• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Lög ársins – Hildur

Ég er sammála Guðmundi í færslu hér að neðan þar sem hann segir að ómögulegt sé að taka saman bestu lög ársins 2010. Því er listinn hér að neðan mín upplifun á árinu 2010, lögin sem stóðu upp úr fyrir mér persónulega. Reyndar náði ég ekki að hlusta á eins margar plötur og ég hefði viljað á árinu, enda heilmargt gott sem kom út. En þetta hlustaði ég á, og alveg grimmt, og vona að þið njótið!

Uppáhalds lögin mín árið 2010 – Íslenskt:

10. Nóra – Apóteles

‘Er einhver að hlusta?’ með hljómsveitinni Nóru er tvímælalaust sú íslenska plata sem kom mér hvað mest á óvart árið 2010. Skemmtilegt og grípandi popp með sterkum karaktereinkennum eftir vel spilandi hljómsveit sem syngur á íslensku. „Apóteles“ hefur á sér ungæðislegan brag og póstrokklega uppbyggingu sem skilar sér í kraftmiklum hápunkti þar sem allt er keyrt í botn.

9. Reykjavík! – Cats

Kettir Reykjavíkur eru snilld. Lagið „Cats“ með Reykjavík! líka…

8. Dansi Dans – For a Minor Reflection

„Dansi Dans“ er óíkt því sem hefur áður komið úr smiðju FaMR, enda kalla þeir lagið ‘poppsmellinn’ sinn. Myndbandið var tekið á Hellnum fyrir Inspired by Iceland herferðina.

7. Sjónarspil – Rökkurró

Ef „Dansi Dans“ er poppsmellur FaMR er „Sjónarspil“ rokkballaða Rökkurróar. Fallegur texti, sunginn á íslensku, áður ókunnur kraftur í söng Hildar söngkonu og töfrandi lag sem hægt er að hlusta á aftur og aftur. Hef séð hljómsveitina spila það órafmagnað og er það hvergi síðra í þeirri útsetningu.

6. Draugar – Miri

Fallega kaflaskipt lag af frábærum frumburði Miri. Örvar í múm á góðan gestasprett í laginu.

5. Surrender – Ólöf Arnalds & Björk

Töfrandi dúett frá drottningu og prinsessu íslensku tónlistarsenunnar. Björk er auðvitað bara í aukahlutverki en kryddar þó lagið svo um munar.

4. Translations – Agent Fresco

Ég man þegar ég sá Agent Fresco spila í fyrsta sinn, á Músíktilraunum árið 2008  – sem þeir svo unnu. Þá þegar voru lögin og spilamennskan svo kraftmikil að það þurfti engan sérfræðing til að sjá hvað gæti orðið úr sveitinni. Tveimur og hálfu ári, meðlimabreytingu og EP plötu síðar sendu þeir svo frá sér plötuna ‘A Long Time Listening’ og „Translations“ er hinn fullkomni kandidat af þeirri plötu: kraftmikið og hrátt, vel unnið, spilað og sungið, grípandi og frumlegt.

3. Warm Blood – Seabear

Þrátt fyrir að mér finnist Seabear platan ‘We Built a Fire’ eiga heima í hópi bestu íslensku platna ársins 2010 náði hún ekki að grípa mig alveg nógu vel. Þangað til komið var að lagi nr.9 – „Warm Blood“. Ég kolféll fyrir því, og ligg enn.

2. Cargo Frakt – Apparat Organ Quartet

Orgelkvartettinn Apparat sneri aftur með hvelli með nýja plötu í farteskinu eftir átta ára bið. Það voru þó flestir sammála um að biðin hefði verið þess virði um leið og þeir heyrðu fyrsta síngúl plötunnar Pólýfóníu – „Cargo Frakt“ – en kraftmikið lagið gefur smellinum „Romantika“ ekkert eftir.

1. Kolniður  – Jónsi


Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Gullfallegt lag og tilheyrandi gæsahúð sem fylgir í hvert sinn sem hlustað er á það. Klárlega hápunktur plötunnar ‘Go’. Útsetningar Nico Muhly fá að njóta sín og Jónsi syngur eins og engill. Svo einfalt er það!

Uppáhalds lögin mín árið 2010 – erlent:

10. Little Lion Man – Mumford and Sons

Þó að plata Mumford and Sons hafi kannski ekki beint hitt í mark hjá mér verð ég að viðurkenna annarlegt blæti fyrir þessu lagi. Ljúft en þó hressandi, með stuðkeyrslumillikafla og epískum endi. Namm.

9. Modern Drift – Efterklang

Að mörgu leiti poppslagari ársins og gaman að sjá sveitina taka lagið á Airwaves. Ég er alveg fáránlega veik fyrir fiðlunum í bakgrunni um miðbik lagsins…

8. Gorillaz – On Melancholy Hill

Heyrði lagið, fannst það fínt. Heyrði svo akústík útgáfuna og fannst hún yndisleg. Horfði svo á myndbandið og fannst það undarlegt. Yfir höfuð bara mjög gott!

7. Susanne Sundfør – The Brothel

Tónlist hinnar norsku Susanne heyrði ég fyrst snemma á árinu þegar ég rakst á þetta lag á netinu og varð frekar skotin i því enda raddbeitingin brjáluð. Það var svo fyrir einskæra tilviljun að ég rambaði á tónleika með henni á tónlistarhátíðinni The Great Escape í Brighton í maí þegar hún var einmitt að spila þetta lag!

6. Dance Yourself Clean – LCD Soundsystem

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Að mínu mati partílag ársins 2010. Lágstemmd byrjunin magnast upp í trylltan danskafla sem fær hvaða mann sem er til að skella sér út á gólf!

5. Pray For Rain – Massive Attack

Dulúðlegt undirspil setur tóninn fyrir þessa myrku melódíu Massive Attack. Um söng sér Tunde Adebimpe úr TV on the Radio og væri ekki slæmt að heyra meira samstarf þarna á milli í framtíðinni.

4. Norway – Beach House

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.


Ahhahhaaaa ahhahhahhahh… o.sv.frv. Sérlega ávanabindandi laglína og töfrandi söngur Victoriu Legrand gera þetta lag að því snilldarverki sem það er.

3. No Words/No Thoughts – Swans

Meistararnir í Swans hafa snúið aftur, eins og fyrsta lag nýju plötu þeirra sannar. Það byrjar með bjölluspili en brátt verður allt klikkað… Ég var svo heppin að ná tónleikum með þeim fyrir nokkrum mánuðum og eftir að hafa séð hljómsveitina spila lagið þar var ekki aftur snúið.

2. Lemonworld – The National

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

‘I gave my heart to the Army/The only sentimental thing I could think of/With cousins and colors and somewhere overseas/But it’ll take a better war to kill a college man like me’

Fallega flæðandi og angurvær texti smellir The National í annað sætið með „Lemonworld“.

1. Relief – Sam Amidon

…Hvern hefði grunað að R.Kelly ætti lag ársins? Það er þó Sam Amidon sem á heiðurinn að því í þetta sinn,  en í útsetningu sinni gerir hann lagið að sínu og er það nánast óþekkjanlegt í hans höndum auk þess sem textinn öðlast nýtt líf þegar brothætt rödd Amidons raular línurnar.

11 Athugasemdir

 1. kristjangud · 03/01/2011

  Sammála þér með Relief… þetta lag er alveg gæsahúðar-geðveikt (án nokkurrar kaldhæðni).

 2. jabba · 03/01/2011

  Einn listamaður sem er ekki vælandi hvítur úthverfa indie krakki og hann er ekki nógu góður fyrr en þessi gaur er búinn að covera lagið
  http://juliastaples.com/AIRWAVES/IMAGES/large/Airwaves_FriNew/OV_SamAmidon02_JS.jpg

  Líka skrítið að í heimi með endalausu framboði af öllum hugsanlegum gerðum af góðri nýrri tónlist (ég léti mér ekki detta í hug að gera neitt minna en topp 200 lista fyrir árið) þá er best of listinn hjá íslenskum “tónlistarunnendum” keimlíkur. Beach House, Mumford, blabla.

  Það er ekki eins og öll ný tónlist komi í gegnum Grammið eða Hljómalind lengur. Það er heill heimur þarna úti og hann er ekki að missa sig yfir MOR horbjóðinum sem Mumford and Sons eru.

  Yðar einlægur
  Herra hress

 3. Hildur · 03/01/2011

  Herra Hress, endilega deildu þá með okkur þínum Topp 200 lagalista! Það væri ábyggilega mjög hressandi listi – ég er alltaf til í nýja tónlist.

 4. Hlynur H · 03/01/2011

  Vil benda á smá villu. Það stendur þarna 2011 en ég vænti þess að þarna eigi að standa 2010.

  Annars vil ég bara hrósa ykkur fyrir skemmtilegan lista, og jafnframt hrósa Herra Hressum fyrir sérlega yfirlætisfulla athugasemd.

 5. jabba · 03/01/2011

  Þýðir það að ég sé kominn á launaskrá hjá Rjómanum?

  Hérna eru nokkur dæmi um artista sem gáfu út plötur eða voru endurútgefnir á árinu.

  Janelle Monae
  Charanjit Singh
  Zs
  Flying Lotus
  James Blake
  El Guincho
  Rolo Tomassi
  Burzum
  Ramadanman
  Ludicra
  Ghost
  Kylesa
  Big Boi
  Earl Sweatshirt
  Millie Andrea
  Andreya Triana
  Breach

  Ný sánd, gömul sánd, konur, kallar, svartir, hvítir, brúnir, danstónlist, indie-rapp, dauðarokk, popp, indie, vælandi, öskrandi, syngjandi, rappandi, hoppandi, dansandi, slammandi.

  Ef þig langar í meiri nýja tónlist þá mæli ég með að fara á http://www.google.com og slá inn “top albums 2010” í gluggann. Þær verður þú kynnt fyrir heilli veröld af nýrri tónlist.

 6. Pétur Valsson · 03/01/2011

  Voðalega er blessaður jabba (hey, við erum ekki vond – það má skrifa undir nafni hérna) eitthvað sár út í þá sem hafa ekki eins smekk og hann/hún.

  Það er vissulega til mikið af bæði góðri og slæmri músík, af allra handa tegundum og frá öllum heimshornum, svo mikið að enginn kemst yfir að hlusta á allt – hvort sem hann kann að nota google eða ekki. Þó svo að ég sé viss um að herra/fröken jabba gengur aðeins gott til með þessari ábendingu sinni á nýuppgvötaðri töfrasíðu þá efast ég um að hann hafi enn náð verulegri yfirsýn yfir tónlist síðastliðins árs. 200 topp listinn varð skyndilega að topp 17 þar sem blandað var saman endurútgáfum og nýju efni. Jahérna, magnið, gæðin, fjölbreytnin og allt þetta – jabba ögrar heiminum…

 7. Hildur · 03/01/2011

  Rjóminn heldur reyndar ekki úti launaskrá, og hefur aldrei gert.

  Hinsvegar held ég að þú munir sjá það ef þú skoðar sjálfur þessa topplista úti í heimi að þeir innihalda álíka mikið af ‘vælandi hvítum úthverfa indie krökkum’ og minn listi, ef segja má að hann geri það… ég veit t.d. ekki hvort post-punk bandið Swans geti talist til þeirrar kategoríu, nú eða triphop-raf-sveitin Massive Attack, þjóðlagasöngvarinn Sam Amidon eða hinar norsku & dönsku Susanne Sundfor og Efterklang.

  En svo er það auðvitað augljóst af listanum sem þú póstar að við höfum alls ekki sama smekkinn á tónlist, þó svo að ég hafi gaman af einstaka Burzum eða tónum Flying Lotus. Þannig kannski ekki skrítið að þú setjir spurningamerki við þennan lista – en það má þá kannski benda þér á það sem stendur efst: að þetta séu einfaldlega mín uppáhalds lög á árinu – og ekki þau ‘bestu’.

  Annars hef ég alltaf gaman af athugasemdum hér og það mega endilega fleiri lesendur telja upp hvað þeim fannst standa upp úr af lagaflóru ársins!

 8. Hildur · 03/01/2011

  Og takk Hlynur – þetta á að sjálfsögðu að vera 2010!

 9. kristjangud · 03/01/2011

  Jabba. Ég skil hvað þú ert að segja, fjölbreytnin á þessari síðu er stundum of lítil, og trúðu mér, ég er sammála og skal leggja mig fram við að gera hana meiri.

  Hins vegar finnst mér alveg mjög eðlilegt að fólk með áhuga á samskonar tónlist rotti sig saman og stofni vefsíður. Rjóminn er rekinn af fólki sem hefur mikið gaman af hvítu-úthverfa-vælu-indídóti (en reyndar alveg miklu fleiru).

  Það eru alveg til fullt af öðrum síðum á netinu ef fólk fílar ekki okkar smekk.

  til dæmis:
  íslenska danstónlistarsíðan dansidans.com gerðu árslista þar sem James Blake, Ramadanman o.fl. komust inn.
  http://halifaxcollect.blogspot.com/ er rekin af íslendingum og fjallar um pönk, þungarokk, indí og allan andskotann.
  Bobby Breiðholt, Topp5áföstudegi, og fleiri og fleiri.

  Svona topplistar eru samt bara gerðir í gamni og hafa nákvæmlega ekkert vægi. Reyndar finnst mér alveg eðlilegt vegna tiltölulega svipaðs fegurðarskyns, tíðaranda og hjarðeðlis velji fólk mikið til sömu lögin/plöturnar sem bestar.

 10. siggasig · 24/01/2011

  Takk fyrir fínan lista.

 11. linda · 07/02/2011

  Mikið agalega var gaman að sjá Susanne Sundfor á listanum, enda er plata hennar, The Brothel, að mínu mati langbesta plata ársins 2010! Það var einmitt líka samnefnt lag sem fékk mig til að kolfalla fyrir henni. Veit ekki hvort þú hefur tékkað á plötunni í heild sinni, en ég mæli líka með laginu “O Master” – þvílíkur unaður… gæti tekið smá tíma að venjast, en jeminn eini, hvílík rödd! Algjört eyrnagómsæti, sem og platan öll.

  Svo mættirðu alveg gefa Mumford & Sons annan séns – margar aðrar magnaðar lagasmíðar á plötunni. I Gave You All? White Blank Page? Svona nú =) Little Lion Man stendur þó vissulega upp úr.

  Annars, takk fyrir þetta!

Leave a Reply