Úlfur Eldjárn gefur út sína fyrstu sólóplötu

Field Recordings: Music from the Ether er fyrsta sólóplata Úlfs Eldjárn í fullri lengd. Hann hefur áður samið talsvert fyrir svið og sjónvarp, en hann gerði m.a. tónlistina við sjónvarpsþættina Hlemmavídeó sem eru sýndir um þessar mundir á Stöð tvö. Áður hefur Úlfur gefið út tónlist með hinum ýmsum hljómsveitum, m.a. Orgelkvartettinum Apparat sem gaf út sína aðra plötu á dögunum, Pólýfóníu.

Tónlistin var hljóðrituð á árunum 2008 til 2010 og er sjálfstætt afsprengi af samstarfsverkefni nokkurra norskra og íslenskra listamanna, en hópurinn setti upp leiksýninguna Eterinn (Þjóðleikhúsinu 2009), myndlistarsýninguna Innan seilingar (Kling & Bang 2009) og gaf að lokum út bókverkið Manifestations (2010).

Í plötunni gerir Úlfur tilraunir með vélræna hljóðgjafa frá ýmsum tímum og notast m.a. við miðaldahljóðfærið sinfón, kirkjuorgel, tölvustýrt trommuvélmenni og vélsöngvara (vocaloid). Honum til aðstoðar eru Örn Magnússon sem lék á sinfón, Sighvatur Ómar Kristinsson sem sá um raddforritun og Páll Einarsson sem hannaði og smíðaði trommuvélbúnað. Hljóðblöndun var í höndum Axels “Flex” Árnasonar og hönnun umslags eftir Dóru Ísleifsdóttur.

Field Recordings kemur í verslanir í dag, föstudaginn 17. desember, en einnig er hægt að hlusta á plötuna og kaupa á gogoyoko.com

Tónlistin er einnig fáanleg sem hluti af bókverkinu Manifestations (bók + CD + DVD) sem fæst í hönnunarplássinu Spark við Klapparstíg. Meiri upplýsingar um Manifestations verkefnið er að finna á www.manifestations.no

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.