• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Viðburðaríkt ár hjá Bedroom Community

  • Birt: 06/01/2011
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Nýliðið ár var það stærsta og viðburðarríkasta í sögu Bedroom Community til þessa með útgáfu á fjórum plötum og tónleikaferðalaginu Whale Watching tour. Listamenn útgáfunnar höfðu nóg fyrir stafni, en hér fyrir neðan verður stiklað á stóru um minnisstæða viðburði á árinu.

Sam Amidon ferðaðist um heiminn til að kynna nýjustu plötu sína I See The Sign, sem endaði ofarlega á topplistum ársins 2010 hjá stórum jafnt sem smáum miðlum, til að mynda lista New York Times og MOJO.

Daníel Bjarnason gaf út plötuna Processions og fékk platan frábærar viðtökur en Daníel hlaut meðal annars titilinn „höfundur ársins“ og „Bow to String“ var kosið „tónverk ársins“ á Íslensku tónlistarverðlaununum. Processions var einnig ein af sex verðlaunaplötum Kraumslistans og „Bow to String“ var tilnefnd til Norrænu tónskáldaverðlaunanna.

Ben Frost hlaut hin eftirsóttu Rolex verðlaun (og mun því njóta handleiðslu tónlistarmannsins Brian Eno í heilt ár), samdi tónlist við dansverk Wayne McGregors, FAR, og var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir plötuna BY THE THROAT.

Ben og Daníel voru fengnir af Unsound hátíðinni til að vinna að Solaris, tónverki innblásnu af samnefndri kvikmynd Andre Tarkovsky frá 1972 sem byggð er á skáldsögu Stanislaw Lem. Verkið var frumflutt í Kraká síðastliðið haust.

Nico Muhly gaf út tvær plötur; I Drink the Air Before Me hjá Bedroom Community og Decca Classics og hjá Decca eingöngu plötuna A Good Understanding. Hann samdi jafnframt tvær óperur, eina fyrir Metropolitan óperuhúsið og English National óperuhúsið og aðra fyrir Gotham Chamber óperuhúsið.

Valgeir Sigurðsson gaf út plötuna Draumalandið með frumsaminni tónlist úr samnefndri kvikmynd Þorfinns Guðnasonar og Andra Snæs Magnasonar. Allir listamenn Bedroom Community leggja Valgeiri lið á plötunni en hún var síðar tilnefnd til Eddunnar.

Síðast en ekki síst var ákveðið að gefa út fría jólaplötu rétt fyrir jólin. Hún hlaut nafnið Yule og innihélt lög eftir alla listamenn útgáfunnar; áður óútgefin, endurhljóðblönduð og illfáanleg.

Leave a Reply