Viðtal við Mugison: Með tvær plötur í vinnslu

Það hafði frést að Mugison stefndi á útgáfu með hækkandi sól og reyndar kom í ljós að plöturnar eru tvær sem hann vinnur að. Rjóminn hafði samband og átti gott spjall við kappann með hjálp alnetsins þar sem hann sagði okkur m.a. frá plötunum, hinu heimasmíðaða mirstument og tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður.

Hvernig gengur vinna við nýja plötu? Eru lagasmíðar langt komnar?
Já, nokkuð langt komnar. Ég myndi segja að það væri ekki langt í land, þetta er bara spurning um tíma og vinnslu. Ég vona að platan komi snemma í sumar eða um mitt sumar. Ég stefni á að gefa eitt lag á netinu á næstu vikum.

Hvaða hátt hefur þú á vinnutímanum við lagasmíðarnar?
Ég reyni að vinna frá 8-4 og stundum þegar strákarnir eru sofnaðir. En maður vinnur aldrei alveg í 8 tíma. Ég er líka með útgáfuna og einhverra hluta vegna vinnur maður eiginlega aldrei meira en í 4 tíma og svo fer restin af deginum í að hlusta á músík, spila og spjalla við vini og helvítis fésið tekur oft einhvern óþarfa hálftíma. Þannig að þessir 8 tímar fara ekki í að búa til tónlist þó þeir ættu að gera það. Oft finnst mér betra að semja texta á kvöldin eða nóttunni hvernig sem á því stendur.

Hverjir koma til með að spila undir með þér á plötunni?
Ég veit það ekki. Eins og er er þetta bara kassagítarsplata sem ég vinn hérna heima en mig langar samt að henda í session og hluti af plötunni verði einhvers konar band. Það fer bara eftir því hverjir verða lausir þegar ég kýli á session en ég vona að það verði bara vinir og vandamenn. Sjáum til…

Mugiboogie var samsuða alls konar stíla, verður ný plata í ætt við hana?
Þessi íslenska plata er soldið svona blúsuð þjóðlög. Ónýtir gítarar og ég vona hún verði nú eitthvað öðruvísi. Ég stefni bara á góða plötu. Svo er ég náttúrulega að vinna í enskri plötu með mirstrumentinu mínu sem við Palli Einars bjuggum til. En ég veit ekki hvenær hún verður tilbúin, Palli er búinn að vera með mirstrumentið í viðgerð í mánuð. Það tekur tíma að læra á þetta kvikindi en ég var kominn ágætlega á leið áður en það fór í viðgerð. En hún verður meiri geðveiki vona ég. Annars veit maður aldrei, þetta bara gerist allt saman.

Mugison – Murr Murr

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Það hefur einmitt verið mikið rætt og ritað um þetta nýja hljóðfæri þitt “mirstrument”. Getur þú sagt okkur aðeins meira frá því?
Það er gamall draumur hjá mér að vera með eitt kit. Þeir sem eru duglegir að brasa á sínu eigin heimili, eiga sumarbústað eða eru áhugamenn um bíla eða hjól þekkja að þegar maður er með verkfærin sín útum allt þá fer svo mikill tími í að finna verkfærin, stilla þeim upp og allt það. Ég held að fólk þekki þessa löngun að hafa bara eitt megakit. Þaðan er hugmyndin komin því í gamla daga var ég með endalaust mikið af drasli með mér alltaf þegar ég var tölvutrúbador. Mig hefur lengi langað að fara þangað aftur og þetta er gömul pæling hjá mér og Palla Einars sem gerði þetta með mér. Við fundum svona hljómborðssetup frá framleiðanda sem heitir C-Thru Music og þetta byggir á einhverju sem heitir The Natural Harmonic Table en það sem þetta er í raun er bara alls konar drasl sem við tókum í sundur og settum í nýjan líkama. Svo fer hellings tími í að stilla þessu upp og græja hugbúnaðinn. Við notum mikið Reaktor sem er hugbúnaður frá Native Instruments og er skemmtilega opinn og ótrúlega öflugur. Það er samt komin lítil reynsla á að spila með þetta live þannig séð en það er gaman að leika sér á þetta. Ég var mjög duglegur að æfa mig síðasta sumar en ég þarf að finna meiri tíma, einhverja klukkutíma á dag, til að ná upp færni. En svo er líka hluti af þessu hljóðfæri svona ljósarigg sem er tengt við græjuna svo ég get staðið undir ljósunum, með gítarinn og móðurstöðina á gólfinu sem við erum að klára að smíða, en allt tekur þetta tíma. Þegar hugmyndin kviknaði þá fannst manni þetta geta gerst á tveimur dögum en svo eru bara bráðum tvö ár.

Ertu þá að stefna á að túra með minni mannskap með tilkomu mirstrument?
Ekkert endilega. Ég gaf út Mugiboogie sem er svona hljómsveitaplata með strákunum og þá var alveg nauðsynlegt að vera með bandið, líka af því að það var svo gaman að spila í hljómsveit. En núna langar mig líka að hafa þann valmöguleika að geta farið einn og þá ekki bara með kassagítar heldur með draslið með mér þannig að ég er kannski aftur að opna á þennan möguleika að vera einn, með þessa galdragræju. En alls ekki að loka á bandið. Það er bara soldið dýrt að túra með band. Fleiri flugmiðar, fleiri hótelherbergi, stærri bílar, leigja trommusett og magnara og þetta. Ég prófaði fyrir um ári að fara smá túr um Evrópu með mirstrumentið og ég gat gert það bara í lest og það munar um það. Hugmyndin er þá að geta farið með mirstrumentið og geta tekið þau gigg og svo þar sem að fólk er til í að borga betur að taka þá strákana með… skella í gott partý.

Mugison – I Want You

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Plötuumslögin þín hafa verið asni skemmtileg. Eru komnar hugmyndir að plötuumslagi?
Já, ég reyni að safna eins mikið af hugmyndum og ég get. Ég tek þær mikið upp á símann og krota niður. Ég er með fullt af hugmyndum og á síðustu stundu fer maður í dótakassann og bræðir saman nokkrar hugmyndir. Ég er samt ekki búinn að negla hvað ég ætla að gera. Ég er reyndar að gefa út fjögurra diska settið, Lonely Mountain, Monkey Music, Mugiboogie og Ítrekun saman í plastsetti, kannski helst hugsað fyrir túrista. Ég þarf að koma mér í að föndra, þeir eru að verða búnir hjá mér gömlu diskarnir. En vonandi get ég boðið uppá þetta í sumar.

En hvernig gengur undirbúningur á Aldrei fór ég suður?
Nokkuð vel. Við erum búnir að hittast nokkrum sinnum strákarnir og erum á leið í bæinn að finna hugsanlega styrktaraðila. Við vorum tæpir með að halda þetta í ár. Það var komin þreyta í mannskapinn, það er margt búið að breytast, þetta er að verða áttunda hátíðin og flestir komnir með börn sem áttu ekki börn fyrir og þetta náttúrulega heltekur okkur þennan tíma sem þetta stendur yfir og menn gera ekki mikið annað amk 10 daga í kringum þetta og svo er hellings undirbúningur fyrir það. Í gegnum tíðina hafa nokkrir dottið út og þetta var orðið spurning um hvort við þessir fáu sem voru eftir og fara alla leið ættum að nenna þessu. En svo erum við einhvern veginn búnir að gíra okkur í einhvern geggjaðan fílílng og leituðum til Ísafjarðarbæjar með að fá aðstoð frá þeim og virkja fólk til að hjálpa okkur, stækka hópinn. Ég held að við stækkum ekki mikið hátíðina uppúr þessu, hún er orðin ansi stór og flest allt gistirými undanfarin ár hefur verið uppbókað. Persónulega langar mig að þetta verði meira stuð, meiri gleði. Ekki það að þetta hafi ekki verið stöðug gleði… það er bara alltaf hægt að hafa meira gaman!

Rjóminn bíður með óþreyju eftir nýja efninu en lætur sér nægja í bili að kíkja á lagið “Stingum af” en það var frumflutt síðasta sumar á tónlistarhátíð á Laugarhóli á Ströndum. Mugison tók þetta myndband upp í heimastúdíóinu sínu í Súðavík og skellti inn á heimasíðu sína www.mugison.com. Ef vel er að gáð má sjá glitta í hið göldrótta mirstrument. Svo má auðvitað finna Mugison á Facebook og þar er líka Aldrei fór ég suður.

Mugison – Stingum af

One response to “Viðtal við Mugison: Með tvær plötur í vinnslu”

  1. […] Mugsion stóð við stóru orðin, en í viðtali við Rjómann nýverið lofaði hann brakandi fersku og glænýju lagi á næstu vikum. Smíðin er nú komið á […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.