• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Þríhyrningsmolar 2010

Hér að neðan má sjá nokkur af þeim lögum sem Daníel fannst standa upp á árinu sem leið bæði á íslenskum og erlendum markaði. Einstök lög eru forvitnilegur hlutur og getur einn stór og frábær smellur auðveldlega séð til þess að fólk versli heilu plöturnar, til þess eins að eiga eitt frábært lag.
Mætti þá stundum líkja lögunum við unaðslegan súkkulaðimola innan um annars mjög óspennandi mola. Mér finnst til dæmis karamellumolarnir í Mackintosh ekkert góðir en hér ætla ég að rýna í þá grænu, þríhyrningslaga sem mér fannst góðir í molaskálinni 2010. Vil ég þó meina að þessir molar hafi fundið sig vel við hlið þeirra fjólubláu með hnetum, hinsegin grænu molana og allskyns gúmmelaði.

Þríhyrningsmolar 2010 – ÍSLAND

10. Kimba – Retro Stefson
Diskóstuð með skemmtilegu twist-i. Lagið er upplífgandi og kemur jafnt börnum sem eldri borgurum í fíling. Lag sem klikkar vart á dansgólfi skemmtistaðar né annarsstaðar. Sumarsveifla.

9. Sjónarspil – Rökkurró
Hugljúft lag með góðum sprengjum á réttum stöðum. Falleg rödd í konungsríki strengja og hógværð gerir þetta að afbragðs síðasta lagi fyrir svefn.8. Undraland – Valdimar

Fremst meðal jafningja á frumburði sveitarinnar hrífur lagið mann með sér í sérkennilegri blöndu af blástri, hröðum takti og hlýjum og flauelsmjúkum söng. Yljar mér á vetrarkvöldum!

7. Nighttime – Benny Crespo´s Gang
Allhressilega minnir sveitin á sig og er Lovísa (Lay Low) hér í forgrunni á meðan drengirnir hennar tjúllast á sínu í bakgrunni. Lag sem verður betra með hverri hlustun. Stilla í botn í myrkri, takk!

6. This Is Where We Kill More Than Time – Cliff Clavin
Ótrúlega smekklegt og svalt rokklag sem hreif strax við fyrstu hlustun. Ekki of hart og ekki of mjúkt. Svo sannarlega þrihyrningsmoli!

5. A Stab in The Dark – noise
Melodískt þungarokk í rétta klassanum. Viðlagið hrífur og fær mann til að hækka. Pungferskt og flæðandi getur þetta lag gert flest kvöld að föstudagskvöldi.

4. Go Do – Jónsi
Fyrsta og besta (að mínu mati) sem ég heyrði af þessari frábæru plötu. Sumarblær svo sannarlegur. Hopp, skopp og gleði, gleði! Frábært.

3. Leiðin Heim – Lights On The Highway
Fyrsta smáskífan á móðurmálinu og ein sú besta til þessa. …núna er tíminn… Móðurmálið fleytir sveitinni hátt á meðal jafningja í skálinni í ár og vona ég að lagið verði mér enn jafn kært næsta sumar og það næsta og það næsta og…

2. Góða Konan – Miri
Opnunarlagið á einni bestu íslensku plötu ársins framkallar alltaf gæsahúð. Einfaldlega frábært lag sem yndislegt er að hlusta á við sólarupprás jafnt sem sólarlag. Upplifunin af laginu breytist með kringumstæðum hlustanda og það er einstaklega æðislegt.

1. Of Keen Gaze – Agent Fresco
Þvilík veisla! Besta lag ársins. Vers lagsins með gítarleikarann Þórarinn Guðnason í fararbroddi splundrast í þrusu viðlag þar sem ringulreiðin fær uppreisn æru með gæsahúðarframkallandi melodísku brjálæði og allt gengur upp. Þó lagið fái ekki mesta athygli af því efni sem á plötu sveitarinnar er, er það uppáhalds íslenska lagið mitt árið 2010 og einn RISA þríhyrningsmoli!

Þríhyrningsmolar 2010 (Erlent)

10. Used To Be – Beach House
Fallegt lag sem bræðir og róar frá afar áhugaverðri sveit. Takturinn er töff og rödd Victoria Legrand dáleiðir. Kósý stemmari (Unplugged útgáfa í myndbandi og eitthvað meira dót…).

9. The Gaslight Anthem – American Slang
Húðflúr, gítarar og þefur af pönki. Þríhyrningsmoli frá sveit sem hefur enn ekki náð mikilli fótfestu hjá landanum en mér finnst þetta afbragð. Það tók smá tíma en nú er ég húkt og ég fíla það!

8. Rinse Me Down – Bombay Bicycle Club
Undurljúft lag sem einkennt hefur bæði gleðskapi, afslöppun og eldamennsku í heimahögum þetta árið. Jack Steadman leiðir hér félaga sína í mun afslappaðri stemmingu en áður en þó, þrælfínni!

7. Helicopter – Deerhunter
Eftir að hafa heyrt þetta lag og þessa plötu í stofu góðs vinar á handahófskenndu augnabliki á árinu verð ég að segja að þessi sveit og þetta lag er sko full skál af þrihyrningsmolum. Textinn frekar þungur og dapur en lagið samt svo hugljúft og þægilegt og já, ögn öðruvísi.

6. Giving Up The Gun – Vampire Weekend
Hristum bjórbumburnar og flippum! gæti verið lykilorðið af reynslunni af þessu lagi á árinu. Hresst og skemmtilegt með fínasta texta og erfitt er að sitja kyrr. Hristum bjórbumburnar!

5. Stylo – Gorillaz feat. Bobby Womack & Mos Def
Megasúpersvalt lag og með því besta sem ég hef heyrt frá Gorillaz. Bobby Womack er 65 ára og ennþá svalur og Mos Def skreytir lagið vel. Frábær blanda á einstaklega fjölbreyttri og fínni plötu.

4. Compliments – Band of Horses
Gómsætt frá einum af uppáhalds. Lag sem kippir manni upp á morgnana og heldur manni á tánum yfir daginn. Það er eitthvað við rödd Ben Bridwell sem getur bæði skotið manni í stuð og svæft mann í ró. I´m fixin´a drink in the morning, with the way things are…Já!

3. Ready To Start – Arcade Fire
Engin uppfinning, bara hresst og hoppvænt lag af einni bestu plötu ársins 2010. Lag í anda new wave stefnu 9.áratugarins skreytt með brennimerki sveitarinnar og allir eru hressir!

1.- 2. Diamond Eyes – Deftones
Titillag einnar bestu þungarokksplötu ársins 2010 að mínu mati. Slammaðu, syngdu með, grúvaðu, hoppaðu, öskraðu! Þetta er geðveikt. Sannkallaður þríhyrningsmoli sem springur og bráðnar í kjaftinum á þér til skiptis.

1.- 2. Bloodbuzz Ohio – The National
Er það textinn? Eru það trommurnar? Er það hinn flaulsmjúki og svali Matt Berninger? Er það píanóið? Það er allt saman bara! Besta erlenda lag ársins að mínu mati. Flæði lagsins er mjúkt og seiðandi og hægt er að njóta þess jafnt með viskýglas í hægindastól eða sveittur á dansgólfinu. Namminamm!

Eigið nú gleðilegt og farsælt nýtt ár kæru lesendur og vonandi verður komandi ár jafnt gróskusamt í íslensku sem erlendu tónlistarlífi og á því ári sem nú er liðið. Öll þau frábæru lög sem út hafa komið á árinu eru einum of mörg fyrir topp 10 lista, það er alveg öruggt mál. Sumum finnst jafnvel þríhyrningsmolarnir bara vondir og karamellumolarnir bestir en þeir koma víst allir úr einni og sömu dollunni (korní). Skál!


Leave a Reply