Deftones – Diamond Eyes

(Löngu tímabær dómur)

Útgáfurár: 2010
Label: Reprise/Warner Bros

Sjötta breiðskífa Deftones frá Sacramento er svo sannarlega ein af betri rokkplötum síðasta árs. Hljómsveitin snýr hér aftur eftir fjögurra ára fjarveru frá útgáfu en þeirra síðasta plata, Saturday Night Wrist, kom út á haustdögum árið 2006. Árið 2008 bárust fregnir um að hljómsveitin hefði klárað plötu. Platan hafði hlotið nafnið Eros og horfði hljómsveitin fram á útgáfu snemma árs 2009. Hljómsveitin ákvað að hætta við útgáfu og setja plötuna á hilluna þegar bassaleikari sveitarinnar, Chi Cheng, lenti í hræðilegu bílslysi seint árið 2008. Liggur Cheng víst enn í dái en þó er kappinn eitthvað að braggast.

Árið 2009 var lagst í tveggja mánaða vinnu í hljóðveri ásamt bassaleikaranum Sergio Vega og úr varð platan Diamond Eyes.

Diamond Eyes heilsar hlustanda með virkilega vænni sprengju. Eitt allra besta rokklag ársins 2010, Diamond Eyes, býður upp á það besta sem Deftones hefur fram að færa. Harka mætir melodíu og tilfinningaþrunginn er greinilegur. Hér má einnig finna fyrir nærveru Frank Delgado (hljómborðsleikara/plötusnúð sveitarinnar) mun meira en oft áður. Frábært stykki til að byrja rússíbanann.
Lögin Royal og CMND/CTRL henda manni aftur um nokkur ár og koma fyrri verk eins og Adrenaline (1995) og Around The Fur (1997) upp í hugann. Það er ekkert nema yndislegt. Chino Moreno leiðir hesta og gæsahúðin ætlar vart að láta undan.

You´ve Seen The Butcher er fjarkinn og með því besta á plötunni. Delgado er hér aftur ögn framar í mixinu en áður og grúvið og þunginn er brilliant. Týpísk gæsahúð og lagið virkar ótrúlega vel á tónleikum. Var þetta eitt af þeim sem stóð upp úr eftir tónleika sveitarinnar í Stokkhólmi í nóvember sl. Ekki skemmir myndbandið fyrir!

Deftones plata er ekki Deftones plata nema það komi smá grúv/rólegheit inn á milli. Í laginu Beauty School bremsar sveitin sig örlítið af og poppar sig ögn í mallann og Sergio Vega smyr bassann vel í  Prince og bæði lögin virka vel með sing-a-long viðlögum og allt í góðu grúvi (Verst hvað sænskir tónleikagestir geta verið latir og súrir).
Þunginn kraumar þó alltaf undir og fer Chino Moreno á kostum hér eins og annars staðar og félagarnir Stephen Carpenter (gítar) og Abe Cunningham (trommur) eiga erfitt með að valda vonbrigðum.

Fyrsta smáskífa plötunnar, Rocket Skates, róar ekkert niður og lætur hlustanda langa til að hoppa um sveifla höndum og hreinlega missa vitið í smástund (fínt i lyftingarsalinn fyrir þá sem vilja?). Viðlagið “Guns, razors, knives…fuck with me!” segir allt sem segja þarf og þó töluvert sé um endurtekningu í laginu skemmir það ekki fyrir.
Stuð og reiði í bland svæfa loks hlustanda í skýjaborgum og fegurð í laginu Sextape og minnir lagið ögn á meistaraverkið White Pony (2000). Einfalt og gott fyrir lokakafla þessarar brjálæðu plötu.

“This one´s for Chi!” kallaði Moreno í mækinn í Arenan í Stokkhólmi áður en sveitin renndi í níunda lag plötunnar, Risk. Hér talar Moreno beint til vinar síns og hljómsveitarfélaga Chi Cheng og lagið grúvar vel og textinn er þrælfínn og hreinskilinn. Sveitin er orðin gríðarleg sem hljómsveit á sviði og eftir að hafa ekki séð Deftones frá því á Roskilde 2006, ætlaði ég vart að trúa hvað sveitin datt í mörg gömul og góð og hvað allt hljómaði stórkostlega vel.

Diamond Eyes tekur lokasnúning með lögunum 976-Evil og This Place Is Death. 976-Evil er poppaðasta lag plötunnar og minnir gítar Carpenter dálítið á 90´s pop/rock stílinn í stað hans hefðbundna stíls. Ekkert skemmandi en þó rís lagið ekki mjög hátt og hverfur í skuggann. Falsettur Moreno og yfirvegun lagsins heillar þó án efa marga og þá sérstaklega kvenaðdáendur sveitarinnar að mínu mati.
Frank Delgado opnar This Place Is Death og nær lagið að binda vel fyrir þessa frábæru plötu. Líðandi grúv en líkt og 976-Evil rís lagið ekki eins hátt og forverar þess á plötunni og skilur hlustanda eftir þyrstan í meira en þó, sáttan við heildarverkið og meira en það.

Diamond Eyes er svo sannarlega besta verk Deftones í áratug. Hún státar af hörku Adrenaline, grúvi Around The Fur og mjúkri melodíu White Pony en færir einnig fram nýjar og spennandi stefnur. Eftir að hafa bæði kynnt mér plötuna í meira en hálft ár og séð sveitina lifandi á sviði seint á árinu, get ég með fullri samvisku sagt að þetta sé ein besta rokksveit okkar tíma og að þessi plata sé ein besta rokkplata ársins 2010. Út í búð, núna!

Einkunn: 4,5

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.