Agent Fresco í Víking og Vídjó

Agent Fresco eru vart þekktir fyrir að sitja á afturendanum og glápa á blámann en í dag sendi sveitin frá sér myndband við lagið Implosions af plötunni A Long Time Listening, sem út kom seint á síðasta ári. Myndbandið var skotið af ljósmyndaranum Jónatani Grétarssyni þegar sveitin sat fyrir hjá kauða fyrr á árinu en Jónatan notaðist einungis við eina myndavél við verkið. Þykir útkoman ansi góð og tilurðin engu síðri. Sveitin  ber járnið vel á meðan það er heitt og heldur í víking um miðbik júnímánaðar nk. (n.t.t. 16.júní) Sveitin mun þá halda tónleika í Þýskalandi, Slóvakíu, Tékklandi, Hollandi, Sviss og Póllandi en ferðinni er einnig haldið á hina margrómuðu Hróarskelduhátíð í Danmörku. Þar mun Agent Fresco fylla landann stolti á Pavilion Junior sviði hátíðarinnar þann 28. og 29.júní.

Til þess að halda út með sjálfstraustið í botni ætlar sveitin að troða upp á Sódóma Reykjavík þann 1.júní nk. ásamt Benny Crespo´s Gang, Valdimar og Andvari. Eru íslenskir tónlistarunnendur þar með hvattir til að sýna stuðning og óska þeim góðrar ferðar en aðgangseyrir er aðeins 1000 krónur og dyrnar opna kl. 22.00. Æstir aðdáendur sem ókunnugir áhugamenn geta einnig sótt nýjustu smáskífu sveitarinnar, Implosions, hér. Gjaldfrjálst.

Rjóminn vill nota tækifærið og óska Agent Fresco alls hins besta í komandi ævintýrum á erlendri sem innlendri grund.

Mynd: manusbooking.com

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.