• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Nýtt frá Papa Topo

Unglingarnir í Papa Topo slógu rækilega í gegn (á Spáni) í fyrra með hinu gjörsamlega óþolandi, og grípandi, lagi “Oso Panda“, og fylgdu því eftir með sykursætu sumarpoppi sem útlagðist á íslensku “Það besta við sumarið er að borða ís” (Lo que me gusta del verano es poder tomar helado). Það er ekki loku fyrir það skotið að ég hafi heillast eilítið af barnslegri einlægni þeirra og fullkomnu kæruleysi, en í tónlist þeirra er áberandi alveg arfaslakur trommuheili, hljómborð sem eru við það að gefa upp öndina, ógrynni af handklappi og ómótstæðilegar laglínur og raddanir.

Sveitin hefur enn ekki gefið út plötu, en önnur smáskífa þeirra er að detta í verslanir og myndband við lagið “La Chica Vampira” leit dagsins ljós á miðnætti á sunnudagskvöldið. Þau hafa nú varpað sætleikanum fyrir róða, miðað við aldur og fyrri störf í það minnsta, og nú er þetta bara brjálað pönk, surf og blóð. Já og fólki drekkt í klósetti. Það er ekki að ósekju að þau hafa verið kölluð “teenage monsters in twee clothing”. *

Það er áfram gamli góði trommuheilinn, rifnari gítar og alveg ógrynni af grípandi línum. Og auðvitað syngja þau bara á spænsku og enginn skilur neitt, og það er bara alveg frábært. Hérna er nýja myndbandið:

Papa Topo á Facebook | Elefant Records
* blog.mtviggy.com

Leave a Reply