Agent Fresco og Orphic Oxtra eru Rafmagnslaus á Norðurpólnum

Á fimmtudagskvöldið kemur verða haldnir fyrstu tónleikarnir í nýrri tónleikaröð sem ber heitið Rafmagnslaust á Norðurpólnum. Eins og nafnið bendir til fara tónleikarnir fram í húsnæði Norðurpólsins úti á Seltjarnarnesi og verður eins lítið rafmagn og kostur er notað til flutningsins. Á hverju tónleikakvöldi koma fram tvær ólíkar hljómsveitir í sitt hvoru lagi ásamt því að eiga með sér samstarf í einhverri mynd en það er síðan í höndum hljómsveitanna að útfæra það frekar.

Balkansveitin Orphic Oxtra og hinir mögnuðu Agent Fresco fá þann heiður að hefja tónleikaröðina á fimmtudagskvöldið. Hróður hinnar 13 manna gleðisveitar Orphic Oxtra hefur farið mjög vaxandi en hljómsveitin spilar lífræna, dansvæna tónlist undir balkan áhrifum. Fyrsta plata þeirra, sem ber titil hljómsveitarinnar, kom út 1. nóvember síðastliðinn og er afar skemmtileg viðbót við íslenskt tónlistarlíf. Sveitin kom fram á Aldrei fór ég suður og Airwaves í fyrra en hún hefur vakið athygli fyrir hressandi sviðsframkomu og mikla spilagleði.

Agent Fresco fer mikinn þessa dagana en drengirnir héldu fyrir skemmstu afar vel heppnaða útgáfutónleika í Austurbæ. Þá fengu þeir þrjár tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna, sem tónlistarflytjandi ársins, rödd ársins og fyrir hljómplötu ársins en auk þess eru þeir tilnefndir til menningarverðlauna DV fyrir árið 2010. Í janúar síðastliðnum komu þeir fram í Danmörku með akústískt sett ásamt Mugison og Lay Low við mjög góðar undirtektir.

Miðaverð er 1500 krónur og fæst 10% afsláttur í Lucky Records við Hverfisgötu gegn framvísun miðans. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl.21:00 og opnar húsið kl.20:00. Rjóminn verður á staðnum og fylgist með.

Agent Fresco – Eyes of a Cloud Catcher (acoustic)

Orphic Oxtra – Núna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.