Arcade Fire – The Suburbs

Útgáfuár: 2010
Útgáfa:
Merge Records
Einkunn: 4,0

Eldur í úthverfinu

Á níunda áratugnum spratt indítónlistin upp úr pirringi og útskúfunartilfinningu bandarískra úthverfakrakka; af sömu rót og pönkið spratt í innhverfum Bretlands áratug áður.

Munurinn er hinsvegar sá að pönkið var viðbragð við ómanneskjuleika og félagslegu óréttlæti hins breska heimsveldis . Hin stjórnlausa og níhílíska reiði pönkarans var óhjákvæmileg afleiðing af ömurlegum aðstæðum verkamannastéttarinnar, uppreisnin byggðist á raunverulegum efnislegum skorti.

Indí-ið fæddist hins vegar vegna ofgnóttar. Það varð til meðal úthverfakrakka sem efnislega höfðu allt til alls og þrátt fyrir að hafa öll tækifæri heimsins í höndunum skynjuðu sjálf sig sem olnbogabörn. Kröfurnar sem gerðar voru til krakkans voru einfaldar: ,,vertu eins og þeir.”

,,Grab your mother’s keys we’re leaving“

hrópar Win Butler söngvari Arcade Fire í fyrsta lagi The Suburbs. Ógnvaldurinn sem hann vill flýja undan er augljós; ómanneskjuleg úthverfavæðing nútímans og normalisering. Úthverfin eru staðirnir þar sem allir eru steyptir í sama mót, draumar eru brotnir og fólk vaknar upp á fimmtugsaldri í mannskemmandi skrifstofuvinnu lífsgæðakapphlaupsins, með skuldir í bankanum og magann fullan af Prozac-i.

Indíkrakkinn var bitur og reiður vegna þess að hann fittaði ekki inn, hlustaði á öðruvísi tónlist og vildi aðra hluti heldur en meirihlutinn. Hann var tilfinningaríkur og rómantískur (líkt og náin tengsl frum-emó tónlistar og indísins vitna til um). Honum fannst hann, með réttu eða röngu, vera útskúfaður, þjáður og einn.

Það eru fáar hljómsveitir sem koma jafn augljóslega úr þessum jarðvegi og Arcade Fire. Þau hafa frá upphafi gert tilfinningum útskúfunar og marklausrar uppreisnar góð skil: The Funeral hljómaði eins og samstöðuhróp krakka í byltingu gegn hinum kúgandi fullorðinsgildum, Neon Bible angistaróp tilfinningaríks rómantíkusar gegn köldum og ósanngjörnum heimi. Núna er spjótunum beint að úthverfunum.

Hér eru þó engin svör, lausnir né útskýringar (kannski er það ekki hlutverk listarinnar) og virðist reiðin því leisast upp í öskur út í vindinn. Uppresinin er ekki hugsjónabarátta og verður því stefnu- og marklaus, uppreisnarmaðurinn fyllist vonleysi.

“We run away, but we don’t know why.”

Það er þetta fullkomna vonleysi ,,hugsjóna”mannsins sem Win Butler er snillingur í að koma í tóna og viðeigandi frasa. Eina mótstaðan gegn ríkjandi ástandi virðist vera afturhvarf til barnslegrar einlægni, byltingin felst í því að hjóla út í næsta almenningsgarð, sitja undir rólunum og kyssast. Veruleikinn mun þó hrifsa mann inn í hringiðu stimpilklukkna, biðraða og verslunarmiðstöðva. Þitt hlutverk er að vera góður samfélagsþegn, ekki skapandi eða hamingjusamur.

“They heard me singing and they told me to stop, Quit these pretentious things and just punch the clock”

Hljómsveitin hefur verið gagnrýnd fyrir að nýta sér ofnotað og klisjukennt þema (hversu margar bíómyndir fjalla um sálardauða úthverfanna?), en mér finnst það viðeigandi engu að síður. Úthverfin eru ein augljósasta birtingarmynd þess konformisma og hjarðeðlis sem við öll eigum til að fela okkar inn í.

Öll ætlum við okkar að verða öðruvísi, verða eitthvað meira, en endum eflaust flest í sama steríllitaða kassanum.

Hljómur úthverfisins

Meðlimir Arcade Fire ólust upp í úthverfum Houston og Montreal á níunda áratugnum og segja sjálf að platan sé afturhvarf til þeirra tíma. Tónlistinni hefur verið lýst sem blöndu af Neil Young og Depeche Mode, lýsing sem hefur ákveðinn sannleikskjarna.

Eftir að hafa orðið fyrir talsvert miklum vonbrigðum með Neon Bible og heyrt þessa lýsingu á The Suburbs hafði ég vægast sagt litlar væntingar, þetta hljómaði allt eitthvað svo kjánalega. En mér var komið skemmtilega óvart.

Platan hefst ekki á rólegum inngangi eða hljóðum sem feida inn, heldur byrja hljóðfærin af krafti frá fyrstu sekúndu. Symbalar, píanó, kassagítar og bassi, byrja öll í fyrsta slagi svo maður hrekkur í kút. Melankólískur söngur Win Butlers dettur svo inn stuttu seinna.

Lagasmíðarnar eru ekki flóknar, en vinna einstaklega mikið á. Hver melódía síast hægt og rólega inn í undirmeðvitundina og hreiðrar þar um sig þangað til maður stendur sig að því að raula hana á meðan sinnir sínum hefðbundnu úthverfaskyldum. Einkennandi kammer-indí hljómurinn býður mann velkominn og smekklegar útsetningarnar halda manni við efnið.

Kaldir hljóðgervlar sem vísa í nýrómantísk elektróbönd líkt og The Cure, Tears for Fears og New Order, spila stærra hlutverk en áður, og (afsakið að ég segi það) sér-amerískur hallærisleiki í anda Bruce Springsteen er áberandi. En þessi fílingur passar raunar fullkomlega við þema plötunnar og því ekkert út á það að setja.

The Suburbs er rúmur klukkutími að lengd (15 mínútum lengri en báðar fyrri plöturnar) og telur heil 16 lög. Örlítillar einsleitni fer að gæta á seinni hluta plötunnar, og þrátt fyrir að öll lögin hafi sinn sjarma (og í rauninni ekkert þeirra áberandi best) mættu nokkur þeirra alveg missa sig, heildarinnar vegna. Persónulega hefði ég mögulega endurskoðað lögin Rococo, Modern Man, Sprawl I og tilgangslausa endurtekninguna á The Suburbs.

Óvæntasti slagarinn er vafalaust hið Blondie-lega Sprawl II (Mountains Beyond Mountains), sem er sungið af Régine Chassagne með veikri en sjarmerandi röddu.

Dauði indí-sins

Löngu áður en The Suburbs skaust í efsta sæti bandaríska vinsældarlistans var orðið augljóst að indí-tónlist væri hætt að vera sú unglingauppreisn og sá útskúfaði menningarkimi sem hún var í upphafi. Indí er meinstrím.

Þó að Arcade Fire sé leitandi band, og Win Butler einhver hæfileikaríkasti popplagahöfundur nútímans, er augljóst að hljómsveitin stefnir ekki að því að bylta hlutunum sem þau bölva í söng. Þvert á móti eru Arcade Fire að gelda hugmyndina um indí sem einhverskonar uppreisn (því sú list sem ögrar ekki ríkjandi dreifingakerfi verður jú ávallt gagnbyltingarsinnuð). Ég græt hinsvegar ekki indí-ið, heldur bíð spenntur eftir næstu uppreisn. Þangað til mun ég eflaust hlusta oft á The Suburbs, enda mögnuð poppplata.

Meirihluti ykkar sem þetta les er alinn upp í úthverfi; Garðabæ, Grafarvogi, Breiðholti, Seltjarnarnesi eða Hafnarfirði (og jafnvel þó að þið séuð úr 101 eða af Ísafirði, eruð þið líklega bölvuð úthverfabörn). Vegna þess að Arcade Fire gera það ekki sjálf ætla ég að taka mér það bessaleyfi að ákalla ykkur öll.  Kæru úthverfakrakkar: sameinumst um að breyta heiminum, elskum hvert annað, tröðkum á tabú-um smáborgaranna, brjótumst undan eigin hömlum og gerum samfélagið opnara, frjálsara, víðsýnna, manneskjulegra. Þegar okkur tekst það þurfum við ekki lengur að troða okkur inn í kassa annarra, kassana sem Arcade Fire syngja um: inn í steríllituð úthverfaraðhús, tveggja fermetra skrifstofubása, forvaldar útvarpsstöðvar, úrkynjuð siðferðisgildi og fyrirframgefnar staðalmyndir.

Arcade Fire – We Used to Wait

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Arcade Fire – Sprawl II (Mountains Beyond Mountains)

8 responses to “Arcade Fire – The Suburbs”

 1. bio says:

  Gaman að vera ósammála. Rjóminn er frábær og frábært að skrifin séu fjölbreytt en ég verð að viðurkenna að þessi dómur er ekki mér að skapi.

  Fyrir mér er þetta algjör “ég-vildi-ég-gæti-skrifað-jafn-mikið-bókmenntafræði-rúnk-og-dómarnir-á-pitchfork” dómur í stað þess að fjalla heiðarlega og skemmtilega um plötuna.

  Fyrir utan hvað stíllinn er yfirdrifinn og staglkenndur þá eru ályktanirnar undarlegar svo ekki sé meira sagt. Nenni ekki að nefna mörg dæmi en uppáhaldið mitt er pönkkaflinn.

  Pönkið verður til sirka 1974-1976. Thatcher tekur við völdum í Bretlandi 1979. Hvernig pönkið viðbragð við ómanneskjuleika og félagslegu óréttlæti hins breska heimsveldis í valdatíð Margarethar Thatcher þegar leiðtogar Verkmannaflokksins voru við völd í Bretlandi þegar pönkið varð til er erfitt að skilja :).

  Góð plata – Slakur dómur 😉

  ps. alinn upp í Breiðholtinu

 2. bio says:

  Hvernig pönkið er viðbragð við ómanneskjuleika og félagslegu óréttlæti hins breska heimsveldis í valdatíð Margarethar Thatcher þegar leiðtogar Verkmannaflokksins voru við völd í Bretlandi þegar pönkið varð til er erfitt að skilja 🙂

 3. kristjangud says:

  takk fyrir athugasemdina bio.
  Það er svo sannarlega rétt að setningin um Thatcher er mjöög illa athuguð hjá mér (raunar svo fáránleg að ég leyfði mér að taka hana út). Líklega væri hægt að rífast um heilmargar aðrar staðhæfingar (eins og í flestum svona textum)

  Hins vegar finnst mér ekkert að því að reyna að skrifa á “nýjan” hátt um tónlist, plötugagnrýnir á Íslandi eru 99,9% steingeld skrif.
  Ég hef ákveðið að fókúsera meira á hugmyndafræðina sem ég tel mig greina í plötunni frekar en upptökuhljóminn, hljóðfæraleikinn eða flutninginn. Óhjákvæmilega getur það farið að virka eins og wannabe-bókmenntafræðirúnk (sérstaklega ef menn eru á byrjunarstigi í þeirri greiningu).

  Það má líka endilega ögra þessari greiningu, þetta er enginn heilagur “sannleikur” sem ég tel mig bera á borð, kommentið á það sem ykkur finnst vafasamt, fáránlegt eða hrokafullt. Ég er alveg til í að ræða þessa hluti.

  Hins vegar vil ég meina að þessi dómur sé (ólíkt því sem þú virðist halda) heiðarlegur, og mögulega skemmtilegur. En hver segir svo sem að rúnk sé ekki líka þetta tvennt? 🙂

 4. bio says:

  Gott svar hjá þér 🙂

  …líklega ástæðulaust að taka rúnklíkinguna mikið lengra en….

  það er kannski vandamálið við rúnkið. Skemmtilegt fyrir þig en ekki skemmtilegt fyrir þá sem lesa (eða kannski ert þú aðdáandi rúnksins á Pitchfork – það er svo sannarlega einhverjir sem eru það þó ég sé ekki einn af þeim) 😉

  …svo er líka spurning með þessa skilgreiningu þína “indí músík”. Ég er ekki með á hreinu hvað þú átt við?

  Ef þú átt við “svipaða” músík og Arcade Fire hefði ég haldið að þig vantaði einn áratug í þessa setningu. “Á níunda áratugnum spratt indítónlistin upp úr pirringi og útskúfunartilfinningu bandarískra úthverfakrakka; af sömu rót og pönkið spratt í innhverfum Bretlands áratug áður.”

  …það er að segja tíunda áratugnum í stað níunda og “tveimur áratugum áður” í stað áratug áður”.

  Önnur greining sem ég held að hefði átt meira við og égh efði haft meira gaman af að pæla í er áhrif internetsins á framgang hljómsveita eins og Arcade Fire. Á hverjum tímapunkti er ungt fólk (WB var reyndar fullveðja 23 ára maður og Regíne þremur árum eldri þegar Funeral var unnin) sem er ósátt við samtíma sinn og vill breyta og semur um það músík, en áhugaverða spurningin hér er hvers vegna þau, og margir aðrir á svipuðum tíma, náðu eyrum fólks. Ég held að það hafi verið internetinu að þakka frekar en nokkru öðru.

  Semsagt…

  Ég held að vöxtur óháðrar tónlistarútgáfu (sem getur svo verið alls konar en ekki endilega bara í einni katagoríu eigi meira internetinu að þakka en einhverju þjáningarmynstri).

  Haltu áfram að skrifa. Hlakka til að sjá næsta dóm. Hver veit nema hann verði algjör snilld að mínum dómi.

 5. Hjalti Jón says:

  Ég verð að segja fyrir mína parta að þá tel ég Kristján vera einn efnilegasta popppenna sem að landið á. Þær plötugagnrýnir sem ég hef lesið eftir hann eru þær ferskustu sem ég hef lesið frá íslendingi í lengri tíma en ég kæri mig um að vita nákvæmlega. Þær bera sterk einkenni ástríðu, jafnt fyrir skrifunum sem sjálfstæðri einingu og eins tónlistinni. Okkur íslendingum þykir margt kjánalegt á íslensku sem við kippum okkur ekki upp við á ensku. Það er ástæða fyrir því að svo mörg íslensk bönd syngja á ensku; ef þú myndir syngja sömu orð á íslensku er hætt við kjánahrolli.
  Einlægnin er okkur erfið, það er erfitt að vera berskjaldaður, standa og falla með sínu og að gera það þannig að allir sjái og viti.
  Kristján er að taka af skarið í að þróa og þroska stíl. Fyrir því ber að klappa.
  Dómurinn finnst mér góður, mjög góður, en það þýðir ekki endilega að ég sé 100% sammála honum. Ég held að ástæðan fyrir því að maður fílar Suburbs svona miklu betur en Neon Bible sé sá að nú hafa Arcade Fire liðar tekið tilveru sína í sátt. Það þýðir ekki endilega að þau sjái ekki lengur sömu gallana, en þau eru hætt að rembast við að vera eitthvað sem þau voru og eru því miður bara ekki lengur (eins og þau gerðu á Neon Bible).

 6. kristjangud says:

  Ég reyndar nenni sjaldnast að lesa heila dóma á pitchfork, þar eru náttúrlega misjafnlega naskir pennar eins og annarsstaðar. Þeir eru a.m.k. oft áhugaverðari en mbl, fbl, dv, fréttatíminn og grapevine til samans.
  En menningarsöguleg skrif um tónlist finnast mér oft skemmtileg, og þó að þau séu oft umdeild og innihaldi jafnvel löng og flókin orð finnst mér þau ekkert endilega rúnk.

  Spurningin með indí er mjög góð. Það eru mögulega mistök að útskýra ekki betur hvað ég á við. Það er náttúrlega vandamál að enginn veit hvað indí er og allir setja sína eigin merkingu í hugtakið. Það er þannig með nöfn á mörgum tónlistarstefnum, en líklega enn frekar með indí-ið þar sem tónlistin var upphaflega skilgreind út frá útgáfuleiðinni þ.e. hún var gefin út af sjálfstæðum útgáfufyrirtækjum en ekki stórum fyrirtækjasamsteypum (independent verður indie).Þar með er hún orðin merki um ákveðið viðhorf frekar en ákveðna tónlist. Á þeim tíma hefur markaðurinn verið miklu erfiðari en eftir komu netsins, og nánast ómögulegt að gefa út sjálfur.

  Indí-böndin voru náttúrlega utan við meginstrauminn vegna þess að þau höfðu ekki sömu dreifingarmöguleika, en líka vegna þess að þau höfðu meira listrænt frelsi en aðrar hljómsveitir til þess að gera undarlega og frumlega tónlist.

  Hins vegar breyttist það náttúrlega þegar sú tónlist sem var kölluð indie verður vinsæl og stórfyrirtæki fara að ná í og búa til indie-bönd, það var kominn einhver ákveðinn hljómur sem var “indie”.

  Ég á mjög erfitt með að setja puttannn á hvað nákvæmlega það er sem gerir band “indí” í dag. Band er eiginlega bara kallað “indí” ef það minnir á eitthvað af frum-indí böndunum. Eða hvað?

  Þó að það sé venjulega ómögulegt að finna einhver greinileg ártöl stend ég við að indí-ið hafi fæðst á 9.áratugnum þangað til betri rök koma fram: Dinosaur Jr (84), Beat Happening (82) og Sonic Youth (81) eru m.a. starfandi meirihluta þess áratugar, Pavement (89) og Superchunk (89) fæðast undir lokin. Slíkt indí-rokk var að ég held byrjunin á því sem hefur breyst í billjón stefnur (indí-rapp, indí-popp, elektró-indí blablabla).

  Indí-ið í merkingunni, sjálfstætt útgefin tónlist, er náttúrlega ekki dautt. Það er meira lifandi en nokkru sinni fyrr vegna áhrifa netsins, eins og þú bendir réttilega á. En orðið hefur verið gert verðlaust með því að kalla bönd á stórum labelum þessu nafni.Svo eru mörkin milli indie-labela (t.d.sub-pop) og stórra-labela (t.d. EMI eða Warner Bros) miklu minni en áður, að ég held.

  Spurningin er þá eiginlega: er indí ekki bara orðið úrelt hugtak sem ruglar okkur, og við ættum að losa okkur við?

  Þeir sem þekkja söguna betur, eða eru ósammála, mega endilega leiðrétta eða bæta í eyðurnar…

 7. smábæjarnegri says:

  A: “Nei, ég veit meira um tónlist en þú” B: “nei, sonic youth, radiohead, modest mouse” A: “nei, ég veit meira, indí, popp og rokk og ról” C: “uuu.. pitchfork, sub-pop, indytekknó, halló? ég veit mest”

 8. kristjangud says:

  hahahha… þetta er algjört snilldarkomment.

  Það er svo uppfullt af óþolandi kaldhæðnum yfirlætishroka. Það sem það segir í rauninni: “Ég veit í rauninni miklu meira en þið, en ég er ekki svo steiktur að tala um það á netinu.”
  En sú staðreynd að þú hafir ekki getað sleppt því að kommenta (en þurft að gera það nafnlaust) segir okkur náttúrlega aðallega að þú sért þjakaður af biturð og minnimáttarkennd út í lífið.

  Ég ætlaði reyndar ekki að svara svona höstuglega, en ég varð bara svolítið pirraður… sorrí

  En í alvöru, ég sé ekki að það sé mikil typpakeppni í þessum samskiptum okkar. Meira svona, tveir menn sem hafa gaman að tónlist að fá tjáningarþörf sinni fullnægt.

  En það má víst ekki tala um neitt án þess skammast sín fyrir það.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.