The Strokes – Angles

Útgáfuár: 2011
Útgefandi: RCA/Rough Trade
Einkunn: 4

Fjórða breiðskífa óskadrengja New York borgar The Strokes, Angles, hefur nú loksins litið dagsins ljós, fjórum árum eftir útkomu First Impressions of Earth (2006).

Julian Casablancas og félagar hafa lýst upptökuferlinu á Angles sem bæði andlega erfiðu og pirrandi verkefni þar sem ágreiningur innan sveitarinnar hafi litað hljóðverið frá fyrsta degi fram að þeim síðasta. Varð raunin sú að meðlimir tóku í raun plötuna upp í sitthvoru lagi en hittust svo loks til að fara yfir lokasamþjöppun plötunnar. Casablancas, sem gaf út sína fyrstu sólóplötu, Phrazes For The Young, árið 2009, smyr Angles með áhrifum frá 9.áratuginum og elektróník á meðan félagar hans í The Strokes minna hlustendur á frumburð sveitarinnar, Is This It, frá 2001.

Angles hefst á laginu Machu Picchu þar sem bein áhrif frá verkum Casablancas utan Strokes blandast gíturum Albert Hammond Jr. og Nick Valensi. Góð blanda! Gítarútsetningarnar eru feikilega skemmtilegar og lagið virkar mjúkt en hrátt. Ofboðslega er gott að heyra þessa drengi saman aftur á plötu.

Fyrsta smáskífa plötunnar, Under Cover of Darkness, er tvisturinn og rífur upp stuðið. Tjúttari með hressum gíturum og töktum sem virka vel til að dilla sér. Ósamræmdir gítarar Hammond Jr. og Valensi í samblandi við raul Casablancas og fastan rhytma þeirra Fabrizio Moretti og Nikolai Fraiture gera lagið að einu sterkasta djæfi plötunnar.

Nýbylgjupopparinn Two Kinds of Happiness drífur vel eftir stuðið í forvera sínum og keyrir í kraftmikið viðlag. Lagið hefði sómað sér ágætlega á vinsældarlistum 9.áratugarins og án efa staðið ágætlega samhliða risum nýbylgjurokksins. Þó hefur lagið þennan sérstaka Strokes-keim og gengur þar afleiðandi vel upp. Góð uppvakning sem leiðir þó í hið óspennandi You´re So Right. Laglína Casablancas virkar einhæf og þreytt og lagið gleymist fljótt. Algjör synd það en ekki er hægt að segja það sama um fimmuna, Taken For A Fool. Lagið minnir vel á upphafsár sveitarinnar og laglínan er fjölbreytt og gítarar spennandi og áhugaverðir. Töffarastælarnir eru allsráðandi og lyktin af leðri, nýjum gítarstrengjum og strætum New York borgar finnst út um hátalarana.

Grúvið og dansgólfið býður Games velkomið en þar ríður bassaleikarinn Fraiture vel á vaðið. Lagið er greinilega hægt að tengja við einstaklingspælingar Casablancas en þó er Nick Valensi einnig titlaður sem höfundur lagsins.

Call Me Back er hugljúf og einlæg blanda þar sem tregi og hógværð mætast. Lagið líður fallega í gegn og mætti vel kalla ballöðu Angles. Frábært lag sem hlustandi hefði þó vilja heyra í lok plötunnar. Gratisfaction hendir þó aftur í góða blöndu þar sem partýið er keyrt aftur upp á ögn öðruvísi hátt en áður og hlustandi finnur sig dillandi mjöðmum og þyrstan í hópfögnuð með léttum veigum. Fíl gúd poppari plötunnar án nokkurs vafa.

Hröð efnaskipti í Metabolism sjá til þess að partýið er enn í fullu fjöri. Þó eru einhverjir farnir að lúra sér og örlítill tregi einkennir þetta annars ljúfa lag. Eitthvert myrkur breiðist þó yfir og blendnar tilfinngar skjótast fram. Lagið virkar ansi vel sem næstsíðasta lag plötunnar og lífið virðist einfalt í tunglskininu. Life is Simple in The Moonlight flæðir vel í gegn og minnir nokkuð á fyrri verk sveitarinnar. Bæði af Is This It og Room on Fire. Seiðandi flæðið í laginu skilur hlustanda eftir sáttan.

Fjórða breiðskífa The Strokes er líklega ekki sú besta við fyrstu hlustun en þó, ágerist og ávinnst hún því oftar sem henni er rennt í gegn. Einnig er gaman að heyra að Julian Casablancas er nú farinn að koma félögum sínum mun meira inn í lagasmíðar sveitarinnar.
Aðdáendur sveitarinnar ættu alls ekki að verða fyrir vonbrigðum og höfundur telur svo sannarlega að sveitin öðlist enn fleiri aðdáendur á komandi misserum. Því þótt grunnurinn sé mestmegnis keyrður í svipuðum dúr og fyrri verk sveitarinnar er ofanálagið og keimurinn ferskur og nýr og það er ljúft.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.