koma nafni sínu á framfæri sem sólólistamaður líkt og félagi hans Noah (þ.e. Panda Bear). Árið 2007 gaf hann út hina stórskrýtnu Pullhair Rubeye ásamt þáverandi eiginkonu sinni, hinni íslensku Kríu Brekkan. Einnig hefur hann starfað með meðlimum Black Dice í óhljóðaverkefni sem kallast Terrestrial Tones. Down There er því fyrsta eiginlega sólóskífa kappans en hún kom út á dögunum á vegum Paw Tracks. Þess má til gamans geta að Deakin, annar meðlimur Animal Collective, kemur svolítið við sögu Down There en hann sá um pródúktsjón á plötunni.

Það er margt á seyði hér sem minnir óneitanlega á Animal Collective. Það er kannski ekki að undra þar ½ bandsins leggur hönd á plóg. Helst væri að nefna síðustu breiðskífu hljómsveitarinnar, Merriweather Post Pavillion, í þessu samhengi. Hljóðheimurinn er alfarið rafrænn og lítið fer fyrir fólk og indírokk áhrifum eins og á síðustu plötum bandsins. Það er þó ekki eins og Avey Tare sé að fylgja eftir einhverri formúlu. Platan er mun dimmari og drungalegri en nokkuð sem hefur heyrst frá Animal Collective. Andrúmsloft skífunnar er þrúgandi, fyrirferðamikið og Avey gefur sér nægt svigrúm til að byggja upp þessa óhugnanlegu stemningu sína.

Avey Tare hefur sýnt það og sannað að hann hefur eyra fyrir melódíum. Nokkur lög Down There birta þennan hæfileika glöggt. Fyrsta lag plötunnar, “Laughing Hieroglyphic”, er gott dæmi um þetta. Yfir snilldarlega taktsmíði og dáleiðandi orgvél leggur Avey grípandi sönglínur, melódískt elektróskraut og nær að seyða fram eitthvað albesta lag þessa árs. “3 Umbrellas” er annað dæmi um þetta: lagið er vissulega svolítið mínimalískara en engu að síður sneisafullt af litlum stefum sem síast hægt og rólega inn í heilabúið.

Avey Tare – Laughing Hieroglyphic

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Það verður þó að segjast eins og er: Down There er fremur tormelt og á köflum hreinlega erfið plata. Það liggur beint við að horfa á hana sem ferðalag um hljóðheim frekar en sérviskulega poppsmíði. Avey Tare dregur hlustandann með sér í leiðslu þar sem fagrir hljóðskúlptúrar og litlar melódíur rekast á myrka syntha og drungaleg tónhryðjuverk. Hann gefur sér líka nægan tíma í að byggja upp þess rafmögnuðu leiðslu, stundum heilu lögin, og því er freistandi að horfa á plötuna sem eina heild fremur en safn laga. Platan fellur þó aldrei í þá gryfju að verða eingöngu bakgrunnstónlist: Avey nær alltaf að kalla á athygli hlustandans með einhverjum brögðum.

Ég var svolítið hræddur um að Avey Tare myndi týna sér í tilraunagleði, samanber Pullhair Rubeye og fyrstu skífur Animal Collective. Svo er þó ekki raunin, enda er Avey eflaust orðinn það reyndur og fær tónlistarmaður að hann veit hvað gengur upp og hvað ekki. Helst er hann að leika sér með hugmyndir um söng og röddun – oft og tíðum með krassandi útkomu. Sem dæmi mætti nefna lagið “Heads Hammock” þar sem söngurinn er leiddur í gegnum sækadellíska effektasúpu og verður að hljóðfæri frekar en eiginlegri sönglínu.

Lagasmíðarnar eru flestar fremur spunakenndar og óhefðbundnar en það gengur upp fyrir tilstilli hljóðheimsins sem er hér skapaður. Hljómur plötunnar er nefnilega algjörlega tímalaus. Það eru engar óþarfa vísanir í eitthvað 80’s eða 90’s og fyrir vikið verður hljómurinn svolítið ‘ekta’. Hann vitnar ekkert utan fyrir sig og er snilldarlega heilsteyptur. Í því liggur raunar frumleiki og styrkur plötunnar.

Frumraun Avey Tare er alls ekki það besta sem heyrst hefur frá kappanum, en skrambi gott þó! Þeir sem hafa áhuga á raftónlist sem keyrir ekki á töktum og lúppum ættu að geta fundið eitthvað fyrir sinn snúð á Down There. Hljóðheimur plötunnar er heillandi og nýtur sín best í heyrnartólum. Platan verður sennilega seint sett á fóninn í gleðskap góðra vina. Hinsvegar er hún alveg tilvalin til að sökkva sér í þegar maður er einn í félagsskap Sennheiser og hefur smá tíma til aflögu.

Avey Tare – Lucky 1 (tónlistarmyndband)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.