Agent Fresco og Orphic Oxtra á Norðurpólnum

,,Ef að rafmagnið væri tekið af gæti þetta fólk ekkert spilað” segir Afi minn og kímir. Þannig gerir hann lítið úr nútímatónlist; söngkonum sem hvísla í míkrófóna og teknóhausum sem lesa ekki nótur. Þó að hann hafi eflaust mikið til síns máls þá á slík fullyrðing svo sannarlega ekki við um tónleika Agent Fresco og Orphic Oxtra þann þriðja mars síðastliðinn. Tónleikarnir voru þeir fyrstu í tónleikaröð Norðurpólsins. Þar eru tvö bönd fengin hverju sinni til að spila órafmagnað sett, en einnig vinna að einhverri list saman.

Áhorfendur er furðu margir miðað við framboðið á tónleikum þetta kvöldið, sem og þá staðreynd að tónleikarnir eru haldnir í gamalli plastversmiðju úti á Seltjarnarnesi. Ljós lýsa daufri birtu á gömul húsgögn innan um tóma steinsteypuveggi, líkt og í listamannahústöku einhverrar stórborgar Evrópu.

Eðlislögmál smekks míns

Agent Fresco koma sér fyrir á huggulega heimilislegu sviðinu og telja í fyrsta lagið, “Anemoi.” Það er langt síðan ég gafst upp á að reyna að fíla ekki Agent Fresco. Samkvæmt öllum eðlislögmálum smekks míns ætti ég ekki að þola músíkina sem þeir gera. En Agent Fresco brjóta líka öll þau ómerkilegu lögmál sem tónlistarskríbentar og skilgreiningapervertar hafa sett um venjuleg mörk stefna og stíla. Þeir spila þungarokk sem amma mín gæti fílað, popp sem metalhausar syngja með, stærðfræðióperu fyrir sýrujazzara o.s.frv.

Eins kröftugir og Fresco geta verið með rafmagni, þá er það á hreinu að á órafmögnuðum tónleikum skína frábærar lagasmíðarnar betur í gegn. Þeir eru líka vel æfðir í listinni eftir heilt sumar í sumarstarfi hjá Reykjavíkurborg við það eitt að útsetja lögin sín órafmagnað og einnig frábæra ,,acoustic”-tónleika í norræna húsinu síðustu tvær Airwaves-hátíðir.

Það tekur Arnór söngvara svolitla stund að komast í gang. Þegar komið er að “Silhouette Palette” hafa vatnssopi og ræskingar, slípað raddböndin og allt smellur saman. Hann lifir sig af öllum sálarkröftum inn í lögin, líkaminn fylgir hljómunum, taktinum, melódíunni, orðunum. Nærveran er áþreyfanleg, og þó að ég skilja engan veginn hvað textarnir (sem eru einstaklega abstrakt) þýða, er hægt að lesa tilfinningarnar úr svipbrigðum söngvarans.

(Agent Fresco, Ég mana ykkur í að gera svona Radiohead-dansmyndband við eitthvað af lögunum ykkar, Arnór á mun áhugaverðari dansspor heldur en Thom Yorke)

Eitt af því fáa sem mér leiðist þó við Agent Fresco eru hinar, af því er virðist, algjörlega tilgangslausu taktæfingarnar í lok nokkurra laga. Baramm….Bamm… Barammbammbamm…. bamm… … … bamm bamm baramm… þið vitið hvað ég meina. Eini tilgangurinn sem mér dettur í hug er að fokka í þeim sem eru að slamma á tónleikum. Ekki gæti ég slammað í takt við þetta.

En allavega. Fresco renna í rúmlega 10 lög, þar á meðal alla helstu slagarana. Hápunktarnir eru að mínu mati þau lög sem leikin eru á píanó: “Almost at a Whisper”/”Pianossimo” er sterkt og “Eyes of a Cloud Catcher” epískt að venju. Í heildina er þetta alveg frábær frammistaða hjá sveitinni.

Eftir stutt hlé mæta Fresco aftur á svið ásamt krökkunum úr Orphic Oxtra og flytja gjörning sem inniheldur m.a. mynband af háhæluðum skóm að kremja pulsu, 10 rafmagnsgítara spilandi Smoke on the Water og ,,költ”-ískan upplestur úr orðum Hildar og Lindu (partýhaldara landsins).

Sígaunar á amfetamíni

Eftir þessa djöflasýru stíga balkanrokkararnir í Orphic Oxtra á svið og byrja á “Núna”. Hljómsveitina skipa 10 manns: á trommur, bassa, píanó, fiðlu, básúnu, saxófón, trompet, flautu og tvö horn.

Fyrir fólkið sem skilur ekki fræðin á bakvið tónlist Orphic (þ.m.t. undirritaðan), mætti segja að balkansveifla sveitarinnar hljómi kaótísk en grípandi og alveg glæpsamlega dansvæn; líkt og sígaunar á amfetamíni. Það er þó líka greinanleg áhrif á rokktónlist og jazzi.

Slagarar á borð við “Hey” og “Adrian” af frumrauninni (samnefndri sveitinni) fá að hljóma og ég bölva skorti á dansrými fyrir framan sviðið. Þar sem ég fæ ekki að dansa ferðast ég í huganum til meginlands Evrópu og hugsa til þjóðarinnar sem gaf okkur þennan magnaða tónlistararf, en er hötuð hvar sem hún fer. En um leið og Orphic Oxtra byrja á lokalaginu, búlgörsku þjóðlagi í eigin útsetningu, gleymi ég þjáningum Róma-fólksins og dilli mér í sætinu.

Æsingurinn í sóló-i Helga saxófónleikara verður ofboðslegur, hann skoppar um sviðið og blæs tóna sem ég hvorki vissi að mætti, né hægt væri að, spila. Hann er einhverstaðar á milli þess að líta út eins og free-jazzari í trans og ofvirkur krakki í barnaafmæli. Klikkað stöff!

Gleðivíman í blóðinu sýnir sig í brosi á andlitinu mínu þegar ég geng út undir stjörnubjartan Seltjarnarneshimininn. Ég horfi út á ljósin frá Akranesi, hlusta á sjóinn og velti því fyrir mér hvort að ég ætti að finna mér partý. Meistara Megas skýtur upp í kollinn á mér og ég raula fyrir munni:

“Og ef ekki býðst neitt partý eftir ballið er allavega hægt um vik // að eigra út á Seltjarnarnes og drekkja sér í sjónum augnablik
oooóó, Reykjavíkurnætur…”

Meðfylgjandi eru myndir sem ljósmyndari Rjómans Daníel Pétursson tók.

[nggallery id=3]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.