Ný plata frá Earth

Sumir þekkja tónlistarmanninn Dylan Carlson eingöngu út af haglabyssu. Byssan hafði ófyrirsjánleg (a.m.k. fyrir eiturlyfjafíkil með bullandi fráhvarfseinkenni) áhrif á rokksöguna eftir að Dylan seldi hana góðvini sínum og kollega, Kurt Cobain.

Sem betur fer verður hans þó ekki einungis minnst fyrir þessi sorglegu byssuviðskipti, heldur hefur hann í 22 ár haldið úti einhverju magnaðasta rokkbandi jarðarinnar (ég veit); Earth.

Earth eru frumkvöðlar stefnu sem nefnd hefur verið drone-metal (nið-málmur) eða drone-doom (dómsdags-niður), sem er minimalískt, geigvænlega þungt, hægt og oftast ósungið afbrigði af öfgarokki, einhvers konar þunga-framúrstefna. Tónlistarlegir afkomendur hljómsveitarinnar eru m.a. Sunn O))), Burning Witch, Nadja, og hin íslenska The Heavy Experience.

Ný plata frá Dylan og félögum kemur upp á yfirborð jarðar 7.febrúar og nefnist því epíska (og Earth-lega) nafni Angels of Darkness, Demons of Light I. Framhaldið: AoD, DoL II, á svo víst að koma seinna á árinu.

Platan á víst að vera undir áhrifum frá bresku þjóðlagakrökkunum í Fairport Convention sem og Malí-sku hirðingjunum í Tinariwen. Hún fylgir því líklega í fótspor snilldarverksins The Bees Made Honey in the Lion’s Skull frá 2008, sem var ekki jafn þung en á sama tíma mun þjóðlaga-, sýru- og jafnvel vestra-kenndari en fyrri verk. Hinn einkennandi heimsendafílíngur verður þó á sínum stað, ef fyrsta lagið “Old Black” gefur rétta mynd af skífunni.

Liðskipan hljómsveitarinnar er síbreytileg (fyrir utan Carlson) en núna skipa bandið sellóleikonanan Lori Goldstein (sem lék með Nirvana á sínum tíma), bassaleikarinn Karl Blau (sem er innvígður í K-útgáfumafíuna og hefur m.a. leikið með The Microphones/ Mt.Eerie og Lauru Veirs fyrir utan að spila sína eigin tónlist) og trommuleikkonan Adrienne Davies.

Earth – Old Black

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.