Sin Fang – Summer Echoes

Útgáfuár: 2011
Útgefandi: Kimi Records
Einkunn:4,5

Afkastasemi er orð sem þarf vart að kynna fyrir Sindra Má Sigfússyni enda afköst tónlistarmannsins, sem kennt sig hefur við hljómsveitina Seabear, Sin Fang Bous og nú loks Sin Fang, verið gífurleg á undanförnum árum. Ekki einungis gífurleg í magni, heldur gífurleg í gæðum sömuleiðis.

Sindri Már sprettur hér fram sem Sin Fang með plötuna Summer Echoes og má svo sannarlega segja að titill plötunnar gefi nákvæman gaum af innihaldinu. Sin Fang hefur fært okkur gjöf, sumargjöf fylltri hlýju, auðmýkt og fegurð á köldum degi þó enn séu 42 dagar eftir af vetri þegar þetta er skrifað.

Strax við fyrstu tóna er hlustanda fleytt áfram með smjörmjúkum vókalískum harmoníum í bland við akústískar strengjaútsetningar í polli af frábærum töktum í lögunum Easier og Bruises og þemað er sett. Raddútsetningar í samblandi við tónlist Sin Fang fá hlustanda til að skipta litlu um textasmíð, heldur svífa frekar með augun lokuð, heyra fuglasöng og finna hlýju sumars í algleymingi.

Sin Fang – Fall Down Slow

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Fall Down Slow opnar mun poppaðari pælingar og opnast á yljandi úkelele sem hristist svo vel yfir í poppaðan takt og hefbundnari gítarútsetningar og vellíðun er allsráðandi.

Smáskífan Because of The Blood opnast svo varlega með synthum og hugljúfum harmoníum en keyrir í kassagítarstuð með draumkennda rödd Sindra Más í forgrunni. Þó Sindri sé án efa ekki besti söngvari heimsins hefur þessi rödd og sú einlægni og auðmýkt sem yfir henni býr, gríðarleg áhrif á það hvernig tónlist Sin Fang er túlkuð og kemst til skila. Sem er frábær kostur hjá listamanni sem þessum.

Rituals mætti líkja við sumarkvöld þegar sólin tekur að síga seint um kvöld og himininn skiptir litum. Gítarar eru hér ögn framar í grunninum en áður á plötunni og strengjaútsetningar vægast sagt frábærar. Hlustandi fer hægt og rólega að skilja rödd Sindra Más sem hljóðfæri í stað forgrunns í tónlistinni. Hvernig röddin blandast alsælukenndri tónlistinni og verður partur af henni í stað aðskildur hlutur er einstaklega fallegt og skemmtilegt. Ættbálkalegt groove í lokin fullkomnar frábært lag.

Textar verða loksins afar áheyranlegir og vel ortir í Always Everything og suðræn stemming hvílir yfir laginu sem er hið notalegasta og virðist engum áhrifum né stefnum sneydd. Æði.

Áhrifunum fjölgar ef eitthvað er í Sing From Dream þar sem ómandi raddútsetningar í bland við hip-hop ættaða takta þar sem hlustandi kemst seint frá því að dilla sér og slá í takt. Lagið er svo slegið niður í píanó af Thom Yorke skólanum og líður út af eins og barn sem hefur hoppað og dansað tímunum saman. Mætti skilja lokakafla lagsins sem forgrunn fyrir komandi rólegheit næstu laga.

Þó rólegheit séu kannski ekki rétta orðið hægist aðeins á Summer Echoes í Nineteen og loks Choir, folk-skotnu kassagítarlagi sem þenur sig til og frá stuðinu sem fyrir var á plötunni á einstaklega vel heppnaðan hátt. Stysta lag plötunnar en jafnframt eitt það fallegasta er Two Boys en hér kveður við nýjan tón á plötunni. Draumkenndar raddir og píanó segja sögu tveggja drengja og hörpustrengir keyra undir gæsahúðina sem færa hlustanda inn í Nothings. Endirinn er nærri og lagið virkar vel sem næstsíðasta lag Summer Echoes.

Sin Fang – Choir

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Slow Lights endar eina af magnþrungnustu plötum ársins (án efa) en er þó furðulega valið sem lokalag. Þó, ef rýnt er aðeins í textann, kemst maður að því að þetta virkar bara ágætlega. Gítarar eru funky til að byrja með og margbreytileiki annarra laga plötunnar skilar sér hér sömuleiðis. Lagið endar þó á fremur óspennandi hátt miðað við það sem á undan er gengið.

Summer Echoes heillaði við fyrstu hlustun. Hún yljar, hún kætir, hún grætir og jafnvel svæfir á köflum. Hér er komin alvöru sumarplata fyrir okkur Íslendinga og það íslensk plata. Þó frostið bíti og snjórinn fenni okkur í kaf þessa dagana, getum við heyrt sumarið óma í formi tónlistar Sindra Más Sigfússonar, Sin Fang og beðið eftir því að komandi sumar taki okkur með sér með sól í hjarta og Summer Echoes með Sin Fang í eyrum.

Plötu Sin Fang, Summer Echoes, má nálgast hjá vinum okkar á gogoyoko.com

2 responses to “Sin Fang – Summer Echoes”

  1. […] Búast má við þéttu setti enda sveitin nýbúin að senda frá sér nýja plötu (Rjómadómur hér) og því í […]

  2. […] gær kom út nýtt myndband við lagið „Two Boys“, af plötunni Summer Echoes, með hljómsveitinni Sin […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.