Eddie Vedder með nýtt

Gruggbarkinn Eddie Vedder stefnir á útgáfu sinnar annarrar sólóplötu þann 31.maí nk. Vedder, sem vakti gífurlega athygli fyrir lög sín við kvikmynd Sean Penn, Into The Wild, hefur nú tilkynnt að nýja platan muni einungis státa af úkelele-leiknum lögum og hefur hann tilkynnt nokkra gesti sem koma við sögu á plötunni.

Platan hefur fengið hið einfalda nafn Ukelele Songs og mun koma út hjá Monkeywrench Records sem er í eigu Vedder og félaga í Pearl Jam. Gestir plötunnar eru ekki af verri endanum en þeir sem vitað er um eins og af eru þau Glen Hansard (The Swell Season) og Chan Marshall (Cat Power). Marshall hefur áður unnið með Vedder en söngvarinn gestaði á plötu Cat Power frá árinu 2003, You Are Free.
Glen Hansard mun aðstoða Vedder í laginu Sleepless Nights á meðan Cat Power verður honum til halds og trausts í laginu Tonight You Belong To Me.

Spennandi verður að sjá hvernig ein vinsælasta rödd gruggrokksins í gegnum tíðina prísar sig með aðeins úkelele að vopni en glöggir aðdáendur söngvarans hafa tekið eftir því að söngvarinn þarf oft ekki mikið meira en barkann á sér til að heilla. Eddie Vedder hefur lengi haft unun af Hawaii-eyjum og brimbrettum og þykir því þessi tónlistarþróun kappans vart óeðlileg.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.