Prinspóló gefur út í útlöndunum

Hljómplatan Jukk með Prinspóló kemur út um gjörvallan heim föstudaginn 10. júní næstkomandi á geisladiski og vínylplötu á vegum Kimi Records. Þetta þýðir að plötuna má nálgast í öllum betri hljómplötuverslunum allstaðar í heiminum. “Þetta er heimskuleg hugmynd,” voru fyrstu viðbrögð listamannsins þegar hann frétti af framtakinu. “Það er hægt að dánlóda plötunni frítt á prinspolo punktur com. Kaupum okkur frekar nammi fyrir peninginn,” sagði prinsinn gramur í bragði. Aðstandendum útgáfunnar tókst þó að sannfæra prinsinn um ágæti hennar meðal annars með því að segja honum að á vínylplötunni sé að finna aukalagið 18 & 100. “Það er gott lag,” sagði prinsinn sáttur við sína menn. Síðan fóru þeir saman að kaupa nammi.

Á haustmánuðum mun Prinspóló láta gamlan draum rætast og ferðast um sveitir Póllands ásamt hljómsveitinni Prinspóló. Tilgangur ferðarinnar er meðal annars að kynnast pólskri matarmenningu og færa Pólverjum þakkir fyrir að bæta hag íslensku þjóðarinnar. Mjög líklegt er að afrakstur ferðarinnar verði bók, kvikmynd, ný plata, og fjöldinn allur af aukakílóum.

Tónlistartímaritið Gaffa er búið að hlusta á Jukk og gaf henni fjórar stjörnur af sex mögulegum. “Það er ekki til neitt sem heitir sexstjörnu einkunnakerfi,” Sagði prinsinn ánægður með fjórar stjörnur af fimm.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.