Yuck – Yuck

Útgáfuár: 2011
Útgefandi:
Fat Possum
Einkunn: 3,5

(Streymdu plötunni hér að neðan og bættu hljóði við lestur)

Yuck var stofnuð seint árið 2009 af félögunum Daniel Blumberg og Max Bloom eftir brottför þeirra úr hinni ungu en vinsælu Cajun Dance Party. Yuck eru þau Daniel Blumberg, Max Bloom, Mariko Doi og Jonny Rogofff og þann 15.febrúar leit frumburður ensku hljómsveitarinnar dagsins ljós.

Pavement, Grandaddy, Dinousaur Jr. og margir fleiri koma í hugann þegar fyrsta lag plötunnar, Get Away, keyrist í gang og slacker-inn nýtur sín vel. Gítararar eru sementið sem heldur laginu saman og sumar og gleði sjást í hyllingum er ég sný mér að myrkrinu úti við með heyrnartólin á hausnum.
Sonic Youth
áhrifin á sveitina koma vel fram í laginu The Wall en sumarylurinn og áhyggjuleysi stefnunnar heldur undirrituðum nokkuð föstum. Lágar harmoníur og yfirkeyrt mix breiða yfir annars ekkert spes texta og fremur óspennandi laglínu.

Þristurinn, Shook Down, keyrir nostalgíuna í botn og lo-fi gítarar og ljúfur söngur minna undirritaðan á góða tíma sem táningur. Shook Down er sannarlega lagið til að smella á þegar brunað er í útleiguna í sumar með sólgleraugun, brosið og sólina í fyrirrúmi og eins og eina tambúrínu í aftursætinu. Frábært og notalegt lag. Yuck smellir svo óvænt aftur í fjórða gír og fer á flug í laginu Holing Out þar sem einfaldir en háværir gítarar fleyta öllu vel sem og feitur og hrár bassi undirstrikar áhrifin frá 9. og 10.áratug síðustu aldar. Lagið virkar þó frekar þunnt en laglínan bjargar því ágætlega. Vinnukonugrip með nóg af distortion er gott kaffi. Oftast.

Hér staldrar undirritaður örlítið við og hugsar hvort þetta sé ekki bara einfaldlega rip-off eða eitthvað sem hann hefur heyrt áður og virkar bara vel með þeim sem hafa flutt það áður. Sömuleiðis er hin hliðin tekin til ígrundunar að hér sé bókstaflega himnasending af frumburði stigin fram sem ekki einungis minnir á gamla og góða, heldur færir einnig nýtt fram. Hmm.

Suicide Policeman minnir nokkuð á James Mercer og co. í The Shins og hefur litla sérstöðu en gengur samt alveg upp. Ljúft lag en skilur þó lítið eftir sig þrátt fyrir skemmtilega pælingu, ….I could be your suicide policeman. Rómantísk pæling fyrir táningaangistina má hugleiða.

Vinnukonugripa/slacker-fílingurinn heldur áfram í Georgia, einum af tveimur smáskífum sem sveitin sendi frá sér á síðasta ári. Lagið er af mörgum talið gífurlega líkt hinu heilaga Friday I´m In Love eftir meistara The Cure en nær þó að halda ákveðinni sérstöðu. Það er líka alltaf töff að hafa stelpu í svona böndum og hér skín rödd Mariko Doi skærar en í öðrum lögum plötunnar.

Suck er lag sem klárlega gæti verið að nálgast tvítugt. Angist og ástaróður í lagi þar sem greint er frá vandkvæðum á trúarlegum aðstæðum einstaklings og því sem þeim aðstæðum fylgja. Undirritaður sér fyrir sér sveitina í sófa æfingarhúsnæðisins með gítara í kjöltum og hinn hárprúða trymbil í bakgrunni að grúva. Stutter fylgir eftir en blandast við forvera sinn. Lögin eru of svipuð í uppbyggingu og anda, því miður. Þó annað sé lágstemmdara gengur ekki að hafa þau samhliða, þó þau séu hin ágætustu í sitthvoru horninu.

Eftir Suck og Stutter er frekar erfitt að keyra upp stemmarann á ný en þau reyna það samt. Lagið Operation kryddar á rödduðum gíturum og ögn hraðari takt en keyrir þó ekki almennilega í gang fyrr en fremur seint og lagið passar ekki inn með Suck, Strutter og Sunday (sem fylgir Operation eftir).

Sunday er lag sem Stephen Malkmus (Pavement) hefði þess vel geta samið en hér eru það Yuck sem eiga heiðurinn. Lagið er ljúft og gefur gaum af nettum sunnudagsfíling. Smelltu laginu á með tebollann við eldhúsgluggann í morgunsólinni, þunn/ur! Eina instrumental lag plötunnar er Rose Gives A Lilly og er það jafnframt næstsíðasta lagið. Rose Gives A Lilly rennur frekar átakalaust inn í síðasta lag plötunnar og annað af smáskífulögum Yuck, Rubber. Þungt og þreytt líður það á surgi í bland við lágstemmda takt og spyr …should I give in? í tregafullum hljóðheimi af toga sem mætti líkja við skakkan og ölvaðan unglingspilt í tilvistarkreppu sem ákvað að semja lag. Fyrir vikið verður lagið melonkólískt mjög en þó nokkuð kraftmikið. Ágætis endir á plötu sem myndi án efa flokkast sem bi-polar sjúklingur ef hún væri mannleg.

Yuck er sannarlega frábær frumburður. Platan minnir á góða tíma og kveikir bæði í hamingju og depurð. Hér er alls ekkert nýtt að finna, heldur einungis krakka sem hlusta mikið á indie/slacker/shoegaze-risana og ákváðu að stofna band og semja músík. Ég mæli eindregið með því að fólk athugi þessa plötu! Sjálfsagt eru margir sem eru sáttir við plötusafnið í þessum geira og vilja bara halda því óhreyfðu en sömuleiðis eru án efa nokkrir sem vilja bæta smá Yuck (ísl. viðbrögð við viðbjóði) inn á sín heimili.

Bjartasti punktur þessa frumburðar er án efa sá að hann veitir æsku dagsins í dag að uppgötva þennan sérstaka hljóm sem mörg okkar uppgötvuðum sjálf sem unglingar.
Skoðum Yuck sem eldbera ákveðins gulltíma í tónlist af þessum toga inn í tónlist dagsins í dag fremur en surgandi eftirhermur.

Hvað finnst þér?
Streymdu Yuck með Yuck HÉR og sjáðu til!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.