Ellismellur: Handskrift Khonnors

Orðið ellismellur hefur þessa merkingu í huga mér: eitthvað sem tilheyrir ekki okkar tíma en er samt brakandi ferskt og skemmtilegt. Eitthvað fornt sem er ekki síður viðeigandi í samtímanum; eitthvað sem hefur lifað lengi en heldur áfram að þroskast – kannski eins og ostur eða vín. Í tónlistarlegu samhengi snýst ellismellurinn þannig um nostalgísk rokkmóment, falda fjársjóði eða upprifjun á gleymdum, góðum, gömlum tímum.

Orðið ellismellur er þó sennilega engan veginn rétt til þess að lýsa þeirri tónlist sem hljómar á fyrstu breiðskífu raftónlistarmannsins Khonnor. Hljómar raunar eins og fjarstæða. Handwriting er í fyrsta lagi samin af 18 ára óhörnuðum unglingi og ekki er liðinn áratugur síðan skífan kom fyrst út. Þannig er ekkert gamalt eða retro við plötuna; hún vísar ekki nema að litlu leyti aftur til fortíðar. Þar að auki vakti hún aldrei athygli á almennum plötumarkaði og komst ekki inn á einn einasta metsölulista. Er það ekki algjörlega andstæða þess að vera smellur? En samt: Handwriting fór að miklu framhjá mörgum tónlistargrúskurum þrátt fyrir að vera þrusugóð plata. Í því hraða samfélagi sem við lifum í má líta svo á að hún sé gömul og þar að auki gleymd. Það er mikil synd þar sem að hér á ferðinni smellin plata. Plata sem á ekkert síður erindi inn í spilarann í dag og á þeim tíma sem hún var gefin út.

Handwriting kom út árið 2004 á vegum Type Records; þetta er lítil, óháð plötuútgáfa sem gerir út frá Bretlandi og hefur m.a. gefið út íslenska nýklassíkerinn Jóhann Jóhannson. Hinsvegar var skífan tekin upp í kjallara Khonnors sjálfs í New Hampshire. Sagan segir að Connor Long, eins og hann heitir réttu nafni, hafi tekið hana upp á nokkurra mánaða tímabili með hljóðnema sem fylgdi forriti til að læra þýsku. Þá var hann 17 ára. Einnig hef ég heyrt að hvíslandi söngstíl Khonnors megi rekja til þess að hann hafi ekki viljað láta foreldra sína vita hvað hann var að bralla; hann átti jú að vera að læra þýsku – ekki semja tónlist. En þessa sögu get ég því miður ekki selt á uppsprengdu verði. Ágæt saga samt, ekki satt?

Ef við snúum okkur hinsvegar að plötunni sjálfri en ekki goðsögnunum kringum hana, þá má segja að við fyrstu hlustun bjóði Handwriting áheyranda kannski ekki upp á margt. Á milli skruðninga og suðs má vissulega greina dáleiðandi hljóðgervla og söng – en samt heyrir maður nú bara mestmegnis suð. Þar að auki dofna öll lögin út og þegar maður er rétt að ná í skottið á þeim, þá eru þau hreinlega á enda runninn. Sumt vissulega aðgengilegra en annað en á sama tíma einhvern vegin ofboðslega undarlegt. En því oftar sem maður hlustar – því betri verður platan (svona eins og gengur og gerist).

Ég ætla að reyna að lýsa þessu betur fyrir ykkur. Í grunninn er hljóðheimur Khonnors akústískt-elektrónískur; þar hittast kassagítar og rödd, hljóðgervlar og stafræn taktgerð. Með þetta hráefni skapar Khonnor ofboðslega melódískan og aðlaðandi heim; frumlegan en tormeltan. Hann vefur suðandi hljóðskúlptúrum í kringum þetta allt, svo melódíurnar týnast svolítið – þar til að áheyrandi er orðinn kunnugur þessari veröld, þá fara hlutirnir að gerast.

Lagasmíðarnar eru í raun fremur einfaldar; viðkunnalegur hljómagangur á kassagítar skreyttur með rafdútli, eða dreymandi, ambískir hljóðgervlar sem Khonnor raular yfir. En unglingurinn hefur þó merkilega naskt eyra fyrir smáatriðum og fegurð. Hljóðheiminum verður seint lýst sem dýrum eða stórum, hann er raunar afskaplega lágstemmdur og naumhyggjulegur. Aftur á móti er hann heilsteyptur, fullskapaður og sérlega fagur. Í því liggur að minnsta kosti hluti galdursins.

En fyrst ég fór að ræða um Khonnor, þá neyðist ég til að vikka sjóndeildarhringinn aðeins. Drengurinn á bakvið Khonnor er nefnilega lúmskt afkastamikilll og fjölbreyttur tónlistarmaður. Ef við hendum út neti Intersins með nafn Connor Long sem möskastærð má nefnilega fiska ýmistlegt upp úr djúpinu. Um árabil hefur kauði laumað út stuttskífum á vefinn undir ýmsum nöfnum. Grandma, Gaza Faggot og i, cactus eru allt einn og sami maðurinn, þ.e. Connor Long. Verkefnin er eins og ólík og þau eru mörg en eiga það þó sameiginlegt að vera í grunninn raftónlist.

Sem i, cactus framreiðir Connor einstaklega áheyrilegt og melódískt átta-bæta rafpopp. Fyrsta plata i, cactus kom út árið 2003, þ.e. ári fyrr en Handwriting, og birtist þá á síðunni 8-bitpeoples.com. Tónlistin er ekki alveg hundrað prósent 8-bit heldur nýtir hann sér ,,Geimbojinn“ sem þema á plötunni og fléttar saman við aðra syntha sem hafa aðeins fleiri bæt en leikjatölvan fyrrnefnda. Þetta gerir það að verkum að þeir sem ekki hafa týnt sér í nördisma 8-bæta tónlistar ættu líka að geta notið. Á síðast ári gaf hann svo út smáskífuna China Shipping Co. Lagið gaf hann út sem .mp3-skjal en í möppu fylgja svo með öll sömplin sem tónlistarmaðurinn vefur músíkina úr. Þetta er svolítið skemmtilegt, því það gefur aðdáendum færi á að endurhljóðblanda China Shipping Co. án þess að það sé eitthvað brjálað maus.

Fyrsta útgáfa Connors er hinsvegar undir nafninu Grandma. Stuttskífan Spinach Gas Room Spaghetti Straps kom út árið 2002, og inniheldur m.a. hið stórskemmtilega He Near Krxern sem heyra má hér að neðan. Sama ár kom svo önnur stuttskífa frá Grandma, en hún nefndist Bopping Around In A Skin Car og inniheldur fjögur lög rétt eins og hin. Í dag eru plötur Ömmunnar orðnar fjórar talsins og margt af því efni er bara ansi vel heppnað.

Að lokum er það svo hann Gaza Faggot. Gazastrandar homminn hefur gefið út eina plötu, Welcome to Softbo. Softbo er mun tilraunarkenndari en nokkuð annað sem kappinn hefur gert, en engu að síður heldur Connor fast í höfundareinkenni sín. Platan inniheldur sjö lög sem öll eru ólík innbyrðis en eiga það þó sameiginlegt að búa yfir einhverju kitlandi og spennandi elementi.

Allar þessar útgáfur Connor eru mjög naumhyggjulegar og hráar. Í því er ákveðinn sjarmi en raunar vildi ég óska að einhvert plötufyrirtæki með svolítinn pening á bankabókinni myndi taka kappann á arma sér og splæsa í alvöru hljóðversplötu. Connor er nefnilega klár og skemmtilegur tónlistarmaður sem enn hefur ekki, að mínu mati, fengið að blómstra eins og skildi. Kannski vill hann bara hafa þetta svona, hvað veit ég, en fróðlegt væri þó að heyra drenginn ganga lengra með tónlistarsköpun sína.

Hvað sem því líður þá er ellismellurinn Handwriting orðinn ómissandi hluti af plötusafninu mínu og hefur fengið að hljóma við ýmis tilefni. Platan er persónleg, frumleg og passlega skrítin sem gerir hana að því sem hún er.

Khonnor – Man From The Anthill (af Handwriting)

Khonnor – Megan’s Present (af Handwriting)

i, cactus – yellow cactus (af i, cactus)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

i, cactus – China Shipping Co.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Grandma – He Near Krxern (af Spinach Gas Room Spaghetti Straps)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Gaza Faggot -Horse With Gold Teeth (af Softbo)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.