Útgáfutónleikar Agent Fresco

Ljósmyndir: Daníel Pétursson – www.danielpeturs.com

Fimmtudaginn síðastliðinn héldu penni og ljósmyndari Rjómans á útgáfutónleika Agent Fresco vegna plötunnar A Long Time Listening sem kom út seint á síðasta ári á vegum Record Records.

Ansi viðeigandi var að tónleikarnir skyldu vera haldnir í Austurbæ, en það var einmitt þar, fyrir þremur árum, sem Agent Fresco steig í fyrsta sinn á svið – á undankvöldi Músíktilrauna, sem hljómsveitin svo vann. Austurbær hefur á sér hátíðarbrag sem hentaði vel fyrir kvöldið þar sem öllu var tjaldað til eins og átti eftir að koma í ljós. Gaman hlýtur að hafa verið fyrir strákana að halda útgáfutónleikana þarna, líka í ljósi þess að venjan er að þeir troðfylli bari Reykjavíkur en sjaldgæfara að þeir spili á stöðum þar sem setið er.  Svo er alltaf gaman að fá tækifæri til að fara á tónleika í Austurbæ, þar sem lítið hefur farið fyrir þeim undanfarið og þótt undirrituð sé algjört tónleikadýr má telja upplifða tónleika í Austurbæ á fingrum annarrar handar.

Það er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þetta örlagaríka kvöld á Músíktilraunum 2008. Í raun voru þessir tónleikar einskonar endurfæðing hljómsveitarinnar, úr Músíktilraunahljómsveit yfir í eina þéttustu hljómsveit landsins. Krafturinn lét að sér kveða allt frá fyrsta lagi,  hinu draumkennda „Anemoi“ og var ljóst á upphafstónunum að stórtónleikar voru í vændum. Gæsahúðin gerði vart við sig, sem er tvímælalaust gæðastimpill. Greinilegt var að áhorfendur voru því sammála en mikil fagnaðarlæti brutust út að laginu loknu og áttu eftir að halda áfram það sem eftir var kvöldsins. Tilkynnt var í upphafi tónleikanna að platan sem verið var að fagna þetta kvöld yrði spiluð í heild sinni en á henni eru 17 lög sem mikilvægt er að hlusta á í réttri röð fyrir heildaráhrif.  Þannig fæst betri tilfinning fyrir gríðarlega flottum lagasmíðunum og samhengi laganna. Þau eru þó vissulega missterk og uppskáru þekktari lögin (sem áður höfðu komið út á stuttskífunni Lightbulb Universe) mestu fagnaðarlætin á tónleikunum, eins og við var að búast.

„Anemoi“

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

A Long Time Listening er heillandi plata sem vinnur á við hverja hlustun og er magnað hversu flottir hljóðfæraleikarar strákarnir eru, hver á sínu sviði. Þeir voru í fantaformi og var greinilegt að þeir höfðu lagt allt í þessa tónleika. Mikið var um gestagang en þó hljómsveitin sjálf í forgrunni eins og klæðaburðurinn bar vitni um, en strákarnir fjórir voru allir klæddir í hvíta boli og svartar buxur en gestaleikarar í svörtu frá toppi til táar. Strengjakvintett lék listir sínar í nokkrum lögum, í öðrum voru auka hljóðfæraleikarar mættir til að hjálpa (rokkuð harmonikka, töff!), þar á meðal gamli bassaleikari hljómsveitarinnar, Borgþór. Haukur Heiðar, söngvari Diktu, söng bakraddir í nánast öllum lögum og gerði það mikið fyrir tónleikana. Þegar hann tók yfir laglínu Arnórs söngvara í „Translations“ var þó ljóst að karaktereinkenni raddar Arnórs er hljómsveitinni algjörlega nauðsynleg en Patton-öskrin hans hafa einmitt aldrei hljómað betur en þetta kvöld.

„A Long Time Listening“

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Einn af hápunktum kvöldsins var tvímælalaust þegar inn á sviðið gekk kór samsettur af vinum strákanna úr tónlistarheiminum til að leggja hönd á plóg í titillagi plötunnar, „A Long Time Listening“ – sem inniheldur mest grípandi laglínur sem ég hef heyrt lengi. Verst er að lítið heyrðist í kórnum til að byrja með en hann sótti í sig veðrið eftir því sem leið á lagið. Á hæla þess var vaðið í hið fallega „In the Dirtiest Deep of Hope“ þar sem söngur Arnórs og píanóspil Þórarins gítarleikara tvinnuðust saman á meðan áhorfendur sátu sem fastast, dáleiddir. Er þetta enn eitt dæmi um mikilfengi þessarar sveitar, sem getur á nokkrum mínútum farið úr hinu harðasta rokki í viðkvæmar og ljúfsárar melódíur sem fá hárin til þess að rísa á hausnum. Í því liggur styrkur Agent Fresco.

„In the Dirtiest Deep of Hope“

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Gert var hlé á tónleikunum um miðbik plötunnar sem hentaði ágætlega, enda mikið að gerast í lögunum og fínt að fá smá pásu.  Austurbær var gjörsamlega troðinn þetta kvöld enda uppselt og meiraðsegja tvíbókað í sum sætanna svo að margir þurftu frá að hverfa. Áhorfendur voru af öllum stærðum og gerðum og virtust allir skemmta sér vel. Áhorfendurnir voru þó í yngri kantinum þar sem tónleikarnir voru opnir öllum aldurshópum og mættu fleiri hljómsveitir taka sér það til fyrirmyndar.

Eftir hlé var krafturinn hvergi farinn að þverra og keyrt var í lög á borð við stuðlagið „Implosions“, hið brothætta „Pianissimo“ og „Above These City Lights“, en í því sást glöggt hversu vel hljómsveitin hefur þróað tónlistina sína. Strengjum var þó ofaukið í laginu og óþarfi að hlaða á það enda stendur það vel í hráleika sínum. Reyndar heyrðist almennt ekki nóg í strengjunum á tónleikunum og er það miður. Almennt séð runnu þó tónleikarnir ótrúlega smurt í gegn og er óhætt að segja að Agent Fresco hafi aldrei hljómað betur. Ein og ein feilnóta kann að hafa hljómað en það er ekki einu sinni þess virði að fjalla um þegar heildin er eins glæsileg og raun ber vitni. Við lok tónleikanna sást glöggt hversu hrærðir strákarnir voru og var ljóst að allir fóru sáttir úr Austurbæ. Með þessari plötu og tónleikum hefur Agent Fresco tekist að skapa fullkominn hljóðheim og er bara tímaspursmál hvenær þeir fara að spila á risasviðum úti í heimi með grúppíur á hælunum – þeir hafa að minnsta kosti alla burði til þess.

[nggallery id=1]

3 responses to “Útgáfutónleikar Agent Fresco”

  1. Maggi says:

    Geðveikar myndir, meira svona! 🙂

  2. […] myndir frá tónleikunum eru aðgengilegar á  Rjómanum. This entry was posted in Atburðir, Tónleikar. Bookmark the permalink. ← Alltof langt […]

  3. […] Fresco fer mikinn þessa dagana en drengirnir héldu fyrir skemmstu afar vel heppnaða útgáfutónleika í Austurbæ. Þá fengu þeir þrjár tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna, sem […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.