Sagan bakvið lögin – Heiða

Mynd: Gunnar Gunnarsson

Ragnheiður Eiríksdóttir, betur þekkt sem Heiða í Hellvar og áður Heiða í Unun, er fertug um þessar mundir. Stúlkan hefur verið áberandi í tónlistarlífinu síðan hún sló rækilega í gegn með Unun um miðjan 10unda áratuginn, en hún byrjaði sinn hljómsveitarferil árið 1987 í Útúrdúr en þar lék á bassa Sverrir sem enn er að spila með henni í Hellvar og sem var í Texas Jesús sælla minninga. Sóló verkefnið Heiða Trúbador hefur verið til frá ’89 og ’93-4 var hún í Sovkhoz með töppum eins og Magga úr Dýrðinni og Jónasi úr Soma Og síðan hefur hellingur gerst, Unun, Heiða og Heiðingjarnir, harðkjarnasveitin Dys,  Eurovision og nú síðast Hellvar sem hún stofnaði árið 2004 með unnusta sínum, hinum geitaskeggjaða Elvari. Það væri til að æra óstöðugan að gera þessu góð skil hér, svo við snúum okkur bara að tónlistinni sjálfri.

Þar sem öllum landsmönnum og ömmu þeirra líka, hefur verið boðið á afmælistónleika Heiðu í kvöld, föstudaginn 28. janúar á Bakkus (sem er í sama húsi og Gaukurinn var), þá datt okkur í hug að fá Heiðu til að líta aðeins yfir smá hluta af ferlinum og spila nokkur tóndæmi í leiðinni, þrjú myndbönd og þrjú lög. Gefum Heiðu orðið:

 

Vé la gonzesse” með hljómsveitinni Unun. Lag eftir Gunnar Lárus Hjálmarsson. Það kom út á Æ sem var fyrsta plata Ununar og kom út árið 1994. Það var gaman að taka upp þessa plötu, vann í sjoppu á daginn og fór á kvöldin upp í stúdíó og söng, fannst allt sem ég sagði halló, því Gunni og Þór voru svo reyndir í svona stúdíóvinnu og ég bara súkkulaðikleina. Stóð mig prýðilega samt. Í þessu lagi hjálpaði ég heilmikið við textagerðina, enda tala ég frönsku eftir að ég bjó í Marseille. Vé la gonzesse er einmitt Marseille-slangur og þýðir “Sjáðu þessa gellu þarna”. Það voru einhverjir afskaplega frjóir og listrænir einstaklingar sem tóku það upp á sitt eindæmi að myndskreyta lagið og sendu okkur svo bara vhs-spólu með myndbandinu.

Ég vildi að einhver gerði svona fyrir Hellvar líka, það er svo mikið vesen að gera myndband. Við í Hellvar reyndum sko að taka upp myndband við lagið “Nowhere” og eigum nokkrar HD-spólur með efni, en klikkuðum á því að klippa saman. Ef einhver kann á myndbandagerð og vill klippa fyrir okkur myndband úr efninu sem til er (ókeypis) eða gera skreytingu eftir eigin höfði við lag að eigin vali (ókeypis) þá bara segi ég já takk!

Dauði kötturinn“. Lag sem Örlygur Smári og ég sömdum fyrir bíómyndina Didda og dauði kötturinn eftir Kikku, textinn er eftir Kikku (Kristlaugu Maríu Pétursdóttur). Myndin er frá árinu 2003 og myndbandið var tekið upp sumarið á undan. Man hvað það var ótrúlega frábært að taka þetta myndband upp, það var fullkomið veður og þessir krakkar þarna voru allir meira og minna ofvirkir og klifrandi í trjánum og hoppandi og skoppandi. Þetta hafði afar smitandi áhrif á mig og ég var orðin alveg snar-ofvirk sjálf þegar myndbandið var tilbúið. Mæli svo með myndinni við alla, hún er glæpamynd fyrir börn á öllum aldri.

Onthology and booze“. Lag og texti eftir mig. Óútkomið og verður á Heiðu trúbador-plötu sem er í vinnslu. Lagið er samið úti í Berlín eina andvökunóttina þegar ég var að hugsa allt of mikið. Hugsa stundum allt of mikið, og þá koma lög. Pælingin með textanum kom út frá hugtakinu “nýjar byrjanir” og “hálfnað verk þá hafið er”. Þú byrjar á einhverju og þá er það hálfnað, en hvað svo? Ég bið um að fá að klára hluti sem ég byrja á (eins og kannski þessa trúbadoraplötu). Svo er eitt erindi í laginu bæði á ensku og íslensku.

Like oatmeal cake and tea
I am in search of me
Onthology and booze
I am in search of you

á íslensku hljómar það:

Hafrakex og smér
ég er að leita að mér
Verufræði og vín
ég er að leita þín

Þess má geta að ég er við það að ljúka Meistararitgerð minni í heimspeki, og skrifa þar um þýska verufræði, svo bón mín í textanum hefur ef til vill borið árangur.

Þetta myndband er tekið á Trúbatrix off-venue-giggi á Airwaves 2008, og það voru hrikalega háværir Svíar á fylleríi þarna. Lét þá heyra það, og þá steinhéldu þeir kjafti.

Heiða – 103. mars (af plötunni Svarið, 2000)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þetta lag er skemmtilegt af rosalega mörgum ástæðum fyrir mig persónulega. Það var samið þegar ég bjó á Hávallagötunni í kjallara og hafði fengið gamalt 4-track reel-to-reel tæki lánað hjá Andrew McKenzie, vini mínum. Ég elska svona græju og fannst svo gaman að fá þetta gamla hlýja teip-sánd í heima-upptökur af demóum. Lagið og textinn birtust nánast í heilu lagi, og svo þegar ég var að gera 1. sólóplötuna mína Svarið með Curver árið 2000, þá ákváðum við að taka þetta upp á mjög furðulegum stað. Ég fékk hljómsveitina Geirfuglana til að mæta á neðanjarðarkvennaklósettið í Bankastræti og þar vorum við búin að setja upp stúdíó. Svo var bara talið í og lagið spilað og sungið inn þar. Ástæðan fyrir því að Bankastrætisklósettið varð fyrir valinu er að ég hafði verið að syngja eitthvað meðan ég var að þvo mér um hendurnar eftir pisserí einu sinni, og ég áttaði mig á þvi hvað það var flott náttúrulegt bergmál þarna. Röddin hljómaði bara rosalega vel þarna inni. Það er því lítið sem ekkert búið að eiga við röddina sem við heyrum á upptökunni, þetta er bara gamla góða Bankastrætisklósettsándið.

Þetta er lag og texti eftir Elvar minn, og samið fyrir hljómsveitina Heiðu og Heiðingjana, sem gerði plötuna 10 fingur upp til guðs árið 2003. Textinn er nú eitthvað djók bara, en lagið er sjúklega grípandi og auðvitað er soldið Sonic í þessu, án þess að það sé eitthvað afgerandi. Það furðulega við þetta lag er að það er bæði hrikalega einfalt og mjög flókið því það er kafli þarna í miðjunni þar sem eitt hljóðfæri heldur fjórskiptum takti en hin eru öll í þrískiptum takti. Það hefur eflaust verið hugmynd frá Bigga Baldurs, sem trommaði með Heiðingjunum. Ég var sú sem hélt fjórskipta á móti hinum öllum og það var sjúklega erfitt að gera það læf, þurfti alveg að kreista aftur augun og hætta að spila með hinum í bandinu og bara telja í hausnum 1,2,3,4,1,2…..en það tókst alltaf.

Nowhere er góð samvinna milli mín og Elvars og kom út á Hellvar-plötunni Bat out of Hellvar árið 2007. Upprunalega lagahugmyndin er frá Elvari og svo gerði ég einhverja sönglínu sem honum fannst ljót og ég þurfti svoleiðis að berjast fyrir, því mér fannst hún einmitt ekki ljót heldur flott. Honum fannst hún svo rosaflott skömmu síðar, því hún nefnilega vinnur á, og þetta er sönglínan í laginu í dag. Textinn er minn og fjallar um sálarástand nútímamannsins sem verður fyrir áreiti útvarps, sjónvarps, vef- og prentmiðla og finnst hann vera að kafna. Allt þetta áreiti leggst á taugakerfi fólks í dag og sumir bara höndla það ekki. Ég upplifði þetta soldið sterkt þegar ég kom aftur til Íslands eftir að hafa verið í Berlín í eitt ár, þar sem ég var ekki með sjónvarp og útvarp og skildi ekki þýskuna það vel, svo prentaðar auglýsingar höfðu ekki eins sterk áhrif á mig heldur. Ég slakaði alveg svakalega á og fannst ég frjáls undan einhverjum klafa, þar sem alltaf er verið að segja mér hvað ég eigi að gera: Keyptu þetta, farðu þangað, gerðu þetta,….ég fékk nett áfall þegar ég kom aftur til Íslands og skriðan féll á mig af fullum þunga. Svo hefur mig langað að semja lagatexta sem heitir NOWHERE síðan ég sá þetta orð skrifað á vegginn á kvennaklósettinu á Thomsen einu sinni. Finnst það lúkka svo vel, þetta orð.
 Hellvar

Og hvað er svo framundan hjá Hellvar?

Hellvar tók upp plötu fyrir síðustu jól sem nú er verið að dúlla við, mixa og gera umslag og svoleiðis. Platan mun heita Stop that Noise eftir einu laginu sem þar verður að finna. Stop that Noise sáum við á plaggati frá vinnueftirlitinu sem var að minna fólk á að nota eyrnahlífar, þetta var eitthvað svona heyrnarverndarátak. Á íslenska plaggatinu stóð Niður með hávaðann! en ég heillaðist af Stop that Noise og fannst einmitt að ég gæti samið texta sem fjallaði um svona noise sem fólk heyrir inni í hausnum á sér þegar það er að missa vitið. Ég sem gjarnan texta um fólk sem er ekki í andlegu jafnvægi, finnst það mjög auðvelt….hmmm? Segir það eitthvað um mig? Ja, það gæti sagt eitthvað um mig stundum, en ég er líka oft alveg pollróleg bara í jóga að dreypa á tebolla. En stelpan í textunum mínum er semsagt alltaf alveg að fara að snappa. Aftur að nýju Hellvar-plötunni: Fyrsti singull er lagið Ding an sich sem er þýskt heimspekihugtak ættað frá Immanuel Kant og þýðir Hluturinn í sjálfu sér. Textinn er um einhvern frumkraft sem allir hafa inni í sér og birtist í mismunandi myndum. Minn frumkraftur er rokk og ról og ég þarf að næra hann og senda hann út í heiminn. Platan er soldið góð, held ég. Aron Arnarsson tók hana upp og það er gaman að vinna með honum. Hann er mjög ákveðinn en á sama tíma virkilega hugmyndaríkur upptökustjóri. Hann kallaði fram það besta í öllum í Hellvar, og gerði það að verkum að upptökusessjónið, sem var ein helgi, varð bara eins og draumur. Nú bíðum við spennt eftir að fá fleiri mix og að platan verði tilbúin. Hún kemur út í mars, en fyrr á rafrænu formi á gogoyoko, en þar er núna hægt að fara og versla sér Ding an sich.

Njótið!

Hellvar, og hin stórkostlega æðislega Elana frá New York, spila á Bakkus í kvöld kl 21.15. Allir velkomnir og kostar ekkert inn. Aldurstakmark er þó eflaust í gildi, 20 ár hljómar t.d. skynsamlega. Bakkus er í sama húsi og gamli Gaukurinn, Sódóma er á efri hæðinni.

3 responses to “Sagan bakvið lögin – Heiða”

  1. The singers name is Heiða. She was the singer for Unun and is currently playing with a band called Hellvar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.