Bright Eyes – People’s Key

Útgáfuár: 2011
Útgáfa:
Saddle Creek Records
Einkunn: 3,0

Það er erfitt að skilja á milli Bright Eyes og forsprakkans Conor Oberst. Conor er Bright Eyes og Bright Eyes er Conor þó í sveitinni séu alltaf fleiri en hann. Án hans væri ekki Bright Eyes. Nóg um það.

Hvernig fylgirðu eftir snilld?
Í mínum huga er Bright Eyes svolítill fangi glæstrar fortíðar. Það er erfitt að fylgja eftir eins frábærri plötu og Lifted or The Story Is in the Soil, Keep Your Ear to the Ground. Þó liðin séu 11 ár frá útkomu plötunnar og stórra yfirlýsinga um að Conor sé “Bob Dylan sinnar kynslóðar” miðar maður allt við þessa plötu. Það er talsverð pressa að gefa út snilld 19 ára.

Síðan hafa fylgt á eftir frábærar plötur eins og uppáhaldið mitt, Wide Awake it is morning, frá 2005 (eftir hana kallaði Rolling Stone hann besta lagahöfund í Ameríku) og aðrar heldur slakari.

Í mínum huga nær People’s Key alls ekki að ryðja Lifted… eða Wide Awake… af stallinum og er í raun aldrei nálægt því. Platan sem kom út 15. febrúar, á þrítugsafmæli Conors gæti verið síðasta platan undir Bright Eyes nafninu. Hann hefur oft sagt að aukasjálfið Bright Eyes hafi runnið sitt skeið og maður skilur alveg af hverju.

Ég er einnig orðinn hálfleiður á þessum eintölum sem plöturnar hafa oft byrjað á og eru gegnumgandandi á þessari plötu. Þetta er í mínum huga eitthvað flipp sem gat alveg verið sniðugt á einni og einni plötu en ekkert sem nauðsynlegt er að praktísera alltaf. Á People’s Key er það Denny Brewer, vinur Conors frá Texas sem blaðrar víða á plötunni og bætir ekki miklu við það sem annars hefði orðið.

Ekki platan sem breytir lífi þínu
Platan er í raun ágæt og ef maður hefði ekki hinar glæstu viðmiðanir þá þætti mér örugglega miklu betra. Textarnir eru flestir mjög flottir en lögin ná aldrei að stíga upp úr meðalmennskunni þó séu í raun ágæt. Ekkert kallar á mann sem algjör snilld eða eitthvað sem maður á eftir að hlusta á milljón sinnum næstu árin.

Conor hefur alltaf blandað skemmtilega saman áhrifum úr ýmsum áttum. Hann er einlægur þjóðlagasöngvari, æstur pönkari sem og heimsendaspámaður og sálarleitandi í senn.  Conor heggur í sama knérunn og oft áður og er heldur heimakær í tónlistarsköpuninni. Hann er smeykur við að fara langt frá því sem hann hefur gert áður sem er synd og skömm. Að gera eithvað nýtt er akkúrat það sem ég og aðrir aðdáendur Bright Eyes þurfa á að halda.

Uppáhaldslögin mín eru önnur smáskífan Haile Selassie sem er frábær slagari, Approximate Sunlight flottur rólegheitasöngur og píanótjillið Ladder Song sem er mínum dómi hápunktur plötunnar. Heildin er bara ekki alveg nógu sterk og hápunktarnir eru allt of fáir og rísa ekki nógu hátt. Auðvitað eru ekki allir sammála. NPR segir til dæmis að þessi plata sé hans albesta.

Hlustaðu á plötuna í heild sinni

15. mars koma Bright Eyes í heimsókn til mín til Chicago. Ég vonast innilega eftir algjörum snilldartónleikum og að platan fái nýja þýðingu fyrir mig eftir þá tónleika. Tónleikar breyta oft skoðun á plötum til hins betra. Vonandi á það við þessa plötu (því hún má alveg við því).

One response to “Bright Eyes – People’s Key”

  1. […] Rjóminn tók plötuna fyrir fyrr á árinu og má lesa dóminn um hana hér. […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.